Skólastefna Súðavíkurhrepps

 

Skólastefna Súðavíkurhrepps

 

Súðavíkurskóli er yfirheiti leikskólans Kofrasels, grunnskóla Súðavíkur og tónlistardeildar Súðavíkurskóla.

 

 

Markmið og framtíðarsýn

Súðavíkurskóli er samfélag nemenda, kennara, foreldra og starfsfólks. Starfshættir Súðavíkurskóla teljast til sveigjanlegra starfshátta. Reynt er að aðlaga skólastarfið að þörfum nemenda eins og kostur er. Sveigjanlegt skólastarf helgast af því að þarfir nemenda eru ólíkar og reynt er að haga skólastarfinu í samræmi við þarfir og hæfileika hvers og eins. Þar sem nemendum á misjöfnum aldri og með ólíkan þroska er blandað saman í hópa, þá er séð til þess að hver einstaklingur fái námsefni við sitt hæfi. Það eykur sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í námi.

Súðavíkurskóli skal, í samvinnu við heimilin, stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Framsækið skólastarf þarf stuðning allra, það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Skólinn er hjarta hvers þorps.

Í Súðavíkurskóla skal gerður greinarmunur á mismunandi áherslum leik- og grunnskólastigs í menntun og umönnun nemenda.

Kennurum og starfsfólki Súðavíkurskóla gefist kostur á endurmenntun í samræmi við áherslur og/eða þróunarverkefni skólans hverju sinni.

Einkunnarorðin: virðing, vellíðan, framfarir og heiðarleiki skulu vera kjörorð allra í Súðavíkurskóla.

Vellíðan sem felur í sér viðurkenningu, gleði og góðan starfsanda.

 

Virðing sem felur í sér vandvirkni, tillitssemi og traust.

 

Heiðarleiki sem felur í sér hreinskilni, sáttfýsi og samstöðu.

 

Framfarir sem fela í sér framvindu í námi, starfi, samskiptum og leik.

 

Skýrri framtíðarsýn er ætlað að tryggja stöðuga endurskoðun og umbætur á skólastarfi. Súðavíkurskóli verður rekinn sem ein rekstrarheild með einum yfirstjórnanda og kennurum sem kenna þvert á skólastig.

Starfsmannamál

Lögð verður áhersla á að við skólann starfi fagmenntað starfsfólk og starfsmenn með þekkingu og menntun sem nýtist skólanum sem best hverju sinni. Vegna þess hve margir eru af erlendu bergi brotinn, þá verður lögð sérstök áhersla á íslensku í skólanum.

Starfslýsingar og vinnureglur verði skýrar og nýju starfsfólki gerð grein fyrir þeim. Endur- og símenntunaráætlanir verði í samræmi við áherslur og þróunarverkefni Súðavíkurskóla hverju sinni. Áfram verði stefnt að því að hvetja ófaglært starfsfólk til náms.

Kennarar skólans tileinki sér einstaklingsmiðaða kennsluhætti og leggi metnað sinn í margbreytilegar kennsluaðferðir sem nýtast nemendum hverju sinni.

Heimili og skóli

Súðavíkurskóli leggur ríka áherslu á öflugt samstarf heimila og skóla þar sem fléttast saman sérþekking starfsfólks á skipulagi og starfi skólans og sérþekking foreldra á börnum sínum.

Mikilvægt er að samstarfið byggi á gagnkvæmu upplýsingastreymi, trausti og virðingu. Starfsmenn Súðavíkurskóla gæti þess að upplýsa foreldra/forráðamenn samdægurs um brýn mál sem varða viðkomandi nemanda. Slík upplýsingagjöf verði gagnkvæm milli heimilis og skóla og bundin trúnaði.

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og á námi þeirra í samvinnu við kennara. Heimanám nemenda verður skipulagt í samráði við foreldra.

Foreldrar/forráðamenn barna í Súðavíkurskóla eru velkomnir í skólann og þeir hvattir til að taka þátt í skólastarfinu.

Samstarf Súðavíkurskóla við atvinnulíf og félagasamtök

Efla skal samstarf Súðavíkurskóla við fyrirtæki, félagasamtök og aðrar stofnanir sveitarfélagsins, til hagsbóta fyrir nemendur. Nýta skal nálægð við atvinnulífið, stofnanir og félagasamtök á Vestfjörðum.

Árangursmat

Súðavíkurskóli skal framkvæma innra mat og meta árangur og gæði skólastarfsins á grundvelli laga nr. 90/2008 og laga nr. 91/2008. Fræðslu-, tómstunda-, menningar- og kynningarnefnd gerir ytra mat á starfsemi skólastiganna og skal síðan fylgja eftir bæði innra og ytra mati þannig að það leiði til úrbóta í skólastarfinu. Niðurstöður innra mats skal liggja fyrir og kynnt í lok hvers skólaárs. Ytra mat er framkvæmt eftir þörfum með kynningu og úrbótaáætlun.

Umhverfismál

Lögð verður áhersla á að börn og starfsfólk beri virðingu fyrir umhverfi sínu og geri sér grein fyrir þeim verðmætum sem felast í óspilltri náttúru, s.s. gróðusetning og gönguferðir. Í því samhengi verði nemendum gerð grein fyrir nauðsyn þess að sporna gegn allskyns sóun, s.s. matar-, fata- plast-, rafmagnssóun.

Lögð verður sérstök áhersla á að tengja námið við nánasta umhverfi, umhverfisvernd og endurvinnslu. Kynna nemendum markmið Íslands í loftslagsbreytingum.

Næring, hreyfing og hollusta

Á boðstólnum verður ávallt hollt og næringaríkt fæði. Boðið verður upp á heitan mat í hádeginu og aðstaða barna til að matast verður ávallt sem best. Stuðla skal að því að nemendur fái nægjanlega hreyfingu og að hverskyns forvarnir verði hluti af skólastarfinu. Lýðheilsumarkmið eru kynnt fyrir nemendum.

Fjármál

Kostnaðargát verður höfð að leiðarljósi í öllum rekstri Súðavíkurskóla og skólastjóri fer yfir rekstur skólans með reglulegum hætti. Tryggja skal sem best nýtingu þess fjármagns sem rennur til Súðavíkurskóla sem byggt er á fjárhagsáætlun sem samþykkt er af Fræðslu- tómstunda-, menningar- og kynningarnefnd hverju sinni. Gagnvirk endurskoðun á fjárhagsáætlun fer fram árlega milli þeirrar nefndar og skólastjóra.

Húsnæði, búnaður og skólalóð

Húsnæði, búnaður og skólalóð skulu ávallt uppfylla þarfir skólans og skulu geta mætt öllum kröfum um aðbúnað á hverju skólastigi fyrir sig. Skólalóð skal hvetja til hreyfingar. Skólahúsnæði og öll aðstaða skal vera námshvetjandi.Áhersla skal lögð á að skólinn sé vel útbúinn tækjum og tólum í samræmi við þarfir allra sem þar vinna.

Sérfræðiþjónusta

Markmið með sérfræðiþjónustu er að aðstoða skólastjóra, kennara, nemendur og foreldra Súðavíkurskóla við að leysa úr sérþörfum nemenda.

Súðavíkurskóli er með samning við skólasálfræðing sem kemur reglulega. Skólahjúkrunarfræðingur og sjúkraþjálfi koma á vegum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Greiningarstöð ríkisins sér um greiningar og metur þarfir nemenda út frá þeim. Stefnt er að því að fá aðgang að talmeinafræðingi sem fyrst

Þjónusta

Leikskólinn Kofrasel er gjaldfrjáls leikskóli í 6 stundir á dag fyrir börn með lögheimili í Súðavíkurhreppi. Elstu börnum leikskólans stendur til boða að taka þátt í samkennslu með yngstu börnum grunnskólans í allt að 4 kennslustundir á dag. Í samkennslu er boðið upp á bóklegt og verklegt nám auk íþrótta. Í samkennslutímum fléttast saman leikur og nám þar sem kennarar leik- og grunnskóla eru jafnréttháir. Starfsfólk leik- og grunnskóla tekur þrjá sameiginlega starfsdaga á ári.

Leitast verður við að bjóða nemendum fyrsta til fjórða bekkjar grunnskóla kost á lengri viðveru/dægrardvöl eftir að hefðbundnum skóladegi líkur, verði eftir því óskað.

Öllum nemendum er boðið uppá gjaldfrjáls skólagögn. Yngri nemendum er boðið uppá blokkflautunám gjaldfrjálst. Öllum nemendum er boðið upp á píanónám gegn gjaldi.