Skólanámskrá leikskólans 2023-2024

Skólanámskrá

KOFRASEL – SÚÐAVÍKURSKÓLI

2023 – 2024

Gildi okkar í Súðavíkurskóla eru:

Virðing – Vellíðan – Heiðarleiki - Framfarir

Súðavíkurskóli, Aðalgata, 420 Súðavík, sími 450 - 5010.

Heimasíða skólans: www. sudavikurskoli.is

Netfang leikskólans: leikskoli@sudavikurskoli.is

Netfang skólans: annalind@sudavikurskoli.is

 

 

Skólanámskrá Kofrasels, leikskóladeildar Súðavíkurskóla, byggir á lögum um leikskóla frá árinu 2008, Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011, Skólastefnu Súðavíkur frá árinu 2013 og hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar. Hún er samin af Önnu Lind Ragnarsdóttur skólastjóra í samráði við Skólaráð Súðavíkurskóla og Fræðslunefnd Súðavíkurhrepps.

 

INNGANGUR

Skólanámskrá er kynning á starfsemi leikskólans og sérstöðu hans innan samfélagsins og utan. Í skólanámskrá er ekki eingöngu gerð grein fyrir daglegu starfi leikskólans heldur er uppeldisstarfið í heild sinni kynnt fyrir foreldrum, skólaráði, fræðslunefnd, öðrum íbúum sveitarfélagsins og öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér leikskólastarfið. Skólanámskrá tekur mið af lögum um leikskóla frá árinu 2008, Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011, Skólastefnu Súðavíkurhrepps frá árinu 2013 og þeim uppeldishugmyndum sem eru ríkjandi í Súðavíkurskóla.

Skólanámskráin skiptist í þrjá hluta, í fyrsta hlutanum er gert grein fyrir daglegu starfi leikskólans og þeirri sérstöðu sem hann byggir á. Í öðrum hluta er fjallað um þá þætti sem hafa mótandi áhrif á leikskólastarfið og í þriðja hluta er skýrt frá þeim tengslum sem börnin, starfsfólk og stofnunin sem slík eiga við nærsamfélagið.

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Leggja skal áherslu á styrkleika barna og hæfni og þörf þeirra fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Leikskólum ber að sinna forvarnarstarfi með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra. Starfsfólk leikskóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins.

 

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

Daglegt starf leikskóla mótast af því umhverfi sem þeir starfa í. Siðir og venjur samfélagsins móta sérstöðu hvers leikskóla, auk þess sem vinnutími foreldra hefur afgerandi áhrif. Dagskipulag leikskóla getur tekið breytingum á milli ára sérstaklega ef miklar sveiflur eru á vinnumarkaði og koma þarf til móts við þarfir foreldra. Hafa ber í huga að leikskóli þjónustar stóran hóp samfélagsins þó svo lítill hluti sé sýnilegur frá degi til dags í leikskólanum.

Leikskólinn Kofrasel hefur mótast af sínu samfélagi og hefur ákveðna sérstöðu sem gerð verður grein fyrir í þessum kafla. Kaflinn Hagnýtar upplýsingar skiptist í þrjá undirkafla þar sem daglegu starfi verður gerð skil í fyrsta hluta, skipulag skólaársins í öðrum hluta, og í þriðja hluta verður gert grein fyrir starfsreglum og ábyrgð foreldra á farsælu uppeldisstarfi leikskólans.

DAGLEGUR REKSTUR

Leikskólinn Kofrasel er rekinn sem deild innan Súðavíkurskóla sem samanstendur af leik- grunn- og tónlistardeild. Deildirnar voru sameinaðar haustið 2009 undir eina stjórn. Deildirnar eru í sama húsnæðinu og gefst því tækifæri til að samnýta ýmis rými, búnað og starfsaðstöðu, allt eftir þörfum starfsins hverju sinni. Eins og stendur höfum við eina kennslustofu til eigin afnota fyrir utan leikskólahúsnæðið sjálft. Því má segja að Kofrasel sé tveggja deilda leikskóli. Þar geta dvalið 21-23 börn í senn. Húsnæðið skiptist í lítinn fataklefa, mjög rúmgóða leikskólastofu sem skiptist í alrými, minni leikherbergi, mjög lítið baðherbergi og skemmtilegt leikloft auk kennslustofu sem tilheyrir skólahúsnæðinu og er mjög rúmgóð. Yfir fataklefanum er loft sem nú er orðið að barnabókasafni, en þess skal getið að starfsmenn geta nýtt sér alla aðstöðu í húsinu. Önnur aðstaða er í húsnæði grunnskólans, t.d, kaffistofa starfsfólks, eldhús, verkgreinastofur, sérkennslustofa og íþróttahús. Útileiksvæðið er gott með góðri tengingu við leiksvæði grunnskólans.

OPNUNARTÍMI

Kofrasel er gjaldfrjáls leikskóli í sex stundir á dag eða frá 7:45 til 14:00. Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:00 flesta virka daga ársins. Í desember er leikskólinn lokaður á sama tíma og grunnskólinn fer í jólafrí og á milli jóla og nýárs, sem og í kringum páskafrí, ef þurfa þykir. Það gæti orðið breyting á eftir fjölda leyfisdaga starfsmann, þeir eru mismunandi eftir aldri starfsmanna hverju sinni. Börn og starfsfólk taka sér fimm vikna sumarfrí á ári og er leikskólinn þá lokaður. Reynt er að hafa lokunina til skiptis þ.e. fyrri hluti sumars eitt árið og seinni hluta sumars næsta ár.

DAGSKIPULAG

Þegar dagskipulag leikskóla er ákveðið þarf að hafa í huga hvernig samsetning barnahópsins er og hvaða þörfum þarf að fullnæga. Dagskipulag getur því breyst eftir samsetningu barnahópsins. Í Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011 kemur fram að í daglegu starfi leikskóla skal leggja áherslu á umhyggju, tillitssemi og samhjálp meðal allra í leilkskólanum. Jafnframt skal nýta tækifæri sem gefast til að fjalla um samkennd og samlíðan gagnvart öðru fólki. Lögð skal áhersla á að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings og veita börnum stuðning í daglegum samskiptum.[1] Skipulag og ákveðin tímasetning á daglegum athöfnum gefur foreldrum og öðrum ákveðnari mynd af starfi leikskólans og tryggir samfelldan tíma til leikja og náms.

Dagskipulag

07:45

Leikskólinn opnar/tekið á móti börnum

8:00-8:30

Morgunmatur/samkennsla

8:30-9:30

Hópatímar

9:30-10:00

Ávaxtastund - söngur

10:00-11:00

Val – Útivera - íþróttahús hreyfing

11:00-13:00

Hádegismatur – hvíld - samverustund

13:00 – 14:30

Útivera – fer eftir veðri

14:30 – 15:00

Síðdegishressing

15:00-16:00

Frjáls leikur

16:00

Leikskólinn lokar

 

Í Starfsmannahandbók Kofrasels koma fram skýrar verklagsreglur fyrir starfsfólk leikskólans í tengslum við daglegar athafnir. Alltaf skal hafa öryggi barnanna og virðingu fyrir þörfum þeirra að leiðarljósi. Dagskipulagið er byggt upp samkvæmt ákveðnum hrynjanda. Við byrjum daginn rólega, upp úr hádegi náum við toppnum og róum svo starfsemina fram að lokun.

Opnun og lokun

Leikskólinn opnar kl 7:45 og lokar kl:16:00. Foreldrar gera dvalarsamning þegar þeir sækja um leikskólavist fyrir barn/börn sín. Ætlast er til að foreldrar virði umsaminn vistunartíma. Heimilt er að rukka foreldra um aukagjald ef dvalartími barns fer ítrekað yfir umsaminn vistunartíma. Barni/börnum skal fylgt í og úr leikskóla af foreldrum eða öðrum sem foreldrar treysta. Starfsfólki skal gert viðvart þegar barn kemur í leikskólann einnig þegar það er sótt. Starfsfólk og foreldrar hjálpast að við að skapa notalegt andrúmsloft í fataklefanum. Það eykur öryggi barnanna og hjálpar þeim að sættast við aðskilnað frá foreldrum.

Samkennsla

Elstu börn leikskólans eru í samkennslu 1 – 3 tíma á hverjum morgni, fer þó eftir stundatöflu hverju sinni. Samkennslan fer fram í heimastofu yngstu deildar grunnskólans eða í sérgreinastofum. Samkennslan er á ábyrgð leik- og grunnskólakennara sem vinna saman að því að skipuleggja kennslustundirnar og sinna nemendum. Samkennslufögin eru ; íslenska, stærðfræði,tónmennt, myndmennt og íþróttir. Að auki sér starfsmaður leikskóladeildar um heimilisfræðikennslu fyrir leikskólabörn. Í samkennslu er lögð áhersla á samskipti og samkennd. Leikskólabörnin kynnast þeim umgengnisreglum sem gilda í grunnskóladeild bæði á skólalóð og á göngum. Þau kynnast kennurum og öðru starfsfólki grunnskóladeildar og læra að rata um húsnæði skólans. Þau borða morgunmat í grunnskólanum þá morgna sem þau eru í fyrstu tvo tímana og fara í frímínútur með grunnskólabörnum þá morgna.

Hópatímar

Í hópatíma er hver hópstjóri ábyrgur fyrir sínum hóp. Hann skal vera tilbúinn með verkefni við hæfi hópsins og sem styðjast við markmið og námsþætti Aðalnámskrá leikskóla, á hverjum morgni. Hópatímar eru í hálfa klukkustund í senn milli 8:30 og 9:00, en vert er að gefa sér tíma til þess að byrja og ljúka hópatímanum t.d. ef ganga þarf frá eða sækja efnivið. Á mánudögurm er tekið fyrir myndmennt og tengd efni. Á þriðjudögum er farið í fín- og grófhreyfingar með ýmsu sniði. Á miðvikudögum eru það mannasiðir og reglur notast er við stefnuna um Uppeldi til ábyrgðar.

Á fimmtudögum eru það sögur og ævintýri af ýmsum toga. Á föstudögum köllum við það heimsþekking. Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla eru námssvið leikskóla helstu áhersluþættir í leikskólauppeldi. Grunnþættir menntunar eru samkvæmt nýrri Aðalnámskrá; læsi, sjálfbæni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Samkvæmt lögum um leikskóla skal meginmarkmið leikskólastarfsins vera, að efla alhliða þroska barna og rækta tjáningar- og sköpunargáfu þeirra í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd barna og trú á eigið ágæti.[2] Ekki er um beina kennslu að ræða eins og í grunnskóladeild heldur skal leggja áherslu á leikinn sem náms og þroskaleið. Helstu þroskþættir eru líkams- og hreyfiþroski, tilfiningaþroski, vitsmunaþroski, málþroski, félagsþroski og félagsvitund, fagurþroski og sköpunarhæfni, siðgæðisþroski og siðgæðisvitund.[3] Hópstjórar skrá hópavinnu fram í tímann og nota undirbúningstíma til þess að skipuleggja þá. Hópstjórar þurfa einnig að skrá hvern hópatíma fyrir sig, t.d. hvað var gert og hvernig gekk. Stundum vinna hópstjórar saman að ákveðnum verkefnum sem þeir þá undirbúa í sameiningu.

Morgunmatur, hádegismatur og síðdegishressing

Fullur vistunartími á leikskóladeild inniheldur þrjár máltíðir sem foreldrar greiða fyrir, morgunmat, hádegsimat og ávaxtastund/síðadegishressingu. Við matarbroðið gefst börnum og starfsfólki gott tækifæri til þess að æfa borðsiði og spjalla saman um daginn og veginn. Hver máltíð hefur fastmótaðar reglur sem byggja á virðingu, hjálpsemi og snyrtimennsku. Ýtt er undir sjálfshjálp barnanna og litið á mistök sem eðlilegan hluta í þroskaferli þeirra. Ef barn hellir niður nær það í bréf og þurkar upp eftir sig, ef barni langar í meira biður það kurteislega um að fá meira. Bera á matinn snyrtilega fram og huga að hollustu og næringarinnihaldi í sem mestu samræmi við markmið Lýðheilsustöðvar.

Frjáls leikur

Leikur er barni eðlislægur, mikilvægasta náms og þroskaleið þess og ríkjandi athöfn. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og því fyrirferðamikill í dagskipulaginu. Frjáls leikur er skipulagður af börnunum sjálfum en ekki fullorðnum, þar fer fram nám á forsendum barnsins þar sem það endurspeglar eigin reynslu. Í Aðalnámskrá leikskóla kemur fram að í leik sé barnið

  • sjálfrátt og sjálfstætt
  • stjórnandi og skapar leikinn úr eigin upplifunum og hugarheimi
  • að taka ákvarðanir og leysa úr vandamálum
  • einbeitt, gleymir stund og stað
  • upptekið af augnablikinu, það er ferlið sem skiptir máli
  • laust við utanaðkomandi reglur aðrar en þær sem það setur sjálft eða í samráði við leikfélaga.[4]

Þar kemur einnig fram að í leik tjái barn tilfinningar sínar og fái útrás fyrir þær. Barnið lærir samskiptareglur og að virða rétt annarra í gegnum leikinn.[5] Börn þurfa tíma til þess að hefja leikinn og samfeldan tíma til þess að þróa hann og dýpka. Á hverjum degi er gert ráð fyrir tveimur klukkutímalotum fyrir frjálsan leik. Börnin velja sig inn á ákveðin svæði, barnafjöldi er takmarkaður á sumum svæðum, einkum vegna plássleysis. Börnin eru að mestu leiti í friði í frjálsa leiknum, starfsfólk gengur þó á milli herbergja til þess að kanna að allt sé í lagi. Markmið með frjálsa leiknum er að;

  • Gera börnin ábyrg fyrir eigin vali
  • Ýta undir sjálfshjálp og sjálfstæði
  • Ýta undir sköpunargleði og lífsleikni

Börnin leita til starfsmanna ef þau lenda í vandræðum en þau eru alltaf hvött til þess að reyna að leysa málin sjálf og komast að samkomulagi.

Útivera

Útivera er stór þáttur í daglegu starfi Kofrasels. Sumar, vetur, vor og haust förum við út tvisvar á dag. Börnin æfa sig í fataklefanum í að klæða sig sjálf í og úr og ganga snyrtilega um. Við leggjum áherslu á að börnin hengi upp fötin sín eða gangi frá þeim í þurrkskápinn ef fötin eru blaut. Það veltur mikið á foreldrum að börnin njóti útiverunnar, fötin þurfa að hæfa veðri, aldri og þroska barnanna þannig að þau njóti sín sem best. Börnin eru í frjálsum leik í útiverunni. Hlutverk starfsmanna er að gæta öryggi barnanna fyrst og fremst, vera vakandi yfir líðan þeirra og samskiptum og halda lóðinni snyrtilegri. Yngstu börnin fara ekki út ef frost fer að -6° eða meira, eða ef vindkæling er mikil. Eldri börnin fá að koma inn í forstofu og hlýja sér örlitla stund.

Hlýr fatnaður sem heftir ekki hreyfigetu barnsins hjálpar því til þess að njóta útiverunnar og efla þol og þrótt.

SKIPULAG SKÓLAÁRSINS

Skipulag skólaársins er gefið út í skóladagatali til foreldra. Skal það vera tilbúið og samþykkt af fræðslunefnd og skólaráði þegar leikskóladeild hefur störf eftir sumarfrí. Á skóladagatalinu er gerð grein fyrir helstu viðburðum skólaársins og þeim dögum sem skera sig frá hefðbundnu skólastarfi.

 

FRÍDAGAR

Fræðslunefnd Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að starfsfólk Kofrasels fái tvo starfsdaga og einn námskeiðsdag á ári. Þessir dagar eru notaðir til endurmenntunar, endurmats á starfi og til skipulaggningar. Leikskólinn er lokaður þessa daga. Starfs- og námskeiðsdagar eru merktir inn á skóladagatalið og auglýstir með fyrirvara.

Leikskólinn lokar 25 virka dag yfir sumarmánuðina vegna sumarleyfa starfsfólks, þá er lokað milli jóla og nýárs. Hreppurinn áskilur sér rétt til þess að loka á öðrum tímum vegna breytinga og viðhalds. Slík lokun er auglýst með góðum fyrirvara.

FORELDRAVIÐTÖL

Foreldraviðtöl og foreldrafundir eru sérmerktir á skóladagatali og haft er samband við foreldra um tímasetningu funda. Starf leikskólans helst óbreytt þá daga.

 

VIÐBURÐARDAGAR

Allt árið um kring lyftum við okkur upp. Einu sinni í mánuði eru skemmtilegar uppákomur í leikskólanum þar sem við gerum okkur dagamun, ýmist í leikskólanum sjálfum, förum í lengri eða styttri ferðir eða fáum til okkar gesti. Þessir dagar eru merktir inn á skóladagatalið til upplýsinga fyrir foreldra. Þeir eru einnig auglýstir sérstaklega ef aðkomu foreldra er óskað á einhvern hátt, að öðru leiti renna þeir inn í hefðbundið skipulag. Samspil leik- og grunnskóla nær einnig til sameiginlegrar þátttöku í ýmsum uppákomum sem fyrir löngu hafa unnið sér fastan sess hjá íbúum í Súðavík.

Afmæli
Í leikskólanum er haldið upp á afmæli barnanna. Að eiga afmæli er stór áfangi í lífi hvers barns og leggjum við okkur fram um að gera afmælisdaginn eftirminnilegan. Afmælisbarnið fær skreytta kórónu. Eftir hádegi, syngjum við afmælissönginn og barnið býður íspinna sem leikskólinn kaupir. Afmælisbarnið fær svo að gjöf mynd af sér með kveðjum frá leikskólanum.

Dagur leikskólans
Við höldum dag leikskólans hátíðlegan með því að vera sýnileg í samfélaginu. Við höldum mynda- og myndlistasýningu í andyri búðarinnar og svo er leikskólinn opinn öllum sem áhuga hafa á að koma í heimsókn.

Grímuball
Foreldrafélag Súðavíkurskóla heldur grímuball fyrir börnin í sal grunnskólans á öskudag. Börnin koma í fylgd með foreldrum eftir að skóladegi líkur, klædd í grímubúning. Kötturinn er slegin úr tunnunni, farið í samkvæmisleiki, dansað og veitt verðlaun fyrir frumlegasta búninginn. Sum barnanna halda áfram að maska með eldri nemendum skólans og er þá gengið í hús, sungið og fengið nammi í staðin.

Árshátíð
Leikskólabörnin taka þátt í árshátíð Súðavíkurskóla. Mikið er lagt í hvert atriði og hefur sýningin farið fram á sviði Samkomuhússins. Foreldrafélagið býður svo í kökuhlaðborð eftir sýningu. Árshátíðin hefur verið haldin á laugardegi og í staðin er frí einhvern virkan dag.

Útidagur
Þegar líða tekur á veturinn og sól hækkar á lofti eykst útivera leikskólabarnanna. Á útidegi förum við í stutta ferð frá leikskólanum og fáum okkur heitt kakó.

Útskriftarferð
Elstu börn leikskólans fara í útskriftarferð með kennaranum sínum. Markmið ferðarinnar er að hún sé bæði fræðandi og skemmtileg. Dæmi um ferð er t.d. að heimsækja Náttúruminjasafnið í Bolungarvík þar sem börnin fá fræðslu um einhverja ákveðna dýrategund sem hefur heimsótt Vestfirði og fá fylgd um safnið. Börnunum er svo boðið út að borða í hádeginu.

Gróðursetning og leikjadagur
Öll börn leikskólans taka þátt í gróðusetningarverkefni Súðavíkurskóla fyrir ofan byggðina, eða eins og þau geta. Elstu nemendurnir merkja sér sitt tré og hjálpa til við gróðursetningu. Á hverju ári er svo leikjardagur þar sem börn og starfsfólk Súðavíkurskóla skemmta sér saman í skipulögðum leikjum. Dagurinn endar svo á sameiginlegri grillveislu.

Skólaslit
Útskrift elstu barna leikskólans fer fram á sama tíma og skólaslit grunnskólans. Þau fá kveðjugjöf og útskriftarskjal.

Lambaferð
Á hverju vori förum við í heimsókn í fjárhús þar sem við skoðum og klöppum litlu lömbunum og fræðumst um kindurnar. Fjárhúsin eru í göngufæri frá leikskólanum.

Sumarhátíð
Fyrir sumarlokun höldum við sumarhátíð. Starfsmenn og nemendur vinnuskólans skipuleggja þrautabrautir og leiki og halda utan um skemmtunina. Við ljúkum hátíðinni með sameiginlegum hádegisverði.

Dagur íslenskrar tungu
Við tökum þátt í uppákomu grunnskólans á Degi íslenskrar tungu.

Foredramorgunkaffi
Fyrir jólaföstu bjóðum við foreldrum að drekka með okkur morgunkaffið. Bornar eru fram veitingar sem börnin hafa búið til ásamt öðru bakkelsi. Foreldrar, starfsfólk og börn eiga svo saman notalega stund.

Jólaferð
Um miðjan desember förum við í jólaferð, annaðhvort í nágrannasveitarfélagið eða í heimahús. Við skoðum jólaskreytingar, dönsum í kringum jólatré og fáum okkur næringu.

Jólagrín
Öll börn leikskólans taka þátt í jólagríni með yngstu börnum grunnskólans. Jólagrín er skemmtun fyrir foreldra, kennarar og nemendur sjá um að undirbúa og skipuleggja skemmtiatriði.

Litlu-jól
Síðasta skóladag grunnskólans fyrir jól höldum við litlu-jól. Við kveikjum á kertum, hlustum á jólasögur og syngjum jólalög. Í lok grunnskóladagsins dansa börn og starfsfólk Súðavíkurskóla í kringum jólatréð.

 

UPPLÝSINGAR

Til að auðvelda dvöl barnsins í leikskólanum eru ýmiss mikilvæg atriði sem foreldrar og starfsfólk verða að hafa í huga en þau lúta aðalega að vellíðan og öryggi barnsins.

ÁFÖLL.

Börn eru viðkvæm fyrir breytingum. Það sem okkur kann að finnast léttvægar eða jákvæðar breytingar getur komið illa við börnin og framkoma þeirra breyst til hins verra gagnvart starfsfólki og barnahópnum. Alvarleg áföll eins og dauðsfall í fjölskyldu, skilnaður forleldra, alvarleg veikindi eða breytingar á búsetuháttum hafa mikil áhrif á börn. Við biðjum því foreldra að láta okkur vita um þær breytingar sem börnin eru að ganga í gegnum. Það er auðveldara að skilja og styðja ef upplýsingar eru fyrir hendi. Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og ber að halda trúnaði gagnvart foreldrum, börnum og samstarfsfólki.

FATNAÐUR

Leikskólinn er vinnustaður barnanna. Því er nauðsynlegt að þau séu í fötum sem auðvelt er að hreyfa sig í og má sjá á. Börnin vinna með margskonar efni og í hita leiksins geta alltaf orðið óhöpp.

Börnin skulu klædd eftir veðri. Við erum mikið úti og ef börnunum er kalt eða þau eru blaut njóta þau ekki útiverunnar. Á Íslandi er allra veðra von, regnföt, stígvél og hlýr fatnaður þarf því alltaf að vera til staðar.

Aukaföt eru geymd í körfu merktri hverju barni. Í körfunni er gott að vera með auka nærföt, sokka, buxur, bol og peysu. Gott er að fara yfir körfuna einu sinni í viku og bæta í hana ef einhvað vantar. Einnig þarf að muna að taka allan fatnað heim á föstudögum.

FERÐIR.

Allar ferðir sem farnar eru á vegum leikskólans eru gjaldfrjálsar og á ábyrgð skólastjóra. Börnin eru tryggð í slíkum ferðum. Við förum fótgangandi í ferðir innanbæjar og út í Sumarbyggð. Í lengri ferðir er yfirleitt farið með rútu en í einstaka tilfellum er farið á einkabílum. Foreldrar eru beðnir að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir gefi starfsfólki leyfi til þess að fara með börnin í einkabíl enda sé fyllsta öryggis gætt og allir í bílbeltum/bílstólum. Þá eru foreldrar einnig beðnir að skrifa undir leyfi vegna myndatökum sem eiga sér stað af börnunum í leik og starfi á leikskólanum.

FRÍDAGAR OG LEYFI BARNA.

Öll börn í leikskólanum Kofraseli skulu taka fimm vikna samfellt sumarfrí. Slíkt frí er háð sumarlokun. Veikindi og nokkurra daga frí dragast ekki frá sumarfríi barnanna. Gott er að foreldrar láti vita ef börnin fara í frí. Vakin er athygli á því að stutt frí eða veikindi koma ekki til lækkunar á gjaldskrá.

LEIKFÖNG.

Ekki er æskilegt að börn komi með dót að heiman nema sérstaklega sé auglýst eftir því. Ef það skiptir barnið miklu máli má það koma með einhvern smáhlut eins og bangsa, bók, eða mynd, hafa það smá stund en geyma síðan í hólfinu sínu. Leikskólinn tekur ekki ábyrgð á einkaleikföngum.

LYFJAGJÖF.

Af öryggisástæðum gefur starfsfólk barni ekki lyf nema fyrir liggi vottorð frá lækni og samþykki frá skólastjóra. Æskilegt er að foreldrar hagi lyfjagjöf barna sinna þanni að hún sé ekki á ábyrgð leikskólans.

SLYS OG VEIKINDI.

Í barnahóp geta alltaf orðið slys. Ef barn meiðir sig illa er strax haft samband við foreldra. Leikskólinn greiðir fyrstu heimsókn til læknis.

Það er áríðandi að foreldrar virði þá reglu að ekki er tekið á móti veikum börnum í leikskólanum. Veik börn hafa ekki fulla starfsorku, þeim líður illa og geta smitað út frá sér. Börn geta verið veik þó þau séu ekki með hita. Ýmsir sjúkdómar eins og augnsýkingar og hlaupabóla eru bráðsmitandi og eiga börn að vera heima meðan sýking gengur yfir. Foreldrar eru beðnir um að virða það og huga að ábyrgð sinna gagnvart eigin barni og annarra börnum.

Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra. Ætlast er til að veik börn verði sótt eins fljótt og kostur er.

STEFNA OG MARKMIÐ UM NÁM OG STARF

Ýmsir þættir hafa mótandi áhrif á leikskólastarf. Leikskólar starfa eftir lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leiskskóla og ýmsum reglugerðum frá t.d. Menntamálaráðuneyti, Heilbryggðiseftirliti, Vinnueftirliti og fl. Margir leikskólar hafa einnig tileinkað sér ákveðna uppeldisstefnu sem þeir kjósa að vinna eftir. Slíkar stefnur geta bæði mótað skipulag og uppbyggingu leikskólans í heild og svo það uppeldisstarf sem fer fram innan veggja skólanna eða aðeins haft áhrif á annan hvorn þáttinn.

Stjórnendur sveitafélags, skólastjóri eða starfsmannahópurinn í heild setja starfinu ákveðin markmið út frá lögum, reglugerðum og Aðalnámskrá leikskóla.

Í þessum hluta verður gert grein fyrir uppeldisstefnu Kofrasels, helstu markmiðum með námi og starfi barnahópsins og starfsmanna, og þeim öryggisreglum sem allt okkar starf byggir á.

UPPELDI TIL ÁBYRGÐAR

Við upphaf skólaársins 2007 - 2008 fóru allir starfsmenn Súðavíkurskóla sem komu því fyrir, á námskeiðið Restition eða Uppbyggingarstefnan, Uppeldi til ábyrgðar, á Ísafirði. Eftir miklar umræður á milli stjórnenda Súðavíkurskóla var þessi stefna skoðuð m.t.t. beggja skólastiga og varð niðurstaðan sú að hægt væri að nýta þessa stefnu fyrir alla, óháð aldri. Vorið 2007 var ákveðið að hefja innleiðingu stefnunnar að hausti og byrjað var að kaupa námsbækur sem fóru heim til allra starfsmanna til aflestrar um sumarið. Markmið stjórnanda Súðavíkurskóla með því að innleiða þessa stefnu var að búa til gæðaskóla sem uppfyllti þarfir nemenda, kennara og annarra starfsmanna og um leið að búa til sameiginlegan stjórnunarstíl leik- tón– og grunnskóla. Stefnan er enn við lýði og eru lífsgildi skólans: Virðing, Heiðarleiki, Vellíðan og Framfarir.

UPPBYGGINGASTEFNAN

Geðlæknirinn William Glasser setti fram þá kenningu að hann gæti hjálpa sjúklingum sínum með svokallaðri samtalsaðferð (Reality Therapy). Hann taldi einnig að orsök vanlíðunar og slæmrar hegðunar stafaði oft af því að einstaklingarnir nái ekki að uppfylla meðfæddar þarfir sínar. Allir einstaklingar hafa tækifæri til þess að breyta lífi sínu til hins betra, það byggist á þeirra eigin vali og að taka ábyrgð á því.

Ef fólk spyr sig ákveðinnar spurninga verður valið auðveldara og árangursríkara. Spurningarnar eru;

  • Hvað vil ég?
  • Hvað er ég að gera til að ná markmiðum mínum?
  • Virkar það?
  • Hvaða áætlun hef ég eða möguleika?

Glasser setti fram hugmyndir um gæðaskólann (Quality School) og sjálfstjórnarkenningu (Control Theory). Diane Gossen samstarfsmaður Glassers til margra ára hefur þróað Uppbyggingarstefnuna út frá kenningum Glassers og aðlagað kenningar hans að grunnskólastarfi. D. Gossen hefur vitanlega sótt ýmislegt til annarra en í grunninn eru það einkum kenningar W. Glassers sem móta uppeldisstefnuna Uppbygging til ábyrgðar. [6]

ÞARFIR

Uppbyggingarstefnan er lífsgildismiðuð, þ.e. unnið er með ákveðin lífsgildi sem eiga sér stoð í ákveðnum þörfum, sem við öll höfum, þeim reynum við að mæta, hvert og eitt okkar með þeim aðferðum sem við best kunnum. Til að vera lífsglöð, hamingjusöm og andlega heil þurfum við reglulega að uppfylla þessar meðfæddu þarfir okkar fyrir: Ást og umhyggju (hjartað), áhrifaval og stjórnun (stjarnan), frelsi og sjálfstæði (fiðrildi), gleði og ánægju (blaðra eða broskarl) og öryggi og lífsafkomu (húsið). Hegðun okkar ræðst af því hvaða þörfum við viljum mæta. Stundum veljum við ranga leið og brjótum þá á þörfum annarra.

  • Þörfin fyrir öryggi sker sig úr hinum, að því leyti að hún er okkur lífsnauðsynleg. Ef við búum ekki við öryggi skiptir fátt annað máli fyrir okkur. Ef við eigum ekki mat að borða, snýst líf okkar um það að komast yfir mat. Öll höfum við þörf fyrir mat, föt, hvíld, skjól o.fl En þrátt fyrir að þessi þörf sé í grunninn mikilvæg, getur verið nokkur munur manna á milli um hversu mikilvæg hún er. Þeir sem hafa ríka öryggisþörf eru t.d. þeir sem spara, gera áætlanir, tryggja eigur sínar og gæta heilsu sinnar, svo eitthvað sé nefnt.[7]
  • Þörf fyrir frelsi og sjálfstæði lýsir sér í því að við viljum ráða vissum hlutum sjálf. Friðhelgi einkalífs er grundvallarþáttur í því. Fyrir þá sem hafa ríka þörf fyrir frelsi er mikilvægt að hafa valmöguleika, sveigjanlegt umhverfi og tilbreytingu. Ferðalög eru ríkur þáttur í því að sinna þörfinni. Þessi hópur fólks hefur gaman af tilraunum og að prófa nýja hluti. Frelsisfólki er oft sama um hvað öðrum finnst um það. Að fá að sitja í næði og fá frið frá öðrum til að gera og hugsa það sem maður vill er algeng leið til að fá útrás fyrir frelsisþörfina.[8]
  • Þörfin fyrir ást og umhyggju er rík í mörgum. Þrátt fyrir nafnið snýst hún ekki um að vera væminn, heldur er grunnurinn sá að við þurfum flest að tilheyra hópi eða hópum. Þeir sem hafa ríka þörf fyrir umhyggju láta sig hlutina varða, deila með öðrum og hafa unun af samvinnu. Það að upplifa sig sem hluta af bekk, fjölskyldu eða vinahópi er þeim afar mikilvægt. Umhyggjufólk á oft gott með að sýna ástúð og að mynda tengsl við fólkið í kringum sig. Þessari þörf er svalað með samskiptum við annað fólk, s.s. fjölskyldu, vini, vinnufélaga osfrv[9]
  • Þörf fyrir áhrifavald og stjórnun lýsir sér í því að við viljum hafa stjórn á vissum hlutum í okkar lífi og að upplifa okkur sem mikilvæg á einhvern hátt. Við höfum þörf fyrir að vinna ýmis afrek, stór og smá, þ.e. við höfum þörf fyrir að standa okkur vel. Þeir sem hafa ríka áhrifsþörf eru oft skipulagðir, jafnvel stjórnsamir og þrífast á samkeppni við aðra. Hrós eða viðurkenning er mikilvæg fyrir áhrifsfólk. Til að svala þessari þörf eru ýmsar leiðir, s.s. að sinna vinnu eða verkefnum, tómstundir, líkamsrækt, mennta sig og vera sterkur. Sumir fá þessa útrás gegnum mont og frekju.[10]
  • Flest höfum við þörf fyrir að líf okkar sé ánægjulegt og að það sé gaman hjá okkur. Á þessu er þó munur milli einstaklinga. Það er einmitt eitt af því skemmtilegasta við að velta fyrir sér þörfunum að þær útskýra á margan hátt af hverju við erum ólík. Það er mismunandi hvað okkur finnst skemmtilegt að gera og því fáum við útrás fyrir ánægju á mismunandi hátt. Þeir sem hafa ríka þörf fyrir ánægju gera gjarnan að gamni sínu og hlæja að sjálfum sér og öðrum. Þeir sækja í spennu og ákafi er mjög einkennandi fyrir þennan hóp. Þörfinni er svalað á marga

vegu, t.d. gegnum leik, nám, sköpun og að taka áskorun. Nýbreytni og nýjungagirni er algeng hjá fólki með ríka ánægjuþörf. [11]

INNRI OG YTRI STÝRING

Margir skólar hafa markað sér ákveðna stefnu í agamálum. Víða eru notuð agastjórnunarkerfi sem byggja að einhverju marki á umbunum og refsingum. Það gerir uppbyggingarstefnan hins vegar ekki. Markmiðið með uppbyggingarstefnunni er að byggja upp sjálfsaga hjá nemendum og koma því til leiðar að þeir vilji haga sér vel til þess að vera ánægðir með sjálfa sig, en ekki til þess að forðast refsingu eða hljóta umbun. Þess vegna er mikil áhersla lögð á að nemendur velti fyrir sér spurningunni: Hvernig manneskja vil ég vera? Í leikskólanum hugsa börnin t.d. um það hvernig vinir þau eru eða hvernig sonur/dóttir þau eru. Við teljum mikilvægt að hver og einn finni til ábyrgðar á hegðun sinni og sjái tilgang í því að koma vel fram, hvort sem einhver sér til hans eða ekki.[12]

Uppbyggingarstefnan byggir því á innri umbun, hún byggir á því að einstaklingurinn finnur til innri gleði við að leggja sig fram og breyta rétt! Í þessu er hinn sanni ávinningur fólginn.

MISTÖK Í LAGI

Allir gera mistök og uppbyggingarstefnan segir okkur að það sé allt í lagi. Það sem skiptir máli er að við lærum af mistökunum og bætum fyrir þau. Þegar börnum verður á í messunni, eins og kemur fyrir á bestu bæjum, er mikilvægt að hinir fullorðnu bregðist rétt við. Það hefur lítinn tilgang að fara að rífast og skammast. Það sem helst ber að forðast eru vonlausu viðbrögðin fimm:

  • Afsakanir,
  • ásakanir,
  • skammir,
  • tuð,
  • uppgjöf.

Það sem skiptir máli er hvað barnið ætlar að gera næst, og hvernig hægt er að leysa málið. Með öðrum orðum, við horfum fram á við og einbeitum okkur að lausninni, ekki að vandamálinu. Í lausninni er fólginn sá lærdómur sem við drögum.[13]

LIFSGILDI KOFRASELS

Uppbyggingarstefnan felst í því að kenna nemendu að beita sjálfsaga í samskiptum við aðra. Aginn á að koma innanfrá en ekki vegna umbunar og refsinga. Sjálfsaginn byggist á þeim lífsgildum sem hver og einn hefur sett sér og segir til um hvernig manneskja viðkomandi vill vera. Markmið einstaklingsins er að geta stjórnað sér og hegða sér í samræmi við það sem honum finnst rétt að gera. Unnið er í því að efla tilfinningaþroska, félagsfærni og siðvit. Fullorðnir jafnt sem börn velja sér sín lífsgildi, skilgreina þau og hafa að leiðarljósi í samskiptum.[14]

Markmið skólans er að vera samfélag þar sem einstaklingum gefst kostur á að leiðrétta mistök sín og ná takmörkum sínum án þess að skerða rétt annarra. Markmið samfélagsins er að efla lýðræði og samkennd og draga úr ofbeldi og öðrum glæpum, fíkniefnaneyslu og streitu.

Nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir starfsmenn velja lífsgildi til að hafa í heiðri og vinna með og skilgreina. Unnið er að því að komast að samkomulagi um lífsgildi sem hafa skulu í heiðri og sett skýr mörk og reglur sem styðja gildin sem allir eru sammála um. Þeir sem unnið hafa eftir þessari stefnu segja sig hafa orðið vara við minni streitu hjá börnum jafnt sem fullorðunum, öruggari framkomu og gleði. Einnig hafa einkunnir í bóklegum greinum hækkað þegar tekist hefur að gera samskiptin áreynslulítil og skólinn sinnir þörfum hvers og eins.

Lítil börn eru ekki fær um að skrifa upp sáttmála tengdan lífsgildum, en þau eru vel fær um að segja hvað þeim þykir gott og hvað þeim þykir vont. Þau eru vel fær um að skilja og tileinka sér ýmsar dygðir og lífsgildi sem okkur þykir góð, t.d hjálpsemi, hugrekki, vináttu, ábyrgð, glaðværð og virðingu. Starfsfólk Kofrasel komst að samkomulagi um eftirtalin lífsgildi sem hafa skulu í heiðri í samskiptum, umönnun og umgengni á vinnustaðnum

Virðing

Gagnvart samstarfsaðilum: Koma fram við aðra eins og ég vil að sé komið fram við mig. Ekki sýna dónaskap eða yfirgang. Sýna ekki pirring eða geðvonsku þó aðrir geri ekki eins og maður vill. Vera heiðarleg. Taka tillit til mismunandi skoðanna og hæfileika. Segja aðeins það sem ég get staðið við. Tala skýrt. Taka tillit til tilfinninga annarra. Vera kurteis og heiðarlegur. Ekki segja einhvað eða gera einhvað sem þú vilt ekki láta segja eða gera við þig. Vera stundvís.

Gagnvart starfinu: Bera virðingu fyrir starfinu, húsnæðinu og öllum fylgihlutum. Koma vel hvíld og í góðu jafnvægi. Mæta hress og kátur að morgni vel sofinn og undirbúinn. Mæta vel og stundvíslega. Ganga vel um kennslugögn. Vera vel upplögð og skipuleggja sig. Muna það sem þarf að muna. Ganga vel um. Nýta efni og afganga. Fræðast, lesa og læra. Vera ábyrgur.

Gagnvart börnunum: Koma eins fram við öll börn, ekki mismuna. Reyna að sýna öllum jafna hlýju. Sýna þolinmæði, skilning og hlýju vegna mismunandi þarfa hvers og eins. Tala ekki um foreldra í návist barna. Ýta undir hæfileika. Ekki gera grín að börnunum. Ekki uppnefna börnin. Ýta undir sjálfstæði. Vera kurteis og heiðarleg. Hlusta á börnin. Ekki segja eitthvað eða gera eitthvað sem þú vilt ekki láta gera við þig.

Gleði

Gagnvart samstarfsaðilum: Sýna gleði og umburðarlyndi eins og kostur er. Reyna að vera í góðu skapi, segja brandara. Brosa og hlægja með fólki ekki að fólki. Slá á létta strengi. Skipuleggja starfsmannagleði og uppákomur fyrir starfsfólk. Kímnigáfa. Slappa af. Vinna saman að lausnum. Reyna að hafa gaman. Líðan hvers og eins veltur á gleði. Vera jákvæð.

Gagnvart starfinu: Vera jákvæð gagnvart starfinu. Vera ánægð með sjálfan sig og aðra þá líður öllum vel. Vera jákvæð gagnvart þeim verkum sem þarf að vinna. Skipuleggja skemmtilegar stundir. Mæta glaður til vinnu og hafa gaman að starfinu sínu og vinnu með skemmtilegu fólki. Finna barnið í sjálfum sér.

Gangvart börnunum: Taka þátt í leik og starfi. Brosa og sýna hlýju þá líður börnunum vel og verða í góðu skapi. Vera ánægð með það sem börnin gera. Brosa og hlægja með börnunum ekki að þeim. Sjá björtu hliðarnar. Hjálpa þeim að brosa en ekki væla. Gleðjast yfir þessum gullmolum sem við eigum. Hafa vinnustaðinn skemmtilegan stað sem börnin vilja vera á. Hafa gaman því líðan hvers og eins veltur á gleði. Vera jákvæð.

Snyrtimennska

Gagnvart samstarfsaðilum: Ganga frá og þrífa sínar vistarverur. Koma snyrtilegur og vel til hafður í vinnuna. Skila sínu svæði hreinu. Ganga frá sinni vistarveru eins og þú vilt koma að henni næsta dag. Huga að almennu hreinlæti.

Gagnvart starfinu: Að bera virðingu fyrir innviðum leikskólans. Ganga vel og snyrtilega um skólabygginguna, sparar viðgerðarkostnað og málningu. Ganga frá eftir sig. Sópa gólf og þrífa matarborð.

Gagnvart börnum: Kenna þeim að ganga frá eftir sig. Kenna þeim að bera virðingu fyrir eigin dóti og annarra. Hirða vel um líkama sinn. Þvo hendur. Bera virðingu fyrir sjálfum sér. Ganga frá og aðstoða við þrif og frágang. Borðsiðir.

Þolinmæði

Gagnvart samstarfsaðilum: Við eru ekki öll eins og framkvæmum á mismunandi hraða. Sýna umburðarlyndi þó að samstarfsfólk sé pirrað. Vera í jafnvægi. Gera sér grein fyrir að fólk metur aðstæður ekki eins. Rólegheit.

Gagnvart starfinu: Halda ró sinni þó ýmislegt gangi á. Ekki stökkva upp á nef sér. Að vera samvinnuþýð og sýna skilning. Sýna þolinmæði gagnvart breytingum og gefa þeim tækifæri. Missa ekki stjórn á skapi sínu gagnvart foreldrum. Góðir hlutir taka tíma. Muna að verk eru misskemmtileg, sumt þurfum við bara að klára. Sýna þolinmæði.

Gagnvart börnum: Vera róleg, telja upp á tíu, vera í jafnvægi. Muna að börn framkvæma án þess að hugsa um afleiðingarnar. Halda ró sinni þó svo börnin séu pirruð og þreytt. Halda ró sinni, leita að lausnum, hlusta og finna út hvað er að angra börnin.

Sáttmálinn okkar hangir uppi til aflestrar fyrir starfsfólkið og þannig minnum við okkur á hvernig manneskjur við viljum vera. Börnin eiga eftir að semja sinn sáttmála, hann verður einfaldari í sniðum og myndrænn í uppsetningu. Sáttmálinn auðveldar öllum að vera í sátt við umhverfið sitt. Ef við vitum hvernig við viljum hafa leikskólann okkar og höfum sett það í orð sem allir sjá og skilja er auðveldara að benda á æskilega hegðun og leiðrétta þau mistök sem við gerum daglega í samskiptum við annað fólk.

HELSTU MARKMIÐ UM NÁM OG STARF

Skólastarf er ekki tilviljunarkennt. Því eru settar ákveðnar skorður með lögum og reglugerðum. Á grundvelli markmiða laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafa verið settir fram eftirfarandi grunnþættir menntunar:

  • læsi,
  • sjálfbærni
  • heilbrigði og velferð
  • lýðræði og mannréttindi
  • jafnrétti
  • sköpun

Leikskólinn er fyrir börn upp að skólaskyldualdri. Lög um leikskóla og grunnskóla heimila hins vegar að börn ljúki leikskólanámi og hefji grunnskólanám fyrr eða síðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meginreglan er hins vegar sú að börn séu í leikskóla til sex ára aldurs. Í lögum um leikskóla er fjallað um markmið leikskólastarfs í 2. gr. laganna.

 

  1. gr.

Markmið.

Í leikskólum á velferð og hagur barna að vera leiðarljós í öllu starfi. Veita á börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla á að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla eiga að mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla eru:

  1. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
  2. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
  3. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
  4. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
  5. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
  6. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

 

Elstu börn leikskólans hefja skólagöngu sína í grunnskóladeild ári á undan jafnöldrum sínum. Þau eru í svokölluðum 0. bekk og fara í samkennslu með yngstu börnum grunnskólans 1 – 3 tíma á dag stundum í fylgd með starfsmanni leikskólans.

 

HELSTU MARKMIÐ MEÐ SAMKENNSLU

Samkennslan er á ábyrgð leik- og grunnskólakennara sem vinna saman að því að skipuleggja kennslustundirnar og sinna nemendum. Samkennslufögin eru; íslenska, stærðfræði, tölvir, tónmennt, myndmennt, íþróttir og handmennt. Að auki sér starfsmaður leikskóladeildar um heimilisfræðikennslu fyrir leikskólabörn.

Helstu markmið með íslenskukennslu leikskólabarna;

  • Að leikskólanemendur kynnist bókstöfum og æfi sig í að hljóða og skrifa
  • Að auka færni þeirra til að tjá sig á íslensku
  • Að leggja grunn að lestri og skrift

Leikskólanemendur vinna verkefni sem tengjast stafainnlögn. Þeir vinna með hljóð hvers stafs, lesa hann og skrifa. Að auki er unnið með söngva, sögur, þulur, ljóð og texta barnanna sjálfra. Leikskólanemendur fá 2 tíma á viku í íslensku auk þess sem þeir fá 2 tíma á viku í málörvun með leikskólakennara.

Helstu markmið með stærðfræðikennslu leikskólabarna;

  • Að leikskólanemendur kynnist tölustöfum, gildi þeirra og lögun.
  • Að leikskólanemendur kynnist ýmsum hugtökum, formum og táknum.
  • Að leikskólanemendur læri að nota ýmiskonar hjálpargögn í stærðfræði.
  • Að leikskólanemendur upplifi stærðfræði í daglegu lífi og nánasta umhverfi í gegnum leik.
  • Að leikskólanemendur þjálfi athyglisgáfu, hugsun, minni og einbeitingarhæfni.

Leikskólanemendur vinna með stærðfræðibókina Sproti 1A þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt vinnubrögð, samvinnu og leik. Unnið er með ýmis grunnhugtök stærðfræðinnar s.s. magn, stærð og form auk þess sem þeir kynnast samlagningu og frádrætti. Leikskólanemendur fá 2 tíma á viku í stærðfræði með leik- og grunnskólakennara.

Helstu markmið með íþróttakennslu leikskólabarna er;

  • Að auka þol, kraft, liðleika og jafnvægi
  • Að ýta undir sjálfshjálp og líkamsvitund

Í íþróttatímum þar sem samkennsla fer fram fara leikskólanemendur fyrr út þar sem þeir fara ekki í sturtu eftir íþróttatímann. Þeir klæða sig sjálf í og úr og læra að ganga snyrtilega frá fötum sínum. Kennslustundirnar sjálfar byggjast upp á fjölbreyttum leikjum sem reyna á þol, kraft og ekki síst samvinnu. Hver tími endar á teygjum og slökun.

Hlestu markmið með handmenntakennslu leikskólabarna;

  • Að þjálfa fínhreyfingu
  • Að ýta undir sköpunargleði og auka sjálfstraust
  • Að kynna ýmis hugtök sem tengjast handmennt t.d. köflótt, snið og útsaum

Í handmenntatímum er lögð áhersla á að þjálfa fínhreyfingar s.s. með því að þræða, klippa, líma og perla. Verk leikskólanemendanna er til sýnis á veggjum og göngum skólans. Handmennt er kennd í tvemur samliggjandi tímum á viku, kennarar frá leik- og grunnskóla hjálpast að við kennsluna.

Markmið með myndmenntakennslu leikskólabarna er ;

  • Að nemendur kynnist ýmsum efnum, aðferðum og vinnubrögðum við listsköpun,
  • Að ýta undir sköpunargleði, sjálfstraust og sjálfstæði leikskólabarna
  • Að ýta undir samvinnu og félagsþroska leikskólanemenda

Myndmenntakennsla er í tveimur samliggjandi tímum einu sinni í viku og fer fram í myndmenntastofu grunnskólans. Verk leikskólanemendanna er til sýnis á veggjum og göngum skólans.

Markmið með tónmenntakennslu leikskólabarna er ;

  • Að virkja nemendur til söngs
  • Að virkja sköpunargleði nemenda
  • Að nemendur kynnist grunnhugtökum tónlistar ( háir/djúpir tónar, sterkt/veikt)
  • Að þjálfa taktskyn nemenda

Tónmenntakennsla er 1 sinni í viku. Kennarar frá leik- og grunnskóla sinna kennslunni. Til grundvallar er kennslubók og vinnubók Tónmennt 1. Hefti og ýmis valin sögnlög og verkefni.

MARKMIÐ HÓPASTARFS OG ÁHERSLUR SEM TENGJAST NÁMSÞÁTTUM

Markmið með hópatímu í leikskólanum er að;

  • Auka faglegan metnað og ábyrgð starfsfólks
  • Að efla alhliða þroska barna á markvissan hátt

Hópstjórar bera ábyrgð á að jafnvægi ríki á milli námsþátta og því er skráning nauðsynleg.

Helstu áhersluatriði sem tengjast málrækt leikskólabarna eru

  • Samtöl, þar sem börn eru hvött til að segja frá atburðum sem tengjast þeim sjálfum og að hlusta á aðra af athygli. Örva gagnrýna hugsun með opnum spurningum sem krefjast íhugunar, ein spurning vekur oft upp aðra. Nauðsynlegt er að öllum börnum í hópnum gefist tækifæri til þess að segja frá, svara og hlusta. Sérstaklega er mikilvægt að börnin temji sér að hlusta með opnum hug og virðingu á frásagnir annarra.
  • Lestur og hlustun, þar sem börnin kynnast heimi bókanna, hlusta á sögulestur úr bókum sem hæfa aldri þess og þroska, skoða myndir, ræða um atburði og persónur sögunnar og reyna að setja sig í spor annarra. Börnin hafa greiðan aðgang að bókasafni hreppsins. Með aðstoð hópstjóra læra þau að umgangast bækur af virðingu, fá lánaðar bækur og skila þeim á réttan stað. Segja sögur frá eigin brjósti, bæði bullsögur og endursagðar. Slík frásögn er oft meira lifandi og fangar athygli barna mjög vel. Börn skulu fá tækifæri til þess að segja sögur frá eigin brjósti eða lesa hvert fyrir annað úr myndabókum.
  • Orðaforði, lestur og ritun, þar sem viðhalda skal eðlilegum áhuga barnasins á rituðu máli. Skapa skal umhverfi sem hvetur börn til þess að kanna leyndardóma ritaðs máls og vekur löngun til að læra að lesa og skrifa. Ritað mál á að vera sýnilegt í leikskólanum, börnin fá tækifæri til þess að æfa sig í að skrifa nafnið sitt, nota blýanta og liti til þess að skrifa í þykjustunni, aðgangur að segulbókstöfum á að vera góður og bókstafir sýnilegir í umhverfi barnsins.
  • Orðaforði og hugtök, með því að nota hugtök sem tengjast stað, tíma og stærð í daglegu tali í leikskólanum. Vekja áhuga barnsins á klukku og skiptingu tímans í klukkustundir, daga, vikur, mánuði og ár. Kenna börnum heiti vikudaga og mánaða, gera þau meðvituð um árstíðaskipti og veðurfar og efla hugtaka skilning þeirra á ýmsu er lítur að fjölda, magni, þyngd og hæð. [15]

Helstu áhersluatriði er tengjast myndsköpun eru;

  • Fjölbreyttur efniviður og aðferði; með því að veita börnum fjölbreytileg tækifæri til þess að tjá sig með myndmáli á frjálsan og skapandi hátt. Leggja skal áherslu á fjölbreyttan efnivið sem ýtir undir sköpunargleði barnsins og vekur forvitni þess. Mótandi efniviður, efniviður til myndsköpunar og vinna með tæki og áhöld skal vera á boðstólnum jöfnum höndum. Hópstjórar skulu hafa hugfast að megináherslan á að vera í sköpunarferlinu sjálfu en ekki að útkoman sé fyrirfram mótuð eða ákveðin. Ýta á undir sjálfstæða myndsköpun en forðast að láta öll börn vinna eins.
  • Listkynning, þar sem börnin fá að kynnast ýmiskonar listaverkum og listiðnaði. Ekki gefst kostur á að skoða listasöfn eða listsýningar en hópstjórar skulu leyfa börnum að skoða listaverkabækur og sýna þeim ýmiskonar handverk. [16]

Helstu áhersluatriði tengd tónlist eru;

  • Söngur, bæði sjálfsprottinn gleðisöngur og hópsöngur. Leggja skal áherslu á fjölbreytt lagaval og texta sem vekja áhuga.
  • Hreyfing og hrynjandi, sem tengist tónlist eða reglubundnum hrynjanda. Hvetja á börn til frjálsrar túlkunnar og skapandi hreyfingar og kynna fyrir þeim danstakta.
  • Hljóðgjafar og hljóðfæri, með því að veita börnum aðgang að margbreytilegum hljóðfærum. Tónlistardeild Súðavíkurskóla er vel búin hljóðfærum og tóngjöfum sem á að kynna fyrir börnunum á markvissan hátt.
  • Hlustun, með því að vekja athygli barna á ýmsum hljóðum í náttúruni t.d fuglahljóðum, flugnasuði og ýmsum hljóðum sem tengjast umhverfinu t.d. bílnið, fótataki og samræðum.[17]

Helstu áhersluatriði tengd fræðslu um náttúru og nánasta umhverfi eru;

  • Tengsl barns og náttúru, þar sem börnin eru frædd um fjölbreytileikan sem felst í náttúrunni í kringum þau. Börnin fara í skoðunarferðir út í náttúruna með hópstjóra sínum þar sem áhugi barnsins á hinu smáa í umhverfinu er nýttur til frekari athugana og tilrauna. Að börn velti vöngum yfir umgengni sinni og virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi. Hringrásum og fyrirbærum í náttúrunni.
  • Náttúrugripir, tæki og tilraunir, þar sem börn eru hvött til að koma með allskonar hluti úr náttúrunni í leikskólan t.d. steina, bein og plöntur til frakari skoðunar. Einnig er starfsfólk hvatt til þess að koma með samskonar hluti í vinnuna. Skapa skal börnunum tækifæri til þess að rannsaka og gera tilraunir í leikskólanum t.d. á vatni.[18]

Helstu áhersluatriði tengd menningu og samfélagi

  • Ferðir um nágrenni leikskólans og lengri ferðir í næstu sveitarfélög. Í styttri ferðum er lögð áhersla á að börnin kynnist nánasta umhverfi sínu, læri nöfn á götum og heiti í umhverfinu t.d. göngustígur, blómabeð og.sv.frv. Við förum fótgangadi í styttri ferðir og börnin læra þær reglur sem nauðsynlegt er að hafa til þess að tryggja öryggi þeirra.
  • Tölvur eru þegar stór þáttur í lífi barna. Við bjóðum upp á fræðandi tölvuleiki. Börn eru mikið í tölvuleikjum heima hjá sér, í leikskólanum leggjum við áherslu á umgengni í kringum tölvur t.d. að hver og einn fái að klára í friði og við skiptumst á og annað slíkt.
  • Hátíðir og hefðir Súðavíkurskóla eru kynntar á skóladagatali leik- og grunnskóladeildar. Ýmsir viðburðir hafa áralanga hefð í samfélaginu en aðrir eru nýjir af nálinni.
  • Samskipti við aðrar þjóðir sem lýsir sér helst í umræðu um mismunandi uppruna barnanna í barnahópnum og starfsfólksins. [19]

 

MAT, SKÓLAÞRÓUN OG ÁÆTLANAGERÐ

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í leikskólum er að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks leikskóla, viðtökuskóla og foreldra,

 

  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár leikskóla,

 

  • auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum. [20]

Hver skólastofnun ákveður á hvern hátt skólastarf skuli metið, hver tekur þátt í matinu hverju sinni og á hvernig matið er kynnt. Súðavíkurskóli leggur áherslu á Uppbyggingar- Uppeldi til ábyrgðar sem stefnu skólans er viðkemur heildarmati á skólastofnuninni bæði sem lærdómsstofnun og ekki síður sem vinnustað. Gerð er fimm ára matsáætlun í senn og henni fylgt eftir eins og lög kveða á um, reynt er að taka alla matsþætti á þessum fimm árum.

 

INNRA MAT

Innnra mati á leikskólastarfi er einnig ætlað að veita upplýsingar um starfshætti leikskólans, stuðla að umbótum og auknum gæðum og vera liður í þróun skólastarfs leikskólum.Með kerfisbundnu mati er greint hvað gengur vel og hvað miður og síðan teknar ákvarðanir um umbætur á grundvelli niðurstaðna.[21]Skólapúslinn hefur verið fenginn til þess að sjá um foreldra- og starfsmanna-, sem og nemendakannanir.

Foreldrar taka þátt í innra mati leikskóladeildarinnar annað hvert ár en þá er lögð fyrir könnun þar sem spurt er um upplifun foreldra af leikskólastarfinu. Niðurstöður könnunnarinnar eru kynntar viðkomandi aðilum.

Starfsfólk tekur þátt í innra mati með því að svar könnun annað hvert ár, þar sem spurt er um upplifun starfsfólks af leikskólastarfinu og aðbúnað á vinnustað. Niðurstöður könnunar er kynnt á starfsmannafundi og viðeigandi aðilum. Foreldrafélagið metur hvort starf leikskóladeildar sé í samræmi við lög um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá leikskóladeildar á hverju hausti. Foreldrarfélagið skilar fræðslunefnd niðurstöðum og kynnir fyrir skólastjóra.

Starfsfólk leik- og grunnskóladeildar metur árangur leikskólastarfsins

  • með reglulegum skráningum þar sem fylgst er með þroska leikskólabarnanna
  • með skráningum á hópavinnutímu þar sem fram koma upplýsingar um hvað fór fram í hverjum tíma fyrir sig og hvernig það gekk
  • með þroskaprófum t.d Hljóm-2, íslenski málhljóðamælirinn
  • með markmiðsmiðaðri vinnu og samantekt í lok skólaárs.

Starfsfólk heldur utan um athuganir sínar en í lok skólaárs er upplýsingum safnað saman og geymdar í eitt ár.

SKÓLAÞRÓUN

Súðavíkurskóli vinnur að mótun heiltæks skóla fyrir börn frá eins árs til sextán ára. Liður í því verkefni er samkennsla elstu barna leikskólans með yngstu börnum grunnskólans. Við lok skólaárs er starf vetrarins metið af kennurum leik- og grunnskóladeildar og áætlun gerð fyrir næsta vetur út frá barnafjölda, samsetningu starfsmannahópsins og gengi síðasta árs. Samkennsla leik- og grunnskólabarna er því í sífeldri þróun milli ára.

Starfsfólk leik- og grunnskóla metur árangur samvinnu beggja skólastiga og hvort markmiðum hafi verið náð við lok skólaárs. Skólastjóri vinnur út frá þeim niðurstöðum og gerir áætlanir fyrir næsta skólaár .

ÁÆTLANAGERÐ

Skólastjóri setur saman starfsfáætlun fyrir hvert skólaár sem samþykkt er af foreldrafélagi Súðavíkurskóla og fræðslunefnd. Starfsáætlun er kynnt fyrir foreldrum að hausti og send inn á hvert heimili. Í starfsáætlun kemur fram hvernig skólastarfinu er háttað og einstaka liðir starfsins útskýrðir. Skólastjóri setur einnig saman starfsáætlun fyrir starfsmenn Súðavíkurskóla þar sem starf skólaársins er kynnt, helstu markmið og endurmenntun starfsfólks.

ÖRYGGISMÁL

Einu sinni á ári er haldin brunaæfing í Súðavíkurskóla. Æfð eru viðbrögð við eldsvoða og rýmingu. Gott er að hafa börn í inniskóm því ekki gefst alltaf tími til að klæða sig í yfirhafnir og skó þegar eldur verður laus.

Lögreglan heimsækir okkur að vori og fer yfir umferðarreglur og öryggismál. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og biðjum við þá um að virða umferðareglur, þó svo að umferð sé ekki mikil geta slys og óhöpp átt sér stað. Sjálfsögð öryggisatriði eins og bílbeltanotkun, bílstólar og hjálmanotkun hafa bjargað mannslífum og komið í veg fyrir örkuml.

Vinnueftirlitið og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða gera úttekt á starfs- og leikumhverfi einu sinni á ári.

Ef barn slasast í leikskólanum fer af stað eftirfarandi aðgerðaráætlun.

Minni háttar meiðsl:

Kennari metur hvort ástæða er til þess að hafa samband við foreldra/ forráðamenn. Óhapp tilkynnt foreldrum/forráðamönnum þegar barnið er sótt.

Slys:
Ef slys ber að höndum skal viðkomandi starfsmaður hlúa að hinum slasaða og fá annan starfsmann til þess að hafa ofan af fyrir hinum börnunum. Starfsmenn skulu halda ró sinni til þess að hlífa hinum slasaða og einnig hinum börnunum. Strax á að hafa samband við við foreldra/forráðamenn og láta vita af slysinu. Ef þörf er á að koma nemandanum undir læknishendur skal athuga hvort foreldrar/ forráðamenn hafi tök á því. Ef svo er ekki, skal starfsfólk skólans sjá um það. Ef um meiriháttar slys er að ræða skal strax hafa samband við lækni og kalla eftir sjúkrabíl.

Öll meiðsli og slys skal skrá í slysadagbók skólans. Taka skal fram nafn nemanda, dagsetningu, allar aðstæður, hvaða starfsmenn hafi komið að því að leysa málin og hvernig hafi verið brugðist við. Þessi lýsing skal vera ýtarleg

TENGSL VIÐ NÆRSAMFÉLAGIÐ

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn segir einhverstaðar því er mikilvægt að halda tengslum við nærsamfélagið. Tengsl Kofrasels eru margvísleg þrátt fyrir smæð samfélagsins. Skólastjóri Súðavíkurskóla og fulltrúi starfsfólks sitja reglulega fundi með fræðslunefnd Súðavíkur. Fræðslunefnd styður vel við bakið á skólastjóra skólans og tekur virkan þátt í mótun skólastarfsins. Ekki er um eiginlega stoðþjónustu að ræða í Súðavík en skólinn er með samstarfssamning við Dr. Ingu Báru Þórðardóttur sálfræðing. Samstarf heimilis og skóla er hornsteinn að góðu leikskólastarfi.

Smæð skólans gerir það að verkum að bein og náin samskipti eru milli foreldra og starfsfólks. Grunn- leikskóla- og tónlistardeild vinna náið saman að uppbyggingu heilstæðs skóla fyrir börn á aldrinum 1 – 16 ára.

Í þessum kafla verður nánar gert grein fyrir þessum tengslum.

YFIRSTJÓRN SKÓLAMÁLA

Samkvæmt 4.gr. laga um leikskóla bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla. Þar segir: Sveitarfélög hafa forystu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan í leikskólaum sveitarfélagsins, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélaginu.[22]

Sveitarstjórn kýs nefnd sem fer með málefni leikskólans í umboði sveitarstjórnar. Rétt til setu í þeirri nefnd hafa einnig skólastjóri Súðavíkurskóla, fulltrúi starfsfólks Súðavíkurskóla og fulltrúi foreldra, allir með málfrelsi og tillögurétt.[23] Skólastjóri stjórnar daglegu starfi leikskólans í umboði rekstraraðila.

 

[1] Aðalnámskrá leikskóla

[2] Lög um leiksóla 2008

[3] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[4] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[5] Aðalnámkrá leikskóla 2011

[6]

[7] Uppeldi til ábyrgðar

[8] --“--

[9] --“--

[10] --“--

[11] Uppeldi til ábyrgðar

[12] --“--

[13] Uppeldi til ábyrgðar

[14] --“--

[15] Aðalnámskrá leikskóla

[16] Aðalnámskrá leikskóla

[17] Aðalnámskrá leikskóla

[18] Aðalnámskrá leikskóla

[19]

[20] Aðalnámskrá leikskóla 2011

[21] Aðalnámskrá leiskóla 2011

[22] Lög um leikskóla nr. 90/2008 4gr:1.kafli

[23] Skólastefna Súðavíkurhrepps 2010 bls

Sveitarstjórn: Sveitarstjórn fer með stjórn Súðavíkurhrepps samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga. Sveitarstjórn sér um að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt með þeim hætti sem lög kveða á um og að fylgt sé þeim reglum um meðferð sveitarstjórnarmála sem ákveðnar eru í samþykktum sveitarfélagsins, lögum og reglugerðum.

Sveitarstjóri: Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Hann undirbýr fundi sveitarstjórnar og er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins. Hann á sæti á fundum sveitarstjórnar og nefnda og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

Fræðslunefnd: Hlutverk fræðslunefndar að

  • vera sveitarstjórn til ráðgjafar í fræðslu-, æskulýðs- og íþróttamálum,
  • að gera tillögur til sveitarstjórnar um markmið í fræðslu-, æskulýðs- og íþróttastarfi á vegum sveitarfélagsins,
  • að hafa eftirlit með því að samþykkt markmið sveitarstjórnar í fræðslu- og tómstundarmálum barna og unglinga nái fram að ganga,
  • að vera umsagnaraðili um ráðningar skólastjóra og annarra starfsmanna þeirra stofnana sem undir hann heyra,
  • að hafa umsjón með framkvæmd könnunar á þörf fyrir leikskólarými a.m.k. á tveggja ára fresti og að sjá um að öll skólaskyld börn í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu,
  • að starfa með skólastjóra og gera tillögur um úrbætur í æskulýðs-, íþrótta- og skólastarfi og gera tillögur er miða að bættum aðbúnaði til skólahalds eftir atvikum,
  • að leitast við að hafa gott og náið samstarf við þau frjálsu félagasamtök, sem í sveitarfélaginu starfa, með það að leiðarljósi að efla starf þeirra.

Fræðslu- og tómstundanefnd gerir tillögur til sveitarstjórnar um fjárhagsáætlun vegna þeirra stofnana, sem tilheyra verksviði nefndarinnar og í fræðslu-, íþrótta- og æskulýðsmálum almennt. Nefndin skal hafa faglega umsjón með þeim stofnunum sem á verksviði hennar eru og hafa eftirlit með því að stofnanirnar starfi innan ramma laga og samþykktrar fjárhagsáætlunar á hverjum tíma.[1]

Skólastjóri:

Sveitarfélögum er heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til stjórnunar, kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi.[2] Þar til reglugerð um starfssvið skólastjóra í samreknum leik- grunn- og tónlistarskóla hefur litið dagsins ljós, á meðan, gildir ofantalið sem starfslýsing skólastjóra Súðavíkurskóla.

 

STOÐÞJÓNUSTA

Súðavíkurskóli nýtur sérfræðiþjónustu frá ýmsum aðilum hverju sinni þar sem ekki er um fasta samninga við ákveðna aðila, aðra en Dr. Ingu Báru Þórðardóttur sálfræðing og námsráðgjafa sem sér um þá þjónutu.

 

Nemendaverndarráð Súðavíkurskóla skipar:

 

Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri Súðavíkurskóla

Anna Sigurðardóttir leiðbeinandi Súðavíkurskóla

Inga Bára Þórðardótti sálfræðingur og námsráðgjafi.

Þóra Marý Arnardóttir félagsfræðingur

Helena Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur

Arna Kristinsdóttir ráðgjafi í barnavernd (þegar við á)

 

 

Skólastjóri metur þörfina á sérfræðiaðstoð út frá samsetningu barnahópsins hverju sinni ásamt nemendaverndarráði skólans. Foreldrar/forráðamenn þurfa að gefa samþykki sitt fyrir því að leita sé eftir sérfræðiaðstoð fyrir barn.

Skólastjóri hefur milligöngu við Greiningarstöð ríkisins eða aðra greiningaraðila ef þörf krefur.

 

SAMSTARF HEIMILIS OG SKÓLA

Samkvæmt skólastefnu Súðavíkurhrepps skulu deildir Súðavíkurskóla leggja ríka áherslu á öflugt samstarf við heimili nemenda sinna. Þar segir að forsenda fyrir árangusríku skólastarfi sé samvinna kennara og foreldra sem deila þekkingu sinni á skipulagi og starfi skólans og þeim markmiðum sem æskilegt megi teljast að náist í skólastarfinu út frá færni og þroska hvers og eins nemenda[3].

Markmið með foreldrasamstarfi er

  • að veita foreldrum upplýsingar um starfssemi leikskóladeildarinnar,
  • að veita foreldrum upplýsingar um þroska og stöðu barnsins í leikskólanum,
  • að afla upplýsinga um aðstæður og uppeldisviðhorf foreldra,
  • að stuðla að þátttöku foreldra í leikskólastarfinu,
  • og að stuðla að samskiptum sem byggja á virðingu og trausti.

Samstarfið á að byggja á gagnkvæmu upplýsingastreymi sem fer fram í daglegum samskiptum kennara og foreldra, á skipulögðum foreldrafundum og í foreldraviðtölum.

UPPHAF LEIKSKÓLAGÖNGU

Samstarf heimilis og skóla hefst áður en barnið byrjar í leikskólanum. Foreldrar mæta í viðtal við skólastjóra og eða starfsmann leikskóladeildar til þess að ákveða aðlögunartíma barnsins og fá upplýsingar um starfshætti leikskólans. Sá er viðtalið tekur skal kynna stefnu skólans, starfsfólk og húsakynni fyrir foreldrum og foreldrar skulu upplýsa um hagi barnsins og þroska þess.

Aðlögunartími er skipulagður í samráði við foreldra. Börn hafa misjafna aðlögunarhæfni og ber að taka fullt tillit til þess þegar aðlögunartímabilið er skipulagt.

Mikilvægt er að barnið nái að mynda tengsl við einn ákveðin starfsmann í aðlögunarferlinu og skal því sami starfsmaður taka á móti barninu á hverjum degi og sinna frumþörfum þess til að byrja með.

Foreldrar dvelja með barninu í leikskólanum í aðlögunarferlinu og fá þannig tækifæri til að kynnast starfinu og starfsfólki leikskólans.

DAGLEG SAMSKIPTI

Starfsfólk og foreldrar skulu leitast við að byggja samskipti sín á virðingu og trausti. Samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 er starfsfólk leikskólans bundið trúnaði um málefni leikskólabarnsins.[4] Foreldrar eru beðnir um að ræða við starfsfólk leikskólans ef einhvað kemur upp á í leikskólastarfinu. Því með réttri upplýsingagjöf og samvinnu má gera góðan skóla enn betri.

Foreldrar og starfsfólk eiga að gefa sér tíma til þess að ræða saman um það helsta sem drifið hefur á daga barnsins hvort heldur sem er í leikskólanum eða heima við.

Nauðsynlegt er að foreldrar upplýsi starfsfólk leikskólans um breytingar sem verða á högum barnsins og fjölskyldulífi. Börn eru mjög næm á breytingar og sýna það oft með breytingum í hegðun eða líðan.

SKIPULAGÐIR FUNDIR

Á starfsáætlun Kofrasels er gert ráð fyrir einum foreldrafundi að hausti þar sem skipulag vetrarins er kynnt og foreldraviðtölum að vori þar sem farið er yfir helstu þroskaáfanga hvers barns.

Foreldrafundurinn er skipulagður af skólastjóra og er ætlaður foreldrum leikskólabarna og eða á sameiginlegum foreldrafundi beggja skólastiga. Á þeim fundi kynnir skólastjóri starfsemi vetrarins fyrir foreldrum, breytingar ef einhverjar hafa orðið á starfsmannahaldi eða skipulagi leikskólans og helstu áhersluatriði. Foreldrum gefst kostur á að ræða almennt um leikskólastarfið og koma með hugmyndir. Umræður um einstaka barn eða starfsmann eiga ekki heima á slíkum fundi.

Foreldraviðtöl eru á vorönn skólaársins. Í foreldraviðtölum fá foreldrar upplýsingar um þroska og stöðu barnsins í leiskólanum sem byggjast á skráðum athugunum starfsmanns af barninu í leik og starfi og þekkingu skólastjóra á helstu þroskaáföngum leikskólabarna. Skólastjóri ber ábyrgð á foreldraviðtölum en getur falið hópstjórum að taka þau. Farið er með allar upplýsingar um barnið sem trúnaðarmál.

FORELDRAFÉLAG OG SKÓLARÁÐ

Samkvæmt lögum um leikskóla nr 90/2008 er skólastjóri ábyrgur fyrir því að starfandi sé foreldraráð/foreldrafélag við hvern leikskóla. Samkævmt nýrri aðalnámskrá 2011 ber skólastjóra að stofna skólaráð sem tekur yfir starfi foreldraráðs. Fyrir skólaráð skal leggja skólanámskrár og skóladagatöl til samþykktar. Einnig skal bera undir skólaráð allar meiriháttar breytingar á starfssemi leikskólans.[5]

Við Súðavíkurskóla er starfandi foreldrafélag sem er sameiginlegt fyrir foreldra leik- tónlistar- og grunnskólabarna. Foreldrafélagið boðar til foreldrafundar minnst einu sinni á skólaári og oftar sé þess óskað. Skólastjóri boðar til foreldrafundar einu sinni á hvorri önn.

ALMENNAR UPPLÝSINGAR OG FRÆÐSLA

Skólastjóri skal reyna að gefa út fréttabréf með fræðslu og upplýsingum um leikskólastarfið, eitt á haustönn og eitt á vorönn eða eftir því sem þurfa þykir hverju sinni. Að auki eru foreldrar upplýstir um leikskólastarfið með auglýsingum sem hengdar eru upp í forstofu leikskólahúsnæðisins, með tilkynningamiðum sem settir eru í skilaboðaskjóður barnanna, eða á heimasíðu Súðavíkurskóla og í daglegum samskiptum starfsfólks og foreldra. Miklar breytingar hafa orðið á upplýsingum um starfssemi skóla og hvar slíkar upplýsingar koma fram samkvæmt nýjum persónuverndarlögum, við reynum að uppfylla öll þeirra skilyrði.

ANNAÐ

Foreldra eru ávalt velkomnir í leikskólann til þess að kynnar sér það starf sem þar fer fram. Foreldrar hafa aðgang að skólastjóra Súðavíkurskóla alla daga frá 8:00 – 16:00. Foreldrar eru hvattir til að koma hugmyndum og athugasemdum til skólastjóra Súðavíkurskóla svo hægt sé að gera gott skólastarf enn betra.

SAMSTARF VIÐ GRUNNSKÓLA

Leikskólinn Kofrasel starfar sem deild innan Súðavíkurskóla. Því er eðlilega mikið samstarf milli þessara skólastiga. Samstarfið fléttast inn í daglegt skipulag leikskólans, samskipti nemenda og kennara á báðum skólastigum og samstarf starfsfólks leik- og grunnskóladeildar.

DAGLEGT STARF

Með daglegu samstarfi leik- og grunnskóladeildar er markmið okkar að búa til samfellu í skólagöngu barna frá því þau byrja í leikskóla og þar til þau útskrifast úr grunnskóla.

Til að ná þeim markmiðum höfum við sett upp áætlun um að:

  • elsti árgangur leikskólans fer í samkennslu með yngri deild grunnskólans í allt að 11 stundir á viku með leik- og grunnskólakennara, eftir þörum.
  • Kennarar leik- og grunnskóla skipuleggja verkgreinatíma fyrir börn að 3ja ára aldri.
  • Öll leikskólabörn fá skipulagða hreyfistund í Íþróttahúsinu
  • Nemendur á yngsta stigi grunnskólans eru í lengri viðveru í dægrardvöl ýmist í grunnskólanum eða á leikskólanum, þegar þörf er á.
  • Nemendur grunnskóladeildar eru velkomin í heimsókn í leikskólann utan skólatíma
  • Sameiginleg þátttaka í öllum uppákomum í skólanum t.d. gróðursetningu, norræna skólahlaupinu, árshátíð og jólagríni.

 

NEMENDUR OG KENNARAR

Það er hagur barnanna að starfsfólk skólans hafi þekkingu og skilning á þörfum þeirra frá því að þau hefja skólagöngu sína við 1 árs aldur og til loka grunnskóla við 16 ára aldur. Innan skólasamfélagsins býr mikil þekking á þroska og námsgetu barna út frá aldri þeirra. Við viljum nýta þá þekkingu til fulls óháð menntun starfsfólksins. Kennarar í leikskólum hafa mikla þekkingu á mikilvægi leiksins sem náms og þroskaleið, þeir eru meðvitaðir um hversu mikilvægur ummönnunarþátturinn er sem liður í félags- og líkamsþroska barna og hafa tileinkað sér einstaklingsmiðað nám út frá þroska og getu hvers og eins. Kennarar grunnskólans hafa víðtæka þekkinga á námsþáttum grunnskólans og mismunandi kennsluaðferðum, þeir eru meðvitaðir um mikilvægi góðs foreldrasamstarfs og hafa mikla reynslu og þekkingu af sérkennslumálum. Kennarar tónlistarskólans eru meðvitaðir um mikilvægi tónlistar til aukins náms- og félagsþroska, þeir hafa víðtæka þekkingu á tón- og hljómfræði og reynslu af hljóðfæraleik.

SAMSTARF STARFSFÓLKS

Með aukinni samvinnu starfsfólks er stefnt að því að efla starfsmannahópinn og víkka út þá fagþekkingu sem er til staðar í skólasamfélaginu.

Til að ná þeim markmiðum höfum við sett niður áætlun:

  • Kennarar leik- og grunnskóla vinna saman að því að skipuleggja kennslu 0. bekkjar.
  • Kennarar leik- og grunnskóla vinna saman í þeim kennslustundum sem 0. bekkur er í samkennslu.
  • Kennarar leikskólans hafa aðgang að náms- og kennslugögnum grunnskólans
  • Kennarar grunnskólans hafa aðgang að náms- og kennslugögnum leikskólans.
  • Kennarar leik- og grunnskóla sitja saman í leshópum í tengslum við uppbyggingastefnuna
  • Kennarar leik- og grunnskóla sitja sameiginlega starfsmannafundi 2 sinnum á ári. Taka þátt í námskeiðum í tengslum við endurmenntun þegar það á við.
  • Kennarar leik- og grunnskóla eru í sameiginlegu starfsmannafélagi og halda sameiginlegar starfsmannaskemmtanir.

Með aukinni samvinnu dregur úr fordómum gagnvart þeim mörgu fagstéttum sem starfa innan skólasamfélagsins, hópurinn þjappast saman og tækifæri skapast til að lyfta upp starfsandanum.

 

 

HEIMILDARSKRÁ

 

Aðalnámskrá leikskóla 2008

Aðalnámskrá leikskóla 2011

Skólastefna Súðavíkurhrepps

Lög um leikskóla

Uppeldi til ábyrgðar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[1]

[2]

[3] Skólastefna Súðavíkur

[4] Lög um leikskóla 90/2008

[5] Lög um leikskóla 90/2008