Um Grunnskólann

Súðavíkurskóli samanstendur af þremur skólagerðum þ.e. grunn-, leik- og tónlistardeild með einum skólastjóra. Grunnskóladeildin er einsetinn níu og hálfs mánaða skóli fyrir 0. - 10. bekk. Fimm ára nemendum er kennt í allt að 11 stundir á viku, með yngsta skólastiginu hverju sinni. Nemendum er kennt í tveimur námshópum og eru 1.-7.bekkur saman með tvo kennara og 8.-10.bekkur saman.

Almennar kennslustofur eru fjórar. Heimilisfræði er kennd í eldhúsi skólans og aðstaða til myndmennta- og eðlisfræðikennslu er í sameiginlegri stofu. Handmennt er kennd í sérstakri handmenntastofu. Sérkennslu er hægt að kenna í sérkennslustofu. Stór stofa er til afnota fyrir unglingastigið sem félagsmiðstöð.

Tónlistarkennslan fer fram í tveimur tónlistarstofum en að þessu sinni er kennt á píanó og eru 14 nemendur í námi í vetur, kennari er Jóhanna Rúnarsdóttir. Á leikskóladeildinni í vetur eru 10 börn og 3 starfsmenn. Íþróttakennsla og þjálfun fer að sjálfsögðu fram í íþróttahúsi Súðavíkur sem er samtengt skólabyggingunni. Sundkennslan í vetur fer fram í Sundhöll Bolungarvíkur, einu sinni í viku tvo tíma í senn fyrir áramót en engin sundkennsla fer fram eftir árámót.

 

Skólalóðin er vel búin leiktækjum og einnig eru tveir boltavellir á lóðinni. Fjall og fjara eru í göngufæri og umhverfið býður því upp á göngu- og vettvangsferðir í tengslum við skólastarfið. Þá er mötuneyti staðsett í skólanum fyrir nemendur og starfsfólk. Barnabókasafnið er opið öllum meðan skólinn er starfandi.

Starfsemi skólans frá upphafi stofnun hans og helstu atriði í þróun skólans.

Reglulegt skólahald hófst í Súðavík árið 1891 þegar „Gamli skólinn“ var byggður og var fyrsti skólastjóri hans Friðrik Guðjónsson og var allt til 1915. Í kringum 1930 var skólinn fluttur í félagsheimilið sem þá var nýbyggt og var þar til 1946-1947. Eftir það fluttist skólahald í hús kvennfélagsins við Aðalgötu og var þar, þar til fyrsti áfangi núverandi skólahúsnæðis var tekinn í notkun árið 1951.

Annar áfangi skólans var tekinn í notkin 1965 en þar var m.a. skólastjóraíbúð í nokkur ár. Þriðji áfanginn var árið 1990 en þá voru tvær kennslustofur byggðar við skólann og árið 1994 var byggt nýtt íþróttahús.

 

Haustið 1996 var glæsileg viðbygging við grunnskólann tekin í notkun. Í henni er leikskóli, fimm almennar kennslustofur, salur, eldhús, salerni og anddyri. Í gamla skólanum er vinnuherbergi kennara, kaffistofa, sérkennsluherbergi, skrifstofa skólastjóra, félagsherbergi unglingadeildar, bókasafn skólans og hreppsins, handmenntarstofa, myndmenntarstofa, tónlistardeild auk geymslurýmis. Skólinn er mjög vel búinn kennslutækjum og búnaði enda hefur sveitarstjórn lagt metnað sinn í að styðja við skólahald á staðnum.

Árið 1996 var einnig tekið í notkun tveggja hæða hús sem hafði tvær kennara íbúðir niðri og heimavist uppi. Heimavist var rekinn alla virka daga fyrir nemendur úr Ísafjarðardjúpi en þeir fóru heim um helgar. Heimavistin var lögð niður árið 2007.

Skólaárið 2009 – 2010 var ákveðið að hafa einn starfandi skólastjóra yfir Súðavíkurskóla sem samanstendur af grunn- leik- og tónlistarskóla.