Matsáætlun 2019-2020

16 Matsáætlun Súðavíkurskóla 2019 – 2020

 

Um Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli er fámennur skóli sem samanstendur af þremur skóladeildum þ.e. leik- grunn- og tónlistardeild. Skólinn er staðsettur í miðju þorpsins og því stutt til fjalls og fjöru. Umhverfið er því mikið nýtt til kennslu. Atvinnulíf í þorpinu hefur orðið einsleitara með árunum og fyrirtækjum fækkað, það er því ekki mikil sóknarfæri hjá skólanum þegar kemur að því að tengja grunnskóla og atvinnulíf í nærumhverfi.Slíkt er þó reynt eftir því sem tækifæri gefast og tengist það þá sjávarútvegi. Áhersla á hreyfingu er stór þáttur í skólastarfinu og þrisvar í viku hefjum við skólastarfið á hreyfingu í íþróttasalnum og hina tvo dagana byrjum við á söng á sal. Mötuneyti er starfrækt í skólanum þar sem öllum er boðið upp á sameiginlegan morgun- og hádegismat. Það eru 11 nemendur í leikskóladeild, 21 nemendur í grunnskóladeild og 14 nemendur í tónlistardeild. Fimm ára nemendur í leikskóladeild eru 10 kennslustundir í grunnskóladeildinni og þá í samkennslu með 1. -7. bekk.Starfsmenn við skólann eru 11 í mismiklu starfshlutfalli.Þá má geta þess að mikill fjölbreytileiki er í skólanum, hvað þjóðerni varðar, en nemendur og starfsmenn eru af 9 þjóðernum.

 

Aðferð

Skólastjóri, kennarar ásamt skólasálfræðingi skólans, unnu eftir 5 ára matsáætlun, (sjá fylgiskjal 1) þar sem fyrir skólaárið 2019-2020 yrðu eftirfarandi þættir teknir fyrir. Þættirnir eru: 1) Grunnþættir menntunar og áhersluatriði aðalnámskrár í skólabrag og kennsluháttum, auk lykilhæfni um þekkingu, leikni og viðhorf ásamt námshæfni. 2) Markmið náms, 3) Námsmat og viðburðarkerfi, 4) Líðan og þarfir nemenda.

  1. Grunnþættir menntunar, námshæfni og áhersluatriði aðalnámskrár í skólabrag og kennsluháttum.

 

Í aðalnámskrá grunnskóla segir í kafla 6: Í sameiginlegum inngangskafla fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru skilgreindir grunnþættir í íslenskri menntun. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þættirnir fléttast inn í lykilhæfnina um þekkingu, leikni og viðhorf ásamt námshæfni. Þessir þættir í menntun ásamt áhersluþáttum grunnskólalaga skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum í grunnskóla. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans. Þessir þættir eiga það sammerkt að vera ekki bundnir við einstakar námsgreinar eða afmarkaða þætti skólastarfs, heldur þurfa þeir að vera almennt leiðarljós í allri menntun í grunnskóla, bæði formlegri og óformlegri og í starfsháttum skóla. Til að öðlast fjölbreytilega hæfni eiga nemendur að gefast tækifæri til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins, umhverfi og daglegu lífi. Allt skólastarf bæði innan sem utan skóla á að styrkja börn og ungmenni til að temja sér námshæfni bæði almennt og á tilteknum sviðum. Námshæfni endurspeglar hvernig hefur tekist að endurspegla grunnþætti menntunar í skólastarfi þvert á kennslu innan ákveðinna skólafaga og í gegnum skólastarfið almennt. Námshæfni er skipt niður í eftirfarandi flokka til viðmiðunar fyrir mat á árangri skólastarfs. Þessir flokkar eru: Lýðheilsa, skapandi hugsun og hagnýti þekkingar, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum, læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar, sjálfbærni og námshæfni. Hér á eftir fer fram samantekt á mati Súðavíkurskóla á því hvernig tekist hefur til við að sníða starf innan skólans að þessum þáttum.

 

Lýðheilsa er skilgreind sem líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan. Sérhver nemandi þarf að gera sér grein fyrir að hann ber ábyrgð á sjálfum sér og umhverfi sínu. Til að stuðla að góðri heilsu og almennri vellíðan þarf að leggja rækt við holler lífsvenjur, hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl. Nemendur taka afstöðu gegn ofbeldi og einelti t.d. með því að temja sér aðferðir uppbyggingarstefnunnar í mannlegum samskiptum. Til að nemendur temji sér gildi hollra lífshátta stendur skólinn fyrir margskonar fræðslu og leggur áherslu á hreyfingu, m.a. með hreyfingu í upphafi skóla 3x í viku, veitir aðstöðu til íþróttaiðkunnar og opnar dyr sínar fyrir aðilum sem uppfræða nemendur um skaðsemi reykinga og notkun annarra vímuefna.

 

Skapandi hugsun og hagnýti þekkingar er mikilvægt að virkja og viðhalda svo sköpunarkraftur einstaklinga, sjálfstæði og frumkvæði, nýtist þeim í lífi og starfi. Forsenda þess er að skólinn skapi nemendum skilyrði til að virkja frumkvæði, sjálfstæði og skapandi hugsun á sem flestum sviðum. Nemendur eru hvattir til að tjá sig og miðla skoðunum sínum og verkum s.s. með myndrænum útfærslum af verkefnum sem eru sýnileg öllum í skólanum. Með því að prýða veggi skólans myndverkum nemenda er sköpun þeirra sýnd virðing. Nemendur skólans fá einnig þjálfun í ræðumennsku og með þátttöku í leikritum og öðrum uppákomum fá þeir að sýna þekkingu sína og færni, styrkja sjálfstæði sitt og frumkvæði. Mikil áhersla er á að allir séu virkir í skólastarfinu.

Jafnrétti á öllum sviðum eru sjálfsögð mannréttindi. Markmið jafnréttismenntunar er að skapa öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína, lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, manngildis umburðarlyndis og víðsýni. Markmiðið er einnig að allir séu virkir þátttakendur í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Í Súðavíkurskóla er lögð áhersla á að nemendur og starfsmenn temji sér aðferðir og inntak Uppbyggingarstefnunnar. Skólinn hefur sett sér jafnréttisstefnu (sjá skjal nr.1)sem farið er eftir, en þar er áhersla lögð á jafnrétti á öllum sviðum s.s. kynja-, kynþátta, fötlunar og að vera gagnrýnin á fyrirmyndir og staðalímyndir.

Lýðræði og mannréttindi eru ein meginforsenda lýðræðislegs samfélags þar sem félagsfærni einstaklingsins byggir m.a. á vitund um eigin ábyrgð, lýðræði og gagnrýna hugsun, umburðarlyndi og virðingu. Félagsfærni er einnig virðing fyrir manngildi sem felur í sér bæði mannréttindi og viðurkenningu á hæfileikum og þroskamöguleikum allra. Hér í skólanum er lögð áhersla á að nemendur temji sér aðferðir og inntak Uppbyggingarstefnunnar sem kennd er í lífsleikni og er snar þáttur í skólalífinu. Þar er áhersla lögð á manngildi í samskiptum og virðingu fyrir skoðunum annarra. Með því að fá tækifæri til að ræða siðferðileg álitamál og taka gagnrýna og ábyrga afstöðu, læra nemendur að virða grundvallarreglur samfélagsins.

Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum veitir innsýn í menningu annarra þjóða og leggur grunn að skilningi, víðsýni og virðingu. Tungumálakunnátta er lykillinn að upplýsingum um fagleg efni og aðgengi að ýmsum nýsigögnum sem skipta máli í námi. Hún er ein af forsendum þess að geta átt farsæl samskipti við einstaklinga af öðru þjóðerni. Í Súðavíkurskóla æfa nemendur færniþættina fjóra: að skrifa, hlusta og æfa sig í að tala erlend mál, auk þess að lesa sér til fróðleiks og ánægju. Kennarar tala hið erlenda mál í kennslustundum eins mikið og kostur er og nota leiki, söng, samræður, leikræna tjáningu, veraldarvefinn og mynddiska til að æfa málið og kynna menningu annarra þjóða.

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar eru hverjum manni mikilvægar. Gott talnalæsi er mikilvægt til að takast á við daglegt líf og störf. Læsi á tölur felur í sér þekkingu, leikni og hæfni til að lesa úr, tjá sig um og nýta sér tölulegar upplýsingar. Læsi á upplýsingar tekur m.a. til upplýsingatækni þar sem mikilvægt er að allir geti aflað gagna, unnið úr, notað og miðlað upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Í skólanum er lögð áhersla vinni með upplýsingar er varða eigin neyslu og almenna notkun, setji þær fram á stærðfræðilegan máta og kynni fyrir samnemendum sínum og kennurum. Nemendur geti aflað gagna, flokkað, unnið úr, nýtt sér og miðlað upplýsingum á gagnrýninn hátt, notað upplýsingatækni í þekkingarleit og miðlun upplýsinga og hafi tækifæri til að sýna frumkvæði og sköpun.

Sjálfbærni menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Við vinnum með nemendur í sjálfbærni með ýmsu móti eins og t.d. er gróðursetning á hverju ári þar sem allir nemendur skólans ásamt starfsmönnum, gróðursetja birkiplöntur víða um þorpið okkar þar sem þess þarf. Nemendur þurfa einnig að reyta frá öðrum plöntum og hlúa að þeim eins og hægt er hverju sinni. Þá eru farnar vettvangsferðir bæði til fjalls og fjöru þar sem nemendum er kennt hvernig við þurfum að búa okkur til ferða, hvort við skiljum eitthvert vistspor eftir okkur osfrv. Hreinsunardagur er á hverju ári þar sem allir tína upp rusl í öllu þorpinu og því safnað saman og flokkað. Allt rusl er flokkað í skólanum. Þá er eldri nemendum skólans boðið að taka þátt í uppsetningu á þorrablóti þorpsbúa bæði með því að vera með í sýningum sem og í öðrum undirbúningi s.s. uppsetning á ljósabúnaði, sviðsmynd, setja upp gólfbúnað, raða stólum og borðum osfrv.

Námshæfni felur í sér að þekkja veikleika og styrkleika og vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Hún beinist að fróðleiksfýsn, trú á eigin getu og hæfileika til að beita þekkingu sinni, leikni og hæfni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbygginlegan hátt. Nemendur Súðavíkurskóla öðlist lykilhæfni með því að þeir setji sér raunhæf markmið, setji sér vikuáætlanir, læri að þekkja styrkleika sína með sjálfsmati og með því að deila þekkingu sinni með öðrum, taki próf og kannanir. Til að geta lagt mat á eigið vinnuframlag og tekist á við áskoranir í námi þurfa þeir að fá tækifæri til að skipuleggja vinnutíma sinn og forgangsraða verkefnum eftir því sem við á. Lögð er áhersla á að nemendur sýni sjálfstæði í vinnubrögðum og byggi ný verkefni á reynslu og fyrri þekkingu.

Viðmið

Í lýðheilsu eru 6 viðmið. 1) að nemendur taki afstöðu gegn ofbeldi og einelti. 2) að nemendur temji sér holla lífshætti. 3) að skólinn starfi eftir uppbyggingarstefnunni til að kenna nemendum mannleg samskipti. 4) að skólinn standi fyrir fræðslu um afleiðingar ofbeldis og eineltis og kosti hollra lífshátta. 5) að skólinn veiti aðstöðu til íþróttaiðkunar. 6) að skólinn opni dyr sínar fyrir aðilum sem vilja uppfræða nemendur um skaðsemi reykinga og notkun annarra vímuefna.

Í Skapandi hugsun og hagnýti eru 5 viðmið. Viðmiðin eru að: 1) nemendur séu hvattir til að tjá sig og miðla skoðunum sínum bæði munnlega og verklega. 2) nemendur fái verk sín til sýnis innan skólans. 3) nemendur fái þjálfun í ræðumennsku. 4) nemendur taki þátt í leiksýningum og öðrum uppákomum. 5) nemendur séu virkir í skólastarfinu.

Í Jafnrétti eru 2 viðmið, þau eru að: 1) allir í skólanum temji sér aðferðir og inntak uppbyggingarstefnunnar og 2) starfa eftir hugmyndafræði jafnréttis.

Lýðræði og mannréttindi eru þau 3 viðmið að: 1) nemendur og starfsmenn þekki aðferðir og inntak uppbyggingarstefnunnar. 2) allir fái tækifæri til að ræða siðferðileg álitamál. 3) starfa eftir reglum persónuverndar og skilgreindum ferlum.

Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum samanstendur af 5 viðmiðum og þau eru að: 1) nemendur æfi sig í að skrifa erlend mál, 2) að nemendur æfi sig í að hlusta á erlend mál. 3) nemendur æfi sig í að tala erlend mál. 4) nemendur lesi sér til fróðleiks og ánægju í erlendum málum. 5) nemendur æfi sig að nýta sér fjölbreytt efni við að læra erlend mál s.s. veraldarvefinn, mynddiska og listræna tjáningu.

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar erum við með 4 viðmið sem eru að: 1) nemendur vinni með upplýsingar er varða eigin neyslu og almenna notkun verðmæta. 2) nemendur geti sett upplýsingar fram á stærðfræðilegan máta og kynna fyrir öðrum. 3) anemendur geti aflað gagna, flokkað, unnið úr, nýtt sér og miðlað upplýsingum á gagnrýninn hátt. 4) nemendur geti notað upplýsingartækni í þekkingarleit og miðlað upplýsingum á skapandi hátt og með því að sýna frumkvæði.

Í sjálfbærni erum við með 6 viðmið um að nemendur: 1) gróðursetji trjáplöntur á hverju ári. 2) reyti arfa og hlúi að plöntum á uppgræðslusvæðum. 3) fari í vettvangsferðir bæði til fjalls og fjöru á hverju ári. 4) taki þátt í hreinsunardegi árlega, tíni rusl og flokki. 5) taki þátt í að flokka allt rusl í skólanum. 6) aðstoði þorpsbúa við að undirbúa viðburði t.d. þorrablót.

Í námshæfni eru 6 viðmið. 1) að nemendur setji sér raunhæf markmið. 2) að nemendur setja sér vikuáætlanir. 3) að nemendur læri að þekkja styrk- og veikleika sína með sjálfsmati. 4) að nemendur geti deilt þekkingu sinni með öðrum. 5) að nemendur fái tækifæri til að skipuleggja vinnutíma sinn og forgangsraða verkefnum. 6) að nemendur geti sýnt sjálfstæð vinnubrögð og geti byggt ný verkefni á reynslu og fyrri þekkingu.

 

Aðferð

Rýnifundur var haldinn með skólastjóra, kennurum og skólasálfræðingi þar sem farið var yfir hvernig verið væri að uppfylla þessi viðmið. Hér á eftir kemur upptalning á niðurstöðum þessa fundar.

Lýðheilsa. Það eru skýr mörk í uppeldisstefnunni sem m.a. kemur fram í skólanámskra (Vísi), sáttmálar nemenda eru á veggjum skólans bæði skriflega og myndrænt. Til þess að temja sér holla lífshætti kemur hjúkrunarfræðingur með fræðslu reglulega, auk þess hefst skólahald á hreyfingu 3x í viku, með þátttöku í lífshlaupinu, norræna skólahlaupinu, öðruvísileikum, íþróttahátíð og skólahreysti. Þá er öllum nemendum skólans boðið upp á morgun- og hádegismat á sal skólans, sem samanstendur af hollum og góðum mat. Skólinn opnar dyr sínar fyrir aðilum sem vilja uppfræða nemendur okkar og margir hafa lagt leið sína hingað bæði einstaklingar og samtök t.d. ( Þorgrímur Þráinsson, Elvar Logi með sýninguna Dimmalimm, Kristín Gunnarsdóttir f.h. List fyrir alla osfrv).

Skapandi hugsun og hagnýt þekking. Haldnir eru opnir fundir á sal með öllum þar sem allir eru hvattir til að tjá skoðanir sínar, haldin eru skólaþing. Mikið af verkum nemenda er á veggjum skólans og þeir eru þjálfaðir í ræðumennsku bæði í tímum sem og á sal skólans. Nemendur taka þátt í öllum uppákomum á vegum skólans ( árshátíð, jólagrín, tónleikum, samæfingum ) sem og á vegum kirkjunnar (aðventukvöld) og á vegum Geisla (þorrablót). Allir nemendur eru virkir í skólastarfinu í hinum ýmsu verkum s.s. leysa af inn á leikskóla, skreyta skólann, þrífa í borðsal, taka til, raða upp fyrir uppákomur og skemmtanir fyrir yngri nemendur.

Jafnrétti. Fyrir jafnrétti nýtum við allar bækur um uppeldisstefnuna, Uppbyggingarstefnan/ Uppeldi til ábyrgðar, haldin eru námskeið bæði fyrir foreldra og starfsmenn, farið í skólaheimsóknir, gefið út fréttabréf til foreldra. Jafnréttisáætlun skólans er virkt plagg sem farið er eftir, einnig er sótt í námsefni um jafnrétti.

Lýðræði og mannréttindi. Notaðar eru ýmsar útfærslur á uppbyggingarstefnunni, barnasáttmál-anum og heimsmarkmiðunum. Siðferðileg álitamál eru rædd inn í bekk en einnig á sal skólans sem og á skólaþingum. Allir ferlar persónuverndar hafa verið skilgreindir og er mikið plagg uppi við sem allir hafa aðgang að.

Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum. Æfingar eru helst í ensku og dönsku en einnig á eigin móðurmáli nemenda t.d. portúgölsku og arabísku. Skólinn sér um að nægt námsefni sé til á þeim tungumálum sem kennd eru, sem og léttlestrarbækur á bókasafni. Einnig er skólinn í áskrift að ýmsum vefum t.d. skólavefurinn, stoðkennarinn, ýmsar bíómyndir til á erlendu máli sem og spil, einnig eru kenndir leikir á viðkomandi tungumálum.

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar. Námsefni er sótt af mörgum vefum, þó sérstaklega hjá Menntamálastofnunar og Skólavefsins og eru notaðir sérstaklega á unglingastigi, upplýsingar kynntar í þemaverkefnum og í námsefni. Í flokkun og fleiru eru ýmis kennslugögn notuð t.d. stærðfræði kubbar af ýmsu tagi og einnig er ýmislegt efni er sótt á netið og nemendur þurfa að gagnrýna það. Uppplýsingartæknitímar eru vel nýttir þar sem bæði er um valið efni að ræða sem og fyrirfram ákveðið efni sem farið er í hverju sinni.

Sjálfbærni. Sendar eru skýrslur til Yrkjusjóðs árlega þar sem m.a. kemur fram hvar var gróðursett og hverjir tóku þátt. Mikið til af myndum við verkefnið, bæði vegna gróðursetningar og hreinsunarátaks. Þá gefur Súðavíkurhreppur út staðfestingarskjal fyrir þátttöku í verkefnunum. Vegna ferða til fjalls og fjöru eru myndir teknar í ferðunum. Flokkun rusl er aðbúnaður í skólanum til staðfestingar vegna þessa. Þátttaka nemenda vegna viðburða í samfélaginu er staðfest með myndefni, auk þess veitir hreppurinn okkur viðurkenningu (fylgisk. 2).

Námshæfni. Mikið af vinnu nemenda er á veggjum skólans, markmið þeirra eru skráð í vinnumöppur og áætlanir í kompum eða dagbókum. Þá hafa nemendur skilað matsblöðum um sjálfsmat. Þeir deila þekkingu sinni í tímum og á sal skólans þar sem allir fá að njóta. Þeir skipuleggja vinnutíma sinn og forgangsraða verkefnum í hverri viku með áætlunum í kompum og dagbókum. Vinnubrögð og verkefni eru í tímum og afrakstur á veggjum skólans.

Niðurstöður

Grunnþættir menntunar og áhersluatriði aðalnámskrár í skólabrag og kennsluháttum, lykilhæfni um þekkingu, leikni og viðhorf ásamt námshæfni voru skoðaðir í Súðavíkurskóla haustið 2019. Niðurstaða úr rýnifundi skólastjóra, kennara og skólasálfræðings er sú að þessum þáttum sem að ofan eru taldir sé vel sinnt innan skólans og enginn þáttur hafður útundan eða ekki sinnt nógu vel. Skólabragur mótast mikið af Uppbyggingarstefnunni og eru þættir eins og lýðheilsa og lýðræði og mannréttindi unnin í gegnum markmið hennar auk þess sem hún snertir alla grunnþætti menntunar á beinan eða óbeinan hátt því hún er stefnan er það tæki sem við notum til að fá það besta fram hjá nemendum og starfsfólki. Niðurstöður úr rýnifundum og umræðum á sal við nemendur hafa sýnt að allir hlutaðeigandi þekkja Uppbyggingastefnuna, eru sáttir við að vinna undir henni, en tillögur komu fram um hvernig stefnunni væri betur framfylgt. Allir umsjónakennarar voru með bekkjarsáttmála sem gerður hafði verið við nemendur og voru sammála um það, að það væri lifandi plagg sem nýttist vel í vinnu með nemendum (fylgisk 3.)

 

Úrbætur

Ekki var talin þörf á sérstökum úrbótum hvað varðar grunnþættir menntunar og áhersluatriði aðalnámskrár í skólabrag og kennsluháttum, lykilhæfni um þekkingu, leikni og viðhorf ásamt námshæfni, en framkvæmd Uppbyggingarstefnunnar var skoðuð betur. Starfsmenn voru sammála um að stefna skólans nýtist vel sem uppeldisfræðileg stefna bæði í námi, leik og samhliða öðru. Umræða um stefnuna verður tekin fastari tökum og sett inn á kennarafundi einu sinni í mánuði eða eins oft og þurfa þykir. Umsjónarkennarar ræða stefnuna við sína nemendur við upphaf hvers skólaárs, búnir til bekkjarsáttmálar, farið yfir þarfirnar og leiðir til þess að vera betri manneskja. Allir starfsmenn skólans verði duglegri að nota orðræðu Uppbyggingarstefnunnar og setja á veggi skólans. Ákveðið að taka fyrir eina þörf eða eitthvað ákveðið gildi og vinna með það einu sinni í mánuði. Hvetja nemendur til þess að ræða þarfirnar og gildin heima fyrir, við foreldra. Þá hafa foreldrar fengið upplýsingarbækling um stefnuna senda heim (fylgisk. 4).

 

  1. Markmið náms

 

Starfshættir Súðavíkurskóla teljast til sveigjanlegra starfshátta. Reynt er að aðlaga skólastarfið að þörfum nemenda eins og kostur er. Sveigjanlegt skólastarf helgast af því að þarfir nemenda eru ólíkar og reynt er að haga skólastarfinu í samræmi við þarfir og hæfileika hvers og eins. Þar sem nemendum á misjöfnum aldri og með ólíkan þroska er blandað saman í hópa, er séð til þess að hver einstaklingur fái námsefni við sitt hæfi. Það eykur sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í námi. Kennarar eru með margar og mismunandi kennsluaðferðir til að koma til móts við hvern og einn.

Aðferð

Rýnifundur var haldinn með kennurum þar sem farið var yfir kennsluaðferðir, Litróf kennsluaðferðanna eftir Ingvar Sigurgeirsson var notuð sem viðmiðunartæki. Umræður á sal við nemendur um stefnu skólans og kennsluhætti og umræður á kennarafundum. Niðurstöður skráðar

Viðmið

Að fara yfir námskrá skólans og skoða út frá því hvort starfsmenn fylgi almennt stefnu skólans og með hvaða hætti sé verið að nota hana. Hvort kennsluhættir endurspegli þá stefnu og hvort hún nýtist á uppeldisfræðilegan hátt í námi og leik og samhliða öðru. Umræður og niðurstaða á kennarfundum. Að allir kennarar noti a.m.k. 3 kennsluaðferðir og þær endurskoðaðar reglulega til að kanna hvort hún henti nemendum.

Niðurstöður

Kennsluaðferðir sem verið er að nota eru: Einstaklingsnám, Samvinnunám, Leiðsagnarnám, Bein kennsla, Hálfstýrt leitarnám, Hópvinna og Þemanám. Í ljós kom að allir kennarar studdust við fleiri en eina kennsluaðferð. Þá var einnig farið yfir einstaklingsmöppur nemenda og rætt um stöðu þeirra og námsferill hvers og eins yfirfarinn. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að gera mætti lítilsháttar breytingar voru kennarar sáttir við framfarir nemenda sinna. Skólinn er einnig í góðu samstarfi við foreldra og eru í stöðugu sambandi við þá yfir skólatímann til að samræma aðgerðir þegar þörf er á breytingum. Engin óánægja hefur komið frá foreldrum með starfsaðferðir skólans, hvorki á foreldrafundum né á almennum opnunartímum skólans.

Úrbætur

Ekki er þörf á úrbótum en vakin athygli á því að hver og einn kennari sé vakandi yfir sínum kennsluháttum og mati.

 

  1. Námsmat og viðburðarkerfi

Megintilgangur námsmats er að fylgjast með því hvernig sérhverjum nemanda tekst að ná námsmarkmiðum og örva hann til framfara. Til þess þarf námsmat að vera hluti af daglegu starfi, einstaklingsmiðað, fjölbreytt, leiðsagnarmiðað og fela í sér sjálfsmat. Auk þekkingar, framfara, skilnings og leikni tekur námsmat til viðhorfa, samskipta og vinnubragða. Niðustöður skulu notaðar til að endurskoða markmið og starfshætti nemenda og kennara og veita auk þess foreldrum og viðtökuskólum og yfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar. Viðburðarkerfi eru viðburðir sem ákveðið hefur verið að hafa/halda yfir skólaárið. Oftast eru þetta árlegir viðburðir en stundum koma þeir upp á skólaárinu sem tilboð frá einstaklingum eða samtökum og er þá reynt að samþykkja slíka viðburði ef hægt er.

Viðmið

Að notast sé við 5 mismunandi matsaðferðir auk lykilhæfni í námi. Öll viðmið skulu vera skýr svo að allir viti hvaða kröfur eru gerðar og geti skilið niðustöður námsmats á svipaðan hátt. Námsmatið á að taka mið af sérþörfum nemenda. Geta skal þess sérstaklega ef um aðlagaða námskrá eða námsmat er að ræða með stjörnumerkingu. Að starfsmenn skólans haldi þá viðburði sem getið er um í skóladagatali.

Aðferð

Hver kennari útbýr kennsluáætlun fyrir hvert fag inn á Mentor sem er tölvukerfi skólans. Ásamt áætlunum eru valin markmið samkvæmt aðalnámskrá og lykilhæfni fyrir hvern og einn nemanda. Einkunnir eru gefnar í A-B+-B-C+-C-D samkvæmt aðalnámskrá. Inn í lokaeinkunn nemanda eru ýmsar kannanir, próf og verkefni ásamt lykilhæfni sem gefið er fyrir í tölustöfum og eða umsögn. Í upphafi hvers skólaárs er farið yfir áætlaða viðburði fyrir skólaárið og þeir settir inn í skóladagatal. Ýmsir viðburðir bætast við á hverju ári sem fer eftir framboði hverju sinni.

Kennarar skipuleggja námsmat útfrá námsmarkmiðum og þroska nemenda. Notaðar eru fjölbreyttar aðferðir til að skoða færni og skilning nemenda, svo sem skimanir, mat á skriflegum úrlausnum, frammistöðumat, samræður, sjálfsmat nemenda, símat, verkefnaskil, tjáning og sköpun, tónlist og hreyfing, leiðsagnarmat, munnleg próf og fleira. Námsmatsverkefni eiga að vera fjölbreytt og mismunandi innan hvers námssviðs á hverri önn. Matið þarf að vera í samræmi við kennslutilhögun og höfða til sem flestra námsþátta. Matið á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Nemendum skal hjálpað að efla námsvitund sína og færni á sem fjölbreyttastan máta. Áhersla er lögð á leiðbeinandi námsmat þar sem markvisst er unnið með niðurstöður t.d. með marklistum og prófsýningu. Allir starfsmenn skólans taka fyrir þá viðburði sem fyrirhugaðir eru fyrir hvert skólaár og skólastjóri skráir þá í skóladagatalið.

Niðurstöður

Skólastjóri, kennarar og skólasálfræðingur komust að þeirri niðurstöðu að allir nemendur fengju formlegar upplýsingar um stöðu sína að minnsta kosti tvisvar yfir skólaárið. Tvisvar á skólaári er viðtal við nemendur og foreldra í tengslum við námsmat. Símat er mikilvægur þáttur af skólastarfinu og eru verkefnaskil, prófanir og aðrar matsaðferðir innan hvers fags notaðar til þess að móta framvindu náms hvers og eins nemanda. Þetta er gert með því að ræða við nemendur um niðurstöður mats í hvert eitt sinn, greina veikleika og styrkleika til þess að nota sem grunn að áframhaldandi lærdómi. Símat er meðal annars birt í Mentor (verkefnabók, námsmarkmið og fleira). Kannanir og verkefni til einkunna eru send heim til foreldra og þeir kvitta fyrir staðfestingu og skila til baka í skólann. Birtingarform lokamats er í formi einkunna (tölur og bókstafir) og komið inn í skjalið á vitnisburðarblaði. Það er byggt á niðurstöðum fjölbreytts námsmats sem unnið hefur verið með á skólaárinu.

Úrbætur

Við athugun komu ekki fram neinir augljósir gallar á því hvernig námsmat og viðburðarkerfi er útfært í Súðavíkurskóla. Taldi starfsfólk að allar upplýsingar er varðar nemendur berast fljótt og vel milli heimila og skóla.

 

 

  1. Nemendur: virkni í skóla, líðan og heilsa, skóla- og bekkjarandi

Skólapúlsinn var fenginn til þess að leggja fyrir nemendakönnun. Tilgangurinn var sá að skoða ýmsa þætti skólastarfsins, s.s. virkni, líðan og viðhorf til náms og skóla.

Nemendakönnuninni var skipt í 4 kafla, þar sem skoðuð voru eftirtalin atriði: 1) Virkni nemenda í skólanum 2) Líðan og heilsa 3) Skóla- og bekkjarandi. 4) Öllum nemendum - var gefinn kostur á að koma með opin svör um hvað væri gott eða slæmt við skólann að þeirra mati. Kannanirnar voru rafrænar og gerðar á skólaárinu 2019-2020. Svarhlutfall var með besta móti eða 100% meðal allra nemenda í 6.-10.bekk.

Viðmið

Að nemendur skólans séu ekki undir landsmeðaltali.

Niðurstöður

  1. Helstu niðurstöður: Þau atriði sem voru stjörnumerkt og vert er að taka fyrir voru: A) Ánægja af lestri. B) Áhugi á stærðfræði. C) Ánægja af náttúrufræði. D) Samband nemenda við kennara. E) Tíðni leiðsagnarmats
  1. Ánægja af lestri er langt fyrir ofan landsmeðaltal eða 0,8 staðalfrávik.Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Sammála- Ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Ég les bara þegar ég verð að gera það. Lestur er eitt af uppáhaldsáhugamálum mínum. Mér finnst gaman að tala um bækur við aðra. Ég verð ánægð/ur ef ég fæ bók að gjöf. Lestur er tímasóun fyrir mig. Mér finnst gaman að fara í bókabúð eða á bókasafn.
  2. Áhugi á stærðfræði er langt fyrir ofan landsmeðaltal eða 1,8 staðalfrávik. Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Sammála- Ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Ég hef gaman af því að lesa bækur og texta sem fjallar um tölur og útreikninga. Ég hlakka til stærðfræðitíma. Ég sinni stærðfræðináminu vegna þess að mér finnst gaman í stærðfræði. Ég hef áhuga á því sem ég læri í stærðfræði.
  3. Ánægja af náttúrufræði er langt fyrir ofan landsmeðaltal eða 0,8 staðalfrávik. Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Sammála- Ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Mér finnst yfirleitt gaman þegar ég er að læra um náttúrufræði. Mér finnst gaman að lesa um náttúrufræði. Ég er ánægð/ur þegar ég er að leysa verkefni í náttúrufræði. Ég hef áhuga á að læra um náttúrufræði.
  4. Samband nemenda við kennara, er langt fyrir ofan landsmeðaltal eða 1,5 staðalfrávik. Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Mjög sammála – Sammála- Ósammála – Mjög ósammála). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Nemendum semur vel við flesta kennara. Flestir kennararnir mínir hlusta vel á það sem ég hef að segja. Ef mig vantar auka aðstoð þá fæ ég hana frá kennurunum mínum. Flestir kennararnir mínir eru sangjarnir við mig.
  5. Tíðni leiðsagnarmats er langt fyrir ofan landsmeðaltal eða 1,4 staðalfrávik.Fjórir kvarðar eru notaðir í svörun. (Aldrei eða næstum aldrei – Stundum – Oft – Alltaf eða næstum alltaf). Spurningar sem mynda matsþátt eru: Kennararnir láta mig vita hve vel mér gengur í náminu. Kennararnir ræða við mig um það sem gengur vel hjá mér og það sem gengur illa hjá mér í náminu. Kennararnir segja mér hvað ég þarf að gera til að ganga betur í náminu.

Úrbætur

Niðurstöður er heldur betur góðar og benda ekki til þess að úrbóta sé þörf að þessu sinni.

Niðurstöður innra mats Súðavíkurskóla 2020

Þegar niðurstöður úrbótaáætlunar frá því skólaárið 2018-2019 eru skoðaðar, þá var ákveðið að boða til foreldrafundar þar sem stoðþjónusta skólans yrði rædd og fengið frekari álit hjá foreldrum, um hvað betur mætti fara. Þar sem ekki náðist að fá nógu marga foreldra á fund, var ákveðið að leggja fyrir könnun fyrir foreldra um málefnið. Það eru 21 barn í grunnskólanum. Svarhlutfall var 100% og niðurstöður voru þær að 87% foreldrar telja að vel sé staðið að stoðþjónustu við Súðavíkurskóla en 13% þeirra telja það ekki nógu gott. Farið var yfir niðurstöður og brugðist við því sem betur mátti fara.

Heilt yfir eru niðurstöður innra mats Súðavíkurskóla þetta skólaár ótrúlega góðar og allir starfsmenn eru hæst ánægðir með útkomuna. Það er alltaf gott að gera vel og gefur það góðan byr undir báða vængi með framhaldið.

 

Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri