Skólanámskrá leikskólans

Kofrasel – Súðavíkurskóli

2021 – 2022

Sækja námskrá á .docx

Skólanámskrá Kofrasels, leikskóladeildar Súðavíkurskóla, byggir á lögum um leikskóla frá árinu 2008, Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011, Skólastefnu Súðavíkur frá árinu 2013 og hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar. Hún er samin af Önnu Lind Ragnarsdóttur skólastjóra í samráði við Skólaráð Súðavíkurskóla og Fræðslunefnd Súðavíkurhrepps.

Inngangur

Skólanámskrá er kynning á starfsemi leikskólans og sérstöðu hans innan samfélagsins og utan. Í skólanámskrá er ekki eingöngu gerð grein fyrir daglegu starfi leikskólans heldur er uppeldisstarfið í heild sinni kynnt fyrir foreldrum, skólaráði, fræðslunefnd, öðrum íbúum sveitarfélagsins og öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér leikskólastarfið. Skólanámskrá tekur mið af lögum um leikskóla frá árinu 2008, Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011, Skólastefnu Súðavíkurhrepps frá árinu 2013 og þeim uppeldishugmyndum sem eru ríkjandi í Súðavíkurskóla.

Skólanámskráin skiptist í þrjá hluta, í fyrsta hlutanum er gert grein fyrir daglegu starfi leikskólans og þeirri sérstöðu sem hann byggir á. Í öðrum hluta er fjallað um þá þætti sem hafa mótandi áhrif á leikskólastarfið og í þriðja hluta er skýrt frá þeim tengslum sem börnin, starfsfólk og stofnunin sem slík eiga við nærsamfélagið.

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Leggja skal áherslu á styrkleika barna og hæfni og þörf þeirra fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Leikskólum ber að sinna forvarnarstarfi með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra. Starfsfólk leikskóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins.

Hagnýtar upplýsingar

Daglegt starf leikskóla mótast af því umhverfi sem þeir starfa í. Siðir og venjur samfélagsins móta sérstöðu hvers leikskóla, auk þess sem vinnutími foreldra hefur afgerandi áhrif. Dagskipulag leikskóla getur tekið breytingum á milli ára sérstaklega ef miklar sveiflur eru á vinnumarkaði og koma þarf til móts við þarfir foreldra. Hafa ber í huga að leikskóli þjónustar stóran hóp samfélagsins þó svo lítill hluti sé sýnilegur frá degi til dags í leikskólanum.

Leikskólinn Kofrasel hefur mótast af sínu samfélagi og hefur ákveðna sérstöðu sem gerð verður grein fyrir í þessum kafla. Kaflinn Hagnýtar upplýsingar skiptist í þrjá undirkafla þar sem daglegu starfi verður gerð skil í fyrsta hluta, skipulag skólaársins í öðrum hluta, og í þriðja hluta verður gert grein fyrir starfsreglum og ábyrgð foreldra á farsælu uppeldisstarfi leikskólans.

Daglegur rekstur

Leikskólinn Kofrasel er rekinn sem deild innan Súðavíkurskóla sem samanstendur af leik- grunn- og tónlistardeild. Deildirnar voru sameinaðar haustið 2009 undir eina stjórn. Deildirnar eru í sama húsnæðinu og gefst því tækifæri til að samnýta ýmis rými, búnað og starfsaðstöðu, allt eftir þörfum starfsins hverju sinni. Eins og stendur höfum við eina kennslustofu til eigin afnota fyrir utan leikskólahúsnæðið sjálft. Því má segja að Kofrasel sé tveggja deilda leikskóli. Þar geta dvalið 21-23 börn í senn. Húsnæðið skiptist í lítinn fataklefa, mjög rúmgóða leikskólastofu sem skiptist í alrými, minni leikherbergi, mjög lítið baðherbergi og skemmtilegt leikloft auk kennslustofu sem tilheyrir skólahúsnæðinu og er mjög rúmgóð. Yfir fataklefanum er loft sem nú er orðið að barnabókasafni, en þess skal getið að starfsmenn geta nýtt sér alla aðstöðu í húsinu. Önnur aðstaða er í húsnæði grunnskólans, t.d, kaffistofa starfsfólks, eldhús, verkgreinastofur, sérkennslustofa og íþróttahús. Útileiksvæðið er gott með góðri tengingu við leiksvæði grunnskólans.

Opnunartími

Kofrasel er gjaldfrjáls leikskóli í sex stundir á dag eða frá 7:45 til 14:00. Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:00 flesta virka daga ársins. Í desember er leikskólinn lokaður á sama tíma og grunnskólinn fer í jólafrí og á milli jóla og nýárs, sem og í kringum páskafrí, ef þurfa þykir. Það gæti orðið breyting á eftir leyfisdaga fjölda starfsmann, þeir eru mismunandi eftir aldri starfsmanna hverju sinni. Börn og starfsfólk taka sér fimm vikna sumarfrí á ári og er leikskólinn þá lokaður. Reynt er að hafa lokunina til skiptis þ.e. fyrri hluti sumars eitt árið og seinni hluta sumar næsta ár.

Dagskipulag

Þegar dagskipulag leikskóla er ákveðið þarf að hafa í huga hvernig samsetning barnahópsins er og hvaða þörfum þarf að fullnæga. Dagskipulag getur því breyst eftir samsetningu barnahópsins. Í Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011 kemur fram að í daglegu starfi leikskóla skal leggja áherslu á umhyggju, tillitssemi og samhjálp meðal allra í leilkskólanum. Jafnframt skal nýta tækifæri sem gefast til að fjalla um samkennd og samlíðan gagnvart öðru fólki. Lögð skal áhersla á að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings og veita börnum stuðning í daglegum samskiptum.[1] Skipulag og ákveðin tímasetning á daglegum athöfnum gefur foreldrum og öðrum ákveðnari mynd af starfi leikskólans og tryggir samfelldan tíma til leikja og náms.

Dagskipulag

07:45

8:00-8:30

8:30-9:00

9:00-9:30

9:30-11:00

11:15-11:40

11:45-12:45

13:00-14:30

14:30-15:00

15:00-16:00

Leikskólinn opnar/tekið á móti börnum

Morgunmatur/samkennsla

Hópatímar

Frjáls leikur

Útivera/íþróttahús

Hádegismatur

Hvíld/rólegur leikur

Útivera/ ávaxtastund

Síðdegishressing

Frjáls leikur/leikskólinn lokar

Í Starfsmannahandbók Kofrasels koma fram skýrar verklagsreglur fyrir starfsfólk leikskólans í tengslum við daglegar athafnir. Alltaf skal hafa öryggi barnanna og virðingu fyrir þörfum þeirra að leiðarljósi. Dagskipulagið er byggt upp samkvæmt ákveðnum hrynjanda. Við byrjum daginn rólega, upp úr hádegi náum við toppnum og róum svo starfsemina fram að lokun.

Opnun og lokun
Leikskólinn opnar kl 7:45 og lokar kl:16:00. Foreldrar gera dvalarsamning þegar þeir sækja um leikskólavist fyrir barn/börn sín. Ætlast er til að foreldrar virði umsaminn vistunartíma. Heimilt er að rukka foreldra um aukagjald ef dvalartími barns fer ítrekað yfir umsaminn vistunartíma. Barni/börnum skal fylgt í og úr leikskóla af foreldrum eða öðrum sem foreldrar treysta. Starfsfólki skal gert viðvart þegar barn kemur í leikskólann einnig þegar það er sótt. Starfsfólk og foreldrar hjálpast að við að skapa notalegt andrúmsloft í fataklefanum. Það eykur öryggi barnanna og hjálpar þeim að sættast við aðskilnað frá foreldrum.

Samkennsla
Elstu börn leikskólans eru í samkennslu 1 – 3 tíma á hverjum morgni, fer þó eftir stundatöflu hverju sinni. Samkennslan fer fram í heimastofu yngstu deildar grunnskólans eða í sérgreinastofum. Samkennslan er á ábyrgð leik- og grunnskólakennara sem vinna saman að því að skipuleggja kennslustundirnar og sinna nemendum. Samkennslufögin eru ; íslenska, stærðfræði, upplýsingar- og tæknimennt, myndmennt og íþróttir. Að auki sér starfsmaður leikskóladeildar um heimilisfræðikennslu fyrir leikskólabörn. Í samkennslu er lögð áhersla á samskipti og samkennd. Leikskólabörnin kynnast þeim umgengnisreglum sem gilda í grunnskóladeild bæði á skólalóð og á göngum. Þau kynnast kennurum og öðru starfsfólki grunnskóladeildar og læra að rata um húsnæði skólans. Þau borða morgunmat í grunnskólanum þá morgna sem þau eru í fyrstu tvo tímana og fara í frímínútur með grunnskólabörnum þá morgna.

Hópatímar
Í hópatíma er hver hópstjóri ábyrgur fyrir sínum hóp. Hann skal vera tilbúinn með verkefni við hæfi hópsins og sem styðjast við markmið og námsþætti Aðalnámskrá leikskóla, á hverjum morgni. Hópatímar eru í hálfa klukkustund í senn milli 8:30 og 9:00, en vert er að gefa sér tíma til þess að byrja og ljúka hópatímanum t.d. ef ganga þarf frá eða sækja efnivið. Á mánudögurm er tekið fyrir myndmennt og tengd efni. Á þriðjudögum er farið í fín- og grófhreyfingar með ýmsu sniði. Á miðvikudögum eru það mannasiðir og reglur notast er viðstefnuna um Uppeldi til ábyrgðar. Á fimmtudögum er það sögur og ævintýri af ýmsum toga. Á föstudögum köllum við það heimsþekking. Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla eru námssvið leikskóla helstu áhersluþættir í leikskólauppeldi. Grunnþættir menntunar eru samkvæmt nýrri Aðalnámskrá; læsi, sjálfbæni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Samkvæmt lögum um leikskóla skal meginmarkmið leikskólastarfsins vera, að efla alhliða þroska barna og rækta tjáningar- og sköpunargáfu þeirra í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd barna og trú á eigið ágæti.[2] Ekki er um beina kennslu að ræða eins og í grunnskóladeild heldur skal leggja áherslu á leikinn sem náms og þroskaleið. Helstu þroskþættir eru líkams- og hreyfiþroski, tilfiningaþroski, vitsmunaþroski, málþroski, félagsþroski og félagsvitund, fagurþroski og sköpunarhæfni, siðgæðisþroski og siðgæðisvitund.[3] Hópstjórar skrá hópavinnu fram í tímann og nota undirbúningstíma til þess að skipuleggja þá. Hópstjórar þurfa einnig að skrá hvern hópatíma fyrir sig, t.d. hvað var gert og hvernig gekk. Stundum vinna hópstjórar saman að ákveðnum verkefnum sem þeir þá undirbúa í sameiningu.

Morgunmatur, hádegismatur og síðdegishressing
Fullur vistunartími á leikskóladeild inniheldur þrjár máltíðir sem foreldrar greiða fyrir, morgunmat, hádegsimat og ávaxtastund/síðadegishressingu. Við matarbroðið gefst börnum og starfsfólki gott tækifæri til þess að æfa borðsiði og spjalla saman um daginn og veginn. Hver máltíð hefur fastmótaðar reglur sem byggja á virðingu, hjálpsemi og snyrtimennsku. Ýtt er undir sjálfshjálp barnanna og litið á mistök sem eðlilegan hluta í þroskaferli þeirra. Ef barn hellir niður nær það í bréf og þurkar upp eftir sig, ef barni langar í meira biður það kurteislega um að fá meira. Bera á matinn snyrtilega fram og huga að hollustu og næringarinnihaldi í sem mestu samræmi við markmið Lýðheilsustöðvar.

Frjáls leikur
Leikur er barni eðlislægur, mikilvægasta náms og þroskaleið þess og ríkjandi athöfn. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og því fyrirferðamikill í dagskipulaginu. Frjáls leikur er skipulagður af börnunum sjálfum en ekki fullorðnum, þar fer fram nám á forsendum barnsins þar sem það endurspeglar eigin reynslu. Í Aðalnámskrá leikskóla kemur fram að í leik sé barnið

 • sjálfrátt og sjálfstætt
 • stjórnandi og skapar leikinn úr eigin upplifunum og hugarheimi
 • að taka ákvarðanir og leysa úr vandamálum
 • einbeitt, gleymir stund og stað
 • upptekið af augnablikinu, það er ferlið sem skiptir máli
 • laust við utanaðkomandi reglur aðrar en þær sem það setur sjálft eða í samráði við leikfélaga.[4]

Þar kemur einnig fram að í leik tjái barn tilfinningar sínar og fái útrás fyrir þær. Barnið lærir samskiptareglur og að virða rétt annarra í gegnum leikinn.[5] Börn þurfa tíma til þess að hefja leikinn og samfeldan tíma til þess að þróa hann og dýpka. Á hverjum degi er gert ráð fyrir tveimur klukkutímalotum fyrir frjálsan leik. Börnin velja sig inn á ákveðin svæði, barnafjöldi er takmarkaður á sumum svæðum, einkum vegna plássleysis. Börnin eru að mestu leiti í friði í frjálsa leiknum, starfsfólk gengur þó á milli herbergja til þess að kanna að allt sé í lagi. Markmið með frjálsa leiknum er að;

 • Gera börnin ábyrg fyrir eigin vali
 • Ýta undir sjálfshjálp og sjálfstæði
 • Ýta undir sköpunargleði og lífsleikni

Börnin leita til starfsmanna ef þau lenda í vandræðum en þau eru alltaf hvött til þess að reyna að leysa málin sjálf og komast að samkomulagi.

Útivera
Útivera er stór þáttur í daglegu starfi Kofrasels. Sumar, vetur, vor og haust förum við út tvisvar á dag. Börnin æfa sig í fataklefanum í að klæða sig sjálf í og úr og ganga snyrtilega um. Við leggjum áherslu á að börnin hengi upp fötin sín eða gangi frá þeim í þurrkskápinn ef fötin eru blaut. Það veltur mikið á foreldrum að börnin njóti útiverunnar, fötin þurfa að hæfa veðri, aldri og þroska barnanna þannig að þau njóti sín sem best. Börnin eru í frjálsum leik í útiverunni. Hlutverk starfsmanna er að gæta öryggi barnanna fyrst og fremst, vera vakandi yfir líðan þeirra og samskiptum og halda lóðinni snyrtilegri. Yngstu börnin fara ekki út ef frost fer að -6° eða meira, eða ef vindkæling er mikil. Eldri börnin fá að koma inn í forstofu og hlýja sér örlitla stund. Hlýr fatnaður sem heftir ekki hreyfigetu barnsins hjálpar því til þess að njóta útiverunnar og efla þol og þrótt.

Skipulag skólaársins

Skipulag skólaársins er gefið út í skóladagatali til foreldra. Skal það vera tilbúið og samþykkt af fræðslunefnd og skólaráði þegar leikskóladeild hefur störf eftir sumarfrí. Á skóladagatalinu er gerð grein fyrir helstu viðburðum skólaársins og þeim dögum sem skera sig frá hefðbundnu skólastarfi.

Frídagar

Fræðslunefnd Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að starfsfólk Kofrasels fái tvo starfsdaga og einn námskeiðsdag á ári. Þessir dagar eru notaðir til endurmenntunar, endurmats á starfi og til skipulaggningar. Leikskólinn er lokaður þessa daga. Starfs- og námskeiðsdagar eru merktir inn á skóladagatalið og auglýstir með fyrirvara.

Leikskólinn lokar 25 virka dag yfir sumarmánuðina vegna sumarleyfa starfsfólks, þá er lokað milli jóla og nýárs. Hreppurinn áskilur sér rétt til þess að loka á öðrum tímum vegna breytinga og viðhalds. Slík lokun er auglýst með góðum fyrirvara.

Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl og foreldrafundir eru sérmerktir á skóladagatali og haft er samband við foreldra um tímasetningu funda. Starf leikskólans helst óbreytt þá daga.

Viðburðardagar

Allt árið um kring lyftum við okkur upp. Einu sinni í mánuði eru skemmtilegar uppákomur í leikskólanum þar sem við gerum okkur dagamun, ýmist í leikskólanum sjálfum, förum í lengri eða styttri ferðir eða fáum til okkar gesti. Þessir dagar eru merktir inn á skóladagatalið til upplýsinga fyrir foreldra. Þeir eru einnig auglýstir sérstaklega ef aðkomu foreldra er óskað á einhvern hátt, að öðru leiti renna þeir inn í hefðbundið skipulag. Samspil leik- og grunnskóla nær einnig til sameiginlegrar þátttöku í ýmsum uppákomum sem fyrir löngu hafa unnið sér fastan sess hjá íbúum í Súðavík.

Afmæli
Í leikskólanum er haldið upp á afmæli barnanna. Að eiga afmæli er stór áfangi í lífi hvers barns og leggjum við okkur fram um að gera afmælisdaginn eftirminnilegan. Afmælisbarnið fær skreytta kórónu og velur sér skreyttan disk og diskamottu til að borða með í hádegismatnum. Eftir hádegi, syngjum við afmælissönginn og barnið býður íspinna sem leikskólinn kaupir. Afmælisbarnið fær svo að gjöf mynd af sér með kveðjum frá leikskólanum.

Dagur leikskólans
Við höldum dag leikskólans hátíðlegan með því að vera sýnileg í samfélaginu. Við höldum mynda- og myndlistasýningu í andyri búðarinnar og svo er leikskólinn opinn öllum sem áhuga hafa á að koma í heimsókn.

Grímuball
Foreldrafélag Súðavíkurskóla heldur grímuball fyrir börnin í sal grunnskólans á öskudag. Börnin koma í fylgd með foreldrum eftir að skóladegi líkur, klædd í grímubúning. Kötturinn er slegin úr tunnunni, farið í samkvæmisleiki, dansað og veitt verðlaun fyrir frumlegasta búninginn. Sum barnanna halda áfram að maska með eldri nemendum skólans og er þá gengið í hús, sungið og fengið nammi í staðin.

Árshátíð
Leikskólabörnin taka þátt í árshátíð Súðavíkurskóla. Mikið er lagt í hvert atriði og hefur sýningin farið fram á sviði Samkomuhússins. Foreldrafélagið býður svo í kökuhlaðborð eftir sýningu. Árshátíðin hefur verið haldin á laugardegi og í staðin er frí einhvern virkan dag.

Útidagur
Þegar líða tekur á veturinn og sól hækkar á lofti eykst útivera leikskólabarnanna. Á útidegi förum við í stutta ferð frá leikskólanum og fáum okkur heitt kakó.

Útskriftarferð
Elstu börn leikskólans fara í útskriftarferð með kennaranum sínum. Markmið ferðarinnar er að hún sé bæði fræðandi og skemmtileg. Dæmi um ferð er t.d. að heimsækja Náttúruminjasafnið í Bolungarvík þar sem börnin fá fræðslu um einhverja ákveðna dýrategund sem hefur heimsótt Vestfirði og fá fylgd um safnið. Börnunum er svo boðið út að borða í hádeginu.

Gróðursetning og leikjadagur
Öll börn leikskólans taka þátt í gróðusetningarverkefni Súðavíkurskóla fyrir ofan byggðina, eða eins og þau geta. Elstu nemendurnir merkja sér sitt tré og hjálpa til við gróðursetningu. Á hverju ári er svo leikjardagur þar sem börn og starfsfólk Súðavíkurskóla skemmta sér saman í skipulögðum leikjum. Dagurinn endar svo á sameiginlegri grillveislu.

Skólaslit
Útskrift elstu barna leikskólans fer fram á sama tíma og skólaslit grunnskólans. Þau fá kveðjugjöf og útskriftarskjal.

Lambaferð
Á hverju vori förum við í heimsókn í fjárhús þar sem við skoðum og klöppum litlu lömbunum og fræðumst um kindurnar. Fjárhúsin eru í göngufæri frá leikskólanum.

Sumarhátíð
Fyrir sumarlokun höldum við sumarhátíð. Starfsmenn og nemendur vinnuskólans skipuleggja þrautabrautir og leiki og halda utan um skemmtunina. Við ljúkum hátíðinni með sameiginlegum hádegisverði.

Dagur íslenskrar tungu
Við tökum þátt í uppákomu grunnskólans á Degi íslenskrar tungu.

Foredramorgunkaffi
Fyrir jólaföstu bjóðum við foreldrum að drekka með okkur morgunkaffið. Bornar eru fram veitingar sem börnin hafa búið til ásamt öðru bakkelsi. Foreldrar, starfsfólk og börn eiga svo saman notalega stund.

Jólaferð
Um miðjan desember förum við í jólaferð, annaðhvort í nágrannasveitarfélagið eða í heimahús. Við skoðum jólaskreytingar, dönsum í kringum jólatré og fáum okkur næringu.

Jólagrín
Öll börn leikskólans taka þátt í jólagríni með yngstu börnum grunnskólans. Jólagrín er skemmtun fyrir foreldra, kennarar og nemendur sjá um að undirbúa og skipuleggja skemmtiatriði.

Litlu-jól
Síðasta skóladag grunnskólans fyrir jól höldum við litlu-jól. Við kveikjum á kertum, hlustum á jólasögur og syngjum jólalög. Í lok grunnskóladagsins dansa börn og starfsfólk Súðavíkurskóla í kringum jólatréð.

Upplýsingar

Til að auðvelda dvöl barnsins í leikskólanum eru ýmiss mikilvæg atriði sem foreldrar og starfsfólk verða að hafa í huga en þau lúta aðalega að vellíðan og öryggi barnsins.

Áföll.

Börn eru viðkvæm fyrir breytingum. Það sem okkur kann að finnast léttvægar eða jákvæðar breytingar getur komið illa við börnin og framkoma þeirra breyst til hins verra gagnvart starfsfólki og barnahópnum. Alvarleg áföll eins og dauðsfall í fjölskyldu, skilnaður forleldra, alvarleg veikindi eða breytingar á búsetuháttum hafa mikil áhrif á börn. Við biðjum því foreldra að láta okkur vita um þær breytingar sem börnin eru að ganga í gegnum. Það er auðveldara að skilja og stiðja ef upplýsingar eru fyrir hendi. Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og ber að halda trúnaði gagnvart foreldrum, börnum og samstarfsfólki.

Fatnaður

Leikskólinn er vinnustaður barnanna. Því er nauðsynlegt að þau séu í fötum sem auðvelt er að hreyfa sig í og má sjá á. Börnin vinna með margskonar efni og í hita leiksins geta alltaf orðið óhöpp.

Börnin skulu klædd eftir veðri. Við erum mikið úti og ef börnunum er kalt eða þau eru blaut njóta þau ekki útiverunnar. Á Íslandi er allra veðra von, regnföt, stígvél og hlýr fatnaður þarf því alltaf að vera til staðar.

Aukaföt eru geymd í körfu merktri hverju barni. Í körfunni er gott að vera með auka nærföt, sokka, buxur, bol og peysu. Gott er að fara yfir körfuna einu sinni í viku og bæta í hana ef einhvað vantar. Einnig þarf að muna að taka allan fatnað heim á föstudögum

Ferðir.

Allar ferðir sem farnar eru á vegum leikskólans eru gjaldfrjálsar og á ábyrgð skólastjóra. Börnin eru tryggð í slíkum ferðum. Við förum fótgangandi í ferðir innanbæjar og út í Sumarbyggð. Í lengri ferðir er yfirleitt farið með rútu en í einstaka tilfellum er farið á einkabílum. Foreldrar eru beðnir að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir gefi starfsfólki leyfi til þess að fara með börnin í einkabíl enda sé fyllsta öryggis gætt og allir í bílbeltum/bílstólum. Þá eru foreldrar einnig beðnir að skrifa undir leyfi vegna myndatökum sem eiga sér stað af börnunum í leik og starfi á leikskólanum.

Frídagar og leyfi barna.

Öll börn í leikskólanum Kofraseli skulu taka fimm vikna samfellt sumarfrí. Slíkt frí er háð sumarlokun. Veikindi og nokkurra daga frí dragast ekki frá sumarfríi barnanna. Gott er að foreldrar láti vita ef börnin fara í frí. Vakin er athygli á því að stutt frí eða veikindi koma ekki til lækkunar á gjaldskrá.

Leikföng.

Ekki er æskilegt að börn komi með dót að heiman nema sérstaklega sé auglýst eftir því. Ef það skiptir barnið miklu máli má það koma með einhvern smáhlut eins og bangsa, bók, eða mynd, hafa það smá stund en geyma síðan í hólfinu sínu. Leikskólinn tekur ekki ábyrgð á einkaleikföngum.

Lyfjagjöf.

Af öryggisástæðum gefur starfsfólk barni ekki lyf nema fyrir liggi vottorð frá lækni og samþykki frá skólastjóra. Æskilegt er að foreldrar hagi lyfjagjöf barna sinna þanni að hún sé ekki á ábyrgð leikskólans.

Slys og veikindi.

Í barnahóp geta alltaf orðið slys. Ef barn meiðir sig illa er strax haft samband við foreldra. Leikskólinn greiðir fyrstu heimsókn til læknis.

Það er áríðandi að foreldrar virði þá reglu að ekki er tekið á móti veikum börnum í leikskólanum. Veik börn hafa ekki fulla starfsorku, þeim líður illa og geta smitað út frá sér. Börn geta verið veik þó þau séu ekki með hita. Ýmsir sjúkdómar eins og augnsýkingar og hlaupabóla eru bráðsmitandi og eiga börn að vera heima meðan sýking gengur yfir. Foreldrar eru beðnir um að virða það og huga að ábyrgð sinna gagnvart eigin barni og annarra börnum.

Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra. Ætlast er til að veik börn verði sótt eins fljótt og kostur er.

Mat, skólaþróun og áætlanagerð

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í leikskólum er að:

 • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks leikskóla, viðtökuskóla og foreldra,
 • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár leikskóla,
 • auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum,
 • tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum. [6]

Hver skólastofnun ákveður á hvern hátt skólastarf skuli metið, hver tekur þátt í matinu hverju sinni og á hvernig matið er kynnt. Súðavíkurskóli leggur áherslu á Uppbyggingar- Uppeldi til ábyrgðar sem stefnu skólans er viðkemur heildarmati á skólastofnuninni bæði sem lærdómsstofnun og ekki síður sem vinnustað. Gerð er fimm ára matsáætlun í senn og henni fylgt eftir eins og lög kveða á um, reynt er að taka alla matsþætti á þessum fimm árum.

Innra mat

Innnra mati á leikskólastarfi er einnig ætlað að veita upplýsingar um starfshætti leikskólans, stuðla að umbótum og auknum gæðum og vera liður í þróun skólastarfs leikskólum.Með kerfisbundnu mati er greint hvað gengur vel og hvað miður og síðan teknar ákvarðanir um umbætur á grundvelli niðurstaðna.[7] Skólapúslinn hefur verið fenginn til þess að sjá um foreldra- og starfsmannakannanir, sem og nemendakannanir.

Foreldrar taka þátt í innra mati leikskóladeildarinnar annað hvert ár en þá er lögð fyrir könnun þar sem spurt er um upplifun foreldra af leikskólastarfinu. Niðurstöður könnunnarinnar eru kynntar viðkomandi aðilum.

Starfsfólk tekur þátt í innra mati með því að svar könnun annað hvert ár, þar sem spurt er um upplifun starfsfólks af leikskólastarfinu og aðbúnað á vinnustað. Niðurstöður könnunar er kynnt á starfsmannafundi og viðeigandi aðilum. Foreldrafélagið metur hvort starf leikskóladeildar sé í samræmi við lög um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá leikskóladeildar á hverju hausti. Foreldrarfélagið skilar fræðslunefnd niðurstöðum og kynnir fyrir skólastjóra.

Starfsfólk leik- og grunnskóladeildar metur árangur leikskólastarfsins

 • með reglulegum skráningum þar sem fylgst er með þroska leikskólabarnanna
 • með skráningum á hópavinnutímu þar sem fram koma upplýsingar um hvað fór fram í hverjum tíma fyrir sig og hvernig það gekk
 • með þroskaprófum t.d Hljóm-2
 • með markmiðsmiðaðri vinnu og samantekt í lok skólaárs.

Starfsfólk heldur utan um athuganir sínar en í lok skólaárs er upplýsingum safnað saman og geymdar í eitt ár.

Skólaþróun

Súðavíkurskóli vinnur að mótun heiltæks skóla fyrir börn frá eins árs til sextán ára. Liður í því verkefni er samkennsla elstu barna leikskólans með yngstu börnum grunnskólans. Við lok skólaárs er starf vetrarins metið af kennurum leik- og grunnskóladeildar og áætlun gerð fyrir næsta vetur út frá barnafjölda, samsetningu starfsmannahópsins og gengi síðasta árs. Samkennsla leik- og grunnskólabarna er því í sífeldri þróun milli ára.

Starfsfólk leik- og grunnskóla metur árangur samvinnu beggja skólastiga og hvort markmiðum hafi verið náð við lok skólaárs. Skólastjóri vinnur út frá þeim niðurstöðum og gerir áætlanir fyrir næsta skólaár .

Áætlanagerð

Skólastjóri setur saman starfsfáætlun fyrir hvert skólaár sem samþykkt er af foreldrafélagi Súðavíkurskóla og fræðslunefnd. Starfsáætlun er kynnt fyrir foreldrum að hausti og send inn á hvert heimili. Í starfsáætlun kemur fram hvernig skólastarfinu er háttað og einstaka liðir starfsins útskýrðir. Skólastjóri setur einnig saman starfsáætlun fyrir starfsmenn Súðavíkurskóla þar sem starf skólaársins er kynnt, helstu markmið og endurmenntun starfsfólks.

Öryggismál

Einu sinni á ári er haldin brunaæfing í Súðavíkurskóla. Æfð eru viðbrögð við eldsvoða og rýmingu. Gott er að hafa börn í inniskóm því ekki gefst alltaf tími til að klæða sig í yfirhafnir og skó þegar eldur verður laus.

Lögreglan heimsækir okkur að vori og fer yfir umferðarreglur og öryggismál. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og biðjum við þá um að virða umferðareglur, þó svo að umferð sé ekki mikil geta slys og óhöpp átt sér stað. Sjálfsögð öryggisatriði eins og bílbeltanotkun, bílstólar og hjálmanotkun hafa bjargað mannslífum og komið í veg fyrir örkuml.

Vinnueftirlitið og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða gera úttekt á starfs- og leikumhverfi einu sinni á ári.

Ef barn slasast í leikskólanum fer af stað eftirfarandi aðgerðaráætlun.

Minni háttar meiðsl:

Kennari metur hvort ástæða er til þess að hafa samband við foreldra/ forráðamenn. Óhapp tilkynnt foreldrum/forráðamönnum þegar barnið er sótt.

Slys:
Ef slys ber að höndum skal viðkomandi starfsmaður hlúa að hinum slasaða og fá annan starfsmann til þess að hafa ofan af fyrir hinum börnunum. Starfsmenn skulu halda ró sinni til þess að hlífa hinum slasaða og einnig hinum börnunum. Strax á að hafa samband við við foreldra/forráðamenn og láta vita af slysinu. Ef þörf er á að koma nemandanum undir læknishendur skal athuga hvort foreldrar/ forráðamenn hafi tök á því. Ef svo er ekki, skal starfsfólk skólans sjá um það. Ef um meiriháttar slys er að ræða skal strax hafa samband við lækni og kalla eftir sjúkrabíl.

Öll meiðsli og slys skal skrá í slysadagbók skólans. Taka skal fram nafn nemanda, dagsetningu, allar aðstæður, hvaða starfsmenn hafi komið að því að leysa málin og hvernig hafi verið brugðist við. Þessi lýsing skal vera ýtarleg

Tengsl við nærsamfélagið

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn segir einhverstaðar því er mikilvægt að halda tengslum við nærsamfélagið. Tengsl Kofrasels eru margvísleg þrátt fyrir smæð samfélagsins. Skólastjóri Súðavíkurskóla og fulltrúi starfsfólks sitja reglulega fundi með fræðslunefnd Súðavíkur. Fræðslunefnd styður vel við bakið á skólastjóra skólans og tekur virkan þátt í mótun skólastarfsins. Ekki er um eiginlega stoðþjónustu að ræða í Súðavík en skólinn er með samstarfssamning við Dr. Ingu Báru Þórðardóttur sálfræðing og nú hefur verið gerður samningur við skóla-og fjölskylduráð Ísafjarðarbæjar, til að fá aðgengi að sérfræðiþjónustu sem á þarf að halda. Samstarf heimilis og skóla er hornsteinn að góðu leikskólastarfi.

Smæð skólans gerir það að verkum að bein og náin samskipti eru milli foreldra og starfsfólks. Grunn- leikskóla- og tónlistardeild vinna náið saman að uppbyggingu heilstæðs skóla fyrir börn á aldrinum 1 – 16 ára.

Í þessum kafla verður nánar gert grein fyrir þessum tengslum.

Stoðþjónusta

Súðavíkurskóli nýtur sérfræðiþjónustu frá Tröppu sem er einskafyrirtæki sem býður upp á alhliða sérfræðiþjónustu, eins og nú er komið er skólinn eingöngu að nýta sér talmeinafræðikennslu þaðan. Dr. Inga Bára Þórðardóttir sálfræðingur og námsráðgjafi sér um þá þjónutu. Eva Rós sjúkraliði hefur verið ráðin til að starfa sérstaklega með tvo skjólstæðinga okkar, en annar þeirra fær einnig aðstoð þroskaþjálfa frá Ísafirði.

Nemendaverndarráð Súðavíkurskóla skipar:

 • Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri Súðavíkurskóla
 • Halldóra Pétursdóttir leiðbeinandi Súðavíkurskóla
 • Eva Rós Gunnarsdóttir, sjúkraliði og nemi í iþjuþjálfun, sér um sérkennlsu í Súðavíkurskóla
 • Inga Bára Þórðardótti sálfræðingur og námsráðgjafi.
 • Þóra Marý Arnardóttir félagsfræðingur
 • Helena Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur
 • Arna Kristinsdóttir ráðgjafi í barnavernd (þegar við á)

Skólastjóri metur þörfina á sérfræðiaðstoð út frá samsetningu barnahópsins hverju sinni ásamt nemendaverndarráði skólans. Foreldrar/forráðamenn þurfa að gefa samþykki sitt fyrir því að leita sé eftir sérfræðiaðstoð fyrir barn.

Starfsfólk Skóla- og fjölskylduskrifstofu hefur milligöngu um samskipti við Greiningarstöð ríkisins eða aðra greiningaraðila ef þörf krefur.

Samstarf heimilis og skóla

Samkvæmt skólastefnu Súðavíkurhrepps skulu deildir Súðavíkurskóla leggja ríka áherslu á öflugt samstarf við heimili nemenda sinna. Þar segir að forsenda fyrir árangusríku skólastarfi sé samvinna kennara og foreldra sem deila þekkingu sinni á skipulagi og starfi skólans og þeim markmiðum sem æskilegt megi teljast að náist í skólastarfinu út frá færni og þroska hvers og eins nemenda[8].

Markmið með foreldrasamstarfi er

 • að veita foreldrum upplýsingar um starfssemi leikskóladeildarinnar,
 • að veita foreldrum upplýsingar um þroska og stöðu barnsins í leikskólanum,
 • að afla upplýsinga um aðstæður og uppeldisviðhorf foreldra,
 • að stuðla að þátttöku foreldra í leikskólastarfinu,
 • og að stuðla að samskiptum sem byggja á virðingu og trausti.

Samstarfið á að byggja á gagnkvæmu upplýsingastreymi sem fer fram í daglegum samskiptum kennara og foreldra, á skipulögðum foreldrafundum og í foreldraviðtölum.

Upphaf leikskólagöngu

Samstarf heimilis og skóla hefst áður en barnið byrjar í leikskólanum. Foreldrar mæta í viðtal við skólastjóra og eða starfsmann leikskóladeildar til þess að ákveða aðlögunartíma barnsins og fá upplýsingar um starfshætti leikskólans. Sá er viðtalið tekur skal kynna stefnu skólans, starfsfólk og húsakynni fyrir foreldrum og foreldrar skulu upplýsa um hagi barnsins og þroska þess.

Aðlögunartími er skipulagður í samráði við foreldra. Börn hafa misjafna aðlögunarhæfni og ber að taka fullt tillit til þess þegar aðlögunartímabilið er skipulagt. Mikilvægt er að barnið nái að mynda tengsl við einn ákveðin starfsmann í aðlögunarferlinu og skal því sami starfsmaður taka á móti barninu á hverjum degi og sinna frumþörfum þess til að byrja með.

Foreldrar dvelja með barninu í leikskólanum í aðlögunarferlinu og fá þannig tækifæri til að kynnast starfinu og starfsfólki leikskólans.

Dagleg samskipti

Starfsfólk og foreldrar skulu leitast við að byggja samskipti sín á virðingu og trausti. Samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 er starfsfólk leikskólans bundið trúnaði um málefni leikskólabarnsins.[9] Foreldrar eru beðnir um að ræða við starfsfólk leikskólans ef einhvað kemur upp á í leikskólastarfinu. Því með réttri upplýsingagjöf og samvinnu má gera góðan skóla enn betri.

Foreldrar og starfsfólk eiga að gefa sér tíma til þess að ræða saman um það helsta sem drifið hefur á daga barnsins hvort heldur sem er í leikskólanum eða heima við.

Nauðsynlegt er að foreldrar upplýsi starfsfólk leikskólans um breytingar sem verða á högum barnsins og fjölskyldulífi. Börn eru mjög næm á breytingar og sýna það oft með breytingum í hegðun eða líðan.

Skipulagðir fundir

Á starfsáætlun Kofrasels er gert ráð fyrir einum foreldrafundi að hausti þar sem skipulag vetrarins er kynnt og foreldraviðtölum að vori þar sem farið er yfir helstu þroskaáfanga hvers barns.

Foreldrafundurinn er skipulagður af skólastjóra og er ætlaður foreldrum leikskólabarna. Á þeim fundi kynnir skólastjóri starfsemi vetrarins fyrir foreldrum, breytingar ef einhverjar hafa orðið á starfsmannahaldi eða skipulagi leikskólans og helstu áhersluatriði. Foreldrum gefst kostur á að ræða almennt um leikskólastarfið og koma með hugmyndir. Umræður um einstaka barn eða starfsmann eiga ekki heima á slíkum fundi.

Foreldraviðtöl eru á vorönn skólaársins. Í foreldraviðtölum fá foreldrar upplýsingar um þroska og stöðu barnsins í leiskólanum sem byggjast á skráðum athugunum starfsmanns af barninu í leik og starfi og þekkingu skólastjóra á helstu þroskaáföngum leikskólabarna. Skólastjóri ber ábyrgð á foreldraviðtölum en getur falið hópstjórum að taka þau. Farið er með allar upplýsingar um barnið sem trúnaðarmál.

Foreldrafélag og Skólaráð

Samkvæmt lögum um leikskóla nr 90/2008 er skólastjóri ábyrgur fyrir því að starfandi sé foreldraráð/foreldrafélag við hvern leikskóla. Samkævmt nýrri aðalnámskrá 2011 ber skólastjóra að stofna skólaráð sem tekur yfir starfi foreldraráðs. Fyrir skólaráð skal leggja skólanámskrár og skóladagatöl til samþykktar. Einnig skal bera undir skólaráð allar meiriháttar breytingar á starfssemi leikskólans.[10]

Við Súðavíkurskóla er starfandi foreldrafélag sem er sameiginlegt fyrir foreldra leik- tónlistar- og grunnskólabarna. Foreldrafélagið boðar til foreldrafundar minnst einu sinni á skólaári og oftar sé þess óskað. Skólastjóri boðar til foreldrafundar einu sinni á hvorri önn.

Almennar upplýsingar og fræðsla

Skólastjóri skal reyna að gefa út fréttabréf með fræðslu og upplýsingum um leikskólastarfið, eitt á haustönn og eitt á vorönn eða eftir því sem þurfa þykir hverju sinni. Að auki eru foreldrar upplýstir um leikskólastarfið með auglýsingum sem hengdar eru upp í forstofu leikskólahúsnæðisins, með tilkynningamiðum sem settir eru í skilaboðaskjóður barnanna á heimasíðu leikskólans og í daglegum samskiptum starfsfólks og foreldra. Miklar breytingar hafa orðið á upplýsingum um starfssemi skóla og hvar slíkar upplýsingar koma fram samkvæmt nýjum persónuverndarlögum, við reynum að uppfylla öll þeirra skilyrði.

Annað

Foreldra eru ávalt velkomnir í leikskólann til þess að kynnar sér það starf sem þar fer fram. Foreldrar hafa aðgang að skólastjóra Súðavíkurskóla alla daga frá 8:00 – 16:00. Foreldrar eru hvattir til að koma hugmyndum og athugasemdum til skólastjóra Súðavíkurskóla svo hægt sé að gera gott skólastarf enn betra.

Samstarf við grunnskóla

Leikskólinn Kofrasel starfar sem deild innan Súðavíkurskóla. Því er eðlilega mikið samstarf milli þessara skólastiga. Samstarfið fléttast inn í daglegt skipulag leikskólans, samskipti nemenda og kennara á báðum skólastigum og samstarf starfsfólks leik- og grunnskóladeildar.

Daglegt starf

Með daglegu samstarfi leik- og grunnskóladeildar er markmið okkar að búa til samfellu í skólagöngu barna frá því þau byrja í leikskóla og þar til þau útskrifast úr grunnskóla.

Til að ná þeim markmiðum höfum við sett upp áætlun um að:

 • elsti árgangur leikskólans fer í samkennslu með yngri deild grunnskólans í allt að 11 stundir á viku með leik- og grunnskólakennara, eftir þörum.
 • Kennarar leik- og grunnskóla skipuleggja verkgreinatíma fyrir börn að 3ja ára aldri.
 • Öll leikskólabörn fá skipulagða hreyfistund í Íþróttahúsinu
 • Nemendur á yngsta stigi grunnskólans eru í lengri viðveru í dægrardvöl ýmist í grunnskólanum eða á leikskólanum, þegar þörf er á.
 • Nemendur grunnskóladeildar eru velkomin í heimsókn í leikskólann utan skólatíma
 • Sameiginleg þátttaka í öllum uppákomum í skólanum t.d. gróðursetningu, norræna skólahlaupinu, árshátíð og jólagríni.

Nemendur og kennarar

Það er hagur barnanna að starfsfólk skólans hafi þekkingu og skilning á þörfum þeirra frá því að þau hefja skólagöngu sína við 1 árs aldur og til loka grunnskóla við 16 ára aldur. Innan skólasamfélagsins býr mikil þekking á þroska og námsgetu barna út frá aldri þeirra. Við viljum nýta þá þekkingu til fulls óháð menntun starfsfólksins. Kennarar í leikskólum hafa mikla þekkingu á mikilvægi leiksins sem náms og þroskaleið, þeir eru meðvitaðir um hversu mikilvægur ummönnunarþátturinn er sem liður í félags- og líkamsþroska barna og hafa tileinkað sér einstaklingsmiðað nám út frá þroska og getu hvers og eins. Kennarar grunnskólans hafa víðtæka þekkinga á námsþáttum grunnskólans og mismunandi kennsluaðferðum, þeir eru meðvitaðir um mikilvægi góðs foreldrasamstarfs og hafa mikla reynslu og þekkingu af sérkennslumálum. Kennarar tónlistarskólans eru meðvitaðir um mikilvægi tónlistar til aukins náms- og félagsþroska, þeir hafa víðtæka þekkingu á tón- og hljómfræði og reynslu af hljóðfæraleik.

Samstarf starfsfólks

Með aukinni samvinnu starfsfólks er stefnt að því að efla starfsmannahópinn og víkka út þá fagþekkingu sem er til staðar í skólasamfélaginu.

Til að ná þeim markmiðum höfum við sett niður áætlun:

 • Kennarar leik- og grunnskóla vinna saman að því að skipuleggja kennslu 0. bekkjar.
 • Kennarar leik- og grunnskóla vinna saman í þeim kennslustundum sem 0. bekkur er í samkennslu.
 • Kennarar leikskólans hafa aðgang að náms- og kennslugögnum grunnskólans
 • Kennarar grunnskólans hafa aðgang að náms- og kennslugögnum leikskólans.
 • Kennarar leik- og grunnskóla sitja saman í leshópum í tengslum við uppbyggingastefnuna
 • Kennarar leik- og grunnskóla sitja sameiginlega starfsmannafundi 4 sinnum á ári. Taka þátt í námskeiðum í tengslum við endurmenntun þegar það á við.
 • Kennarar leik- og grunnskóla eru í sameiginlegu starfsmannafélagi og halda sameiginlegar starfsmannaskemmtanir.

Með aukinni samvinnu dregur úr fordómum gagnvart þeim mörgu fagstéttum sem starfa innan skólasamfélagsins, hópurinn þjappast saman og tækifæri skapast til að lyfta upp starfsandanum.

[1] Aðalnámskrá leikskóla

[2] Lög um leiksóla 2008

[3] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[4] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[5] Aðalnámkrá leikskóla 2011

[6] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[7] Aðalnámskrá leiskóla 2011

[8] Skólastefna Súðavíkur

[9] Lög um leikskóla 90/2008

[10] Lög um leikskóla 90/2008