Litla íþróttahátíðin 2023

Litla íþróttahátíðin 2023 var haldin í Súðavíkurskóla fimmtudaginn 11. maí. Hátíðin var haldin í blíðskaparveðri og fór fram allt í kringum skólann.

Undirbúningur og skipulag var í höndum skólastjóra og kennara skólans. Útbúnar voru sjö stöðvar með ítarlegum upplýsingum um það sem fara átti fram á hverri stöð. Stöðvarnar skipulagðar þannig að önnur hver stöð var með þrautum sem þurfti að leysa og skrifa niðurstöður en á hinum voru hreyfileikir.

Nemendur úr 1. – 7. bekk frá Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, alls 76 nemendur mættu á staðinn kl. 09:00 ásamt kennurum sínum og byrjað var á að borða nesti. Nemendur Súðavíkurskóla sátu tvo fyrstu tímana í kennslu og fóru síðan í hefðbundinn morgunmat.

Upp úr kl. 9:30 söfnuðust nemendur og kennarar saman á fótboltavellinum og nemendum skipt upp í sjö hópa með tíu til ellefu nemendum í hóp. Búið var að útbúa sjö stöðvar allt í kringum skólann þar sem skiptust á hugarþrautir og leikir og áætlaður heildartíma fyrir stöðvavinnuna var einn og hálfur tími, tími á hverri stöð voru 15 mínútur. Nemendur úr unglingadeild skólans aðstoðuðu á stöðvum og stóðu sig vel í því hlutverki.

Um kl. 11:15 voru nemendur búnir með allar stöðvar og allir orðnir svangir og þyrstir. Boðið var upp á pítsur úr Hamaborg og djús í skólanum í hádeginu og gerður nemendur því góð skil. Síðan héldu nemendur skólanna hver til síns heima. Öll hátíðin fór mjög vel fram og bæði kennarar og nemendur hæstánægðir með heimsóknina. Næsta hátíð að ári verður að öllum líkindum á Flateyri eða Suðureyri.

ljósmyndir