Matsáætlun Súðavíkurskóla 2022-2023

Matsáætlun Súðavíkurskóla 2022 - 2023

Um Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli er fámennur skóli sem samanstendur af þremur skóladeildum þ.e. leik- grunn- og tónlistardeild. Skólinn er staðsettur í miðju þorpsins og því stutt til fjalls og fjöru. Umhverfið gefur mikla möguleika til að nýta til kennslu. Atvinnulíf í þorpinu hefur orðið einsleitara með árunum og fyrirtækjum fækkað, það er því ekki mikil sóknarfæri hjá skólanum þegar kemur að því að tengja grunnskóla og atvinnulíf í nærumhverfi. Slíkt er þó reynt eftir því sem tækifæri gefast og tengist það þá sjávarútvegi. Áhersla á hreyfingu er stór þáttur í skólastarfinu og þrisvar í viku hefjum við skólastarfið á hreyfingu í íþróttasalnum og hina tvo dagana byrjum við á söng á sal. Mötuneyti er starfrækt í skólanum vegna morgunmats en nemendur fara yfir í Álftakjör í hádegismat. Nemendur leikskólans fá matinn í leikskólann. Það eru 11 nemendur í leikskóladeild, 13 nemendur í grunnskóladeild, tónlistarkennsla féll niður í vetur. Fimm ára nemendur í leikskóladeild eru 10-12 kennslustundir í grunnskóladeildinni og þá í samkennslu með 1. -4. bekk. Starfsmenn við skólann eru 8 í mismiklu starfshlutfalli. Þá má geta þess að mikill fjölbreytileiki er í skólanum, hvað þjóðerni varðar, en nemendur og starfsmenn eru af 8 þjóðernum.

Aðferð

Skólastjóri, kennarar ásamt skólasálfræðingi skólans, unnu eftir 5 ára matsáætlun, (sjá fylgiskjal 1) þar sem fyrir skólaárið 2022-2023 yrðu eftirfarandi þættir teknir fyrir. Þættirnir eru: 1) Líðan og þarfir nemenda 2) Lýðræðisleg vinnubrögð, þátttaka og ábyrgð nemenda 3) Skóladagar, skólanámskrá, starfsáætlun, áætlanir og verklagsreglur. 4) Unnið við þætti úr umbótaskýrslu.

  1. Líðan og þarfir nemenda

Skólapúlsinn var fenginn til þess að leggja fyrir nemendakönnun. Tilgangurinn var sá að skoða ýmsa þætti skólastarfsins, s.s. virkni, líðan og viðhorf til náms og skóla.

Nemendakönnuninni var skipt í 4 kafla, þar sem skoðuð voru eftirtalin atriði: 1) Virkni nemenda í skólanum 2) Líðan og heilsa 3) Skóla- og bekkjarandi. 4) Öllum nemendum - var gefinn kostur á að koma með opin svör um hvað væri gott eða slæmt við skólann að þeirra mati. Kannanirnar voru rafrænar og gerðar á skólaárinu 2022-2023. Svarhlutfall var með besta móti eða 100% meðal allra nemenda í 7.-10.bekk.

Viðmið

Að nemendur skólans séu ekki undir landsmeðaltali.

Niðurstöður

  • Helstu niðurstöður: Þau atriði sem voru stjörnumerkt neikvæð og vert er að taka fyrir voru: A) Tíðni hreyfingar og b) agi í tímum.
  1. Spurningar sem svara þurfti vegna hreyfingar fjalla um líkamþjálfun og íþróttaæfingar fyrir utan skóla t.d. með íþróttafélagi. Nemendur komu illa undan þessum þætti og langt undir landsmeðaltali. Landsmeðaltalið er 45,9% en okkar nemendur voru með 14,3% sem er talsverður munur.

Sökum fámennis erum við ekki með íþróttafélag starfandi þannig að nemendur okkar stunda ekki æfingar með íþróttafélagi og svara samkvæmt því, þannig að þessi þáttur kemur mjög illa út. Við höfum ekki áhyggjur vegna þessa og teljum að nemendur okkar fái næga hreyfingu í skólanum og á vegum skólans t.d. skólahreysti, íþróttahátíðir í nærliggjandi sveitarfélögum, lífshlaupið, norræna skólahlaupið, 3x í viku byrja allir dagar á hreyfinu, íþróttatímar, útivist osfrv. Teljum við því ekki ástæðu til úrbóta vegna þessa.

  1. b) Agi í tímum, spurningar sem stuðst er við ganga út á hvort nemendur þurfi að bíða eftir aðstoð, mikill órói og hávaði, ekki hlustað á kennara. Þarna erum við örlítið undir landsmeðaltali. Landsmeðaltalið er 4,9 og erum við með 4,6.

Kennarar hafa farið yfir þessar spurningar með nemendum og kannað hvað það sé að þannig að við fáum þessa útkomu. Helstu niðurstöður voru að almennt ætti þetta ekki við en daginn sem könnunin var lögð fyrir þá hafi verið mikil órói að þeirra mati í tímum þennan dag. Ekki er talið að úrbóta sé þörf eftir umræður við nemendur.

Lýðræðisleg vinnubrögð, þátttaka og ábyrgð nemenda

Nám og kennsla - Lýðræðisleg vinnubrögð, þátttaka og ábyrgð nemenda.

Súðavíkurskóli er eina þeim stofnunum sem að reynir að tryggja uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum. Að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgðarfullu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis.

Aðferð

Kennarar komu saman á rýnisfundum þar sem dregnar voru saman áherslur er lúta að eftirfarandi þáttum úr matsáætlun. Við fórum yfir hvað við erum að gera í Súðavíkurskóla er varðar lýðræðisleg vinnubrögð, þátttaka og ábyrgð nemenda. Ýmislegt kom í ljós eins og að við erum að gera mjög margt sem styrkir þessi þætti. Það kom okkur á óvart hvað við erum í rauninni að gera mikið sem styrkir lýðræðisleg vinnubrögð, þátttöku og ábyrgð nemenda.

Niðurstöður

Skólaþing

Á skólaþingi eru ákvarðanir teknar um þau málefni sem tengjast skólabragnum, námi og kennslu og stefnu skólans sem er Uppbyggingastefnan og leiðsagnarnám eða öðrum málefnum sem brenna á nemendum. Allir nemendur grunnskólans taka þátt í þinginu sem haldið er á sal skólans, unnið er í hópum og þá þvert á bekki. Niðurstöður gerðar sýnilegar.

Ungmennaþing

Nemendur í 7. – 10. bekk tóku þátt í ungmennaþingi sem haldið var í Bjarnarfirði á Ströndum í byrjun október 2022. Nemendur völdu sjálf viðfangsefni til að ræða á þinginu og þau málefni sem brunnu helst á þeim en hæst báru samgöngur á milli byggðakjarna/göng. Einn nemandi úr skólanum valinn í fulltrúaráð fyrir næsta þing.

Nemendur í 9. – 10. bekk tóku þátt í alþjóðaverkefni í fyrsta skiptið í ár á vegum Erasmus og Nordplus. Þau fóru til Haag í Hollandi þar sem þau kynntu m.a. skólann sinn, menningu og listir, mat, náttúru, stjórnskipulag og ýmsan annan fróðleik um land og þjóð. Að sama skapi kynntust þau þessu frá öðrum þátttakendum sem komu frá mismunandi löndum. Einnig heimsóttu þeir helstu stofnanir í Haag s.s. friðarhöllina. Umræðan snerist mikið um mismunandi jafnrétti, lýðræði, og mannréttindi í heiminum.

Skólaráð

Í skólaráði sitja tveir nemendur sem eru fulltrúar allra hinna. Á skólaráðsfundi geta nemendur lagt fram sínar tillögur að skólastarfinu og skólahaldi og verið þannig þátttakendur í ákvörðunartökum sem snúa að þeim og þeirra hagsmunum.

Nemendafélag

Allir nemendur í unglingadeild eru í framboði til setu í stjórn nemendafélagsins. Kosið er í byrjun haustannar á sal skólans og hafa allir nemendur skólans atkvæðarétt. Fimm eru kosnir til stjórnar og svo meðstjórnendur. Sjálfsagt þykir að nemendur haldi framboðsræður og tali um sitt ágæti í ákveðin hlutverk. Í nemendafélaginu eru síðan haldnir fundir þar sem teknar eru ákvarðanir varðandi félagslífið í skólanum, skipulagning ferða á vegum skólans og fjáröflun í því sambandi.

Sameiginlegar ákvarðanir og þátttaka í öðrum viðburðum á skólaárinu.

Hreyfing í íþróttasal þrisvar í viku, sameiginlegir fundir á sal, diskótek, Bekkjarsáttmálinn, Norræna skólahlaupið, fjöruferðir, sleðaferðir, skíðaferð, ferðir í Raggagarð, gönguferðir, lambaferð, bakstursdagar, bíódagar, gróðursetning og söfnun birkifræja, dagur íslenskrar tungu, bleikur október, dagur gegn einelti, dagur stærðfræðinnar, alþjóða tungumáladagurinn, List fyrir alla, foreldrakaffi á haustönn, jólakortagerð, Jólagrín og Litlu jólin, Lífshlaupið, öskudagsball, Vinavikan, árshátíð skólans, Litla íþróttahátíðin, vorferð, útivera og leikir á vordögum.

Aðkoma nemenda að upptöldum viðburðum er talsverð og umræðan fer alltaf fram um það sem er á dagskrá hverju sinni og hvað þau geti lagt að mörkum til þess að gera viðburðinn að skemmtilegri upplifun fyrir alla. Í þessu felst ákveðin valdefling því þau eru höfð með í ráðum og fá þannig tækifæri til vera þátttakendur í stærri ákvörðunum í skólastarfinu.

Ábyrgð nemenda og skyldur

Nemendur bera ábyrgð og skyldur gagnvart eigin námi miðað við aldur og þroska. Á það við um nám í skóla og heimanám. Þeir bera einnig ábyrgð á eigin hegðun og framkomu við skólafélaga og starfsfólk skólans. Til þess að hjálpa nemendum að átta sig á hvað felst í samskiptum við aðra og líka hvernig hægt er að tengja það inn á námslegan árangur, vinna þeir bekkjarsáttmála á haustönn út frá viðmiðum, gildum og stefnu skólans sem er Uppbyggingarstefna. Nemendur skoða þessi gildi frekar og umræðan er dýpkuð og hugtökum bætt við þar til bekkjarsáttmálinn verður að veruleika. Nemendur þurfa að samþykkja bekkjarsáttmálann, standa vörð um hann og fylgja þeim gildum eftir sem þau hafa valið. (fylgiskjal 2) .Einnig hafa verið valin fjögur gildi eða yfirhugtök sem tákn um stefnu skólans en þau eru; heiðarleiki, framfarir, vellíðan og virðing. Allir leggja sig fram við að fara eftir þeim gildum.

Í námi er leitast við að gera nemendur ábyrga og sjálfstæðari í sínu námi og þar skipar leiðsagnarmat stóran sess, en það er sú námsstefna sem fylgt er í skólanum. Með þeirri aðferð er unnið að því að finna mismunandi leiðir til þess að komast að markmiðum og taka ákvarðanir út frá námi og stöðu náms. Þetta byggist á smærri námsmarkmiðum sem kölluð eru viðmið og námsviðmiðum aðalnámskrár. Til þess að taka meiri ábyrgð á námi sínu verða nemendur að vita hvað þeir eru að fara að læra, hvernig er best fyrir þá að læra það, hvernig þeir geta séð/greint hvort þeir hafi náð markmiðum og síðast en ekki síst hvers vegna það skiptir máli að læra það sem þeir eru að læra (fylgiskjal 3). Til þess að átta sig á viðmiðum þurfa nemendur að sjá hvernig gott verkefni lítur út, þannig sjá þeir hvert þarf að stefna. Með slíkri nálgun verða nemendur meðvitaðir um að námið hæfi þeim.

Nám þarf að vera mátulega krefjandi og vekja áhugahvöt nemenda til þess að auka aga, úthald og seiglu, það er hinn gullni meðalvegur sem þarf stöðugt að þræða. Með þeim hætti geti nemandinn aukið hæfni sína til náms. Unnið er í þessu sambandi út frá fast mótuðu hugarfari yfir í vaxandi hugarfar þar sem heilinn þjálfast og vinnur þar af leiðandi betur. Unnið er sérstaklega með það hvernig heilinn virkar og hvað þarf að gera til að halda honum við. Nemendur eru þátttakendur í náminu með því að taka þátt í fjölbreyttu mati á verkefnum. Dæmi um mat sem nemendur taka þátt í er; mat á hópavinnu, mat á félagavinnu, sjálfsmat, mat á verkefnum, umræður um verkefni, mat á kennslustund, munnlegt mat, nemendamöppur það sem verkenfum nemenda er safnað saman yfir hvora önn og kynnt í nemendastýrðum foreldraviðtölum. (fylgiskjal 4)

Fastir liðir í samábyrgð og skyldum á umgengni er í sameiginlegum rýmum skólans og í kennslustofum, nemendur bera ábyrgð á frágangi í borðsal eftir morgunmat þau skiptast á eina viku í senn yfir allt skólaárið. Þau bera líka ábyrgð á skólagögnum sem þau fá afhent yfir námstímann. Á meðan nemendur eru fulltrúar skólans út á við bera þau ábyrgð á framkomu sinni og hegðun hvar sem þau eru.

Viðmið

Að allir nemendur upplifi sig þátttakendur í skólastarfinu og að sýnilegt sé að þetta er skóli án aðgreiningar. Leitast verður við að gera alla nemendur ábyrga á námi sínu miðað við aldur og þroska.

Úrbætur

Fara betur yfir með nemendum hvað gagnrýnin hugsun felur í sér. Ekki síst til að nemendur geti skilgreint betur viðmið um nám og nýtt sér mistök á gagnrýnin og skapandi hátt til þess sjá í þeim nýja möguleika.