Ferð unglingadeildar Súðavíkurskóla til Hollands

 

Nemendur í 9.-10.bekk Súðavíkurskóla duttu heldur betur í lukkupott þegar þeim bauðst að taka þátt í verkefni sem er í gegnum Erasmus og Nordplus og fara í vikuferð til Haag í Hollandi. Þetta er verkefni sem snýr m.a. að flóttafólki og innflytjendum. Fimm til tíu nemendur frá Íslandi, Póllandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Sviss hittast þarna, þar sem hver hópur hefur sér hús til afnota í nokkurskonar sumarhúsahverfi. Krakkarnir vinna svo í hópum þvert á og kynnast krökkunum frá hinum löndunum. Hver hópur er með kynningu á sínu landi og á sínum stað og bjóða öllum til kvöldverðar þar sem boðið er uppá rétt frá sínu landi. Okkar hópur bauð uppá kjötsúpu og hnallþóru í eftirrétt og fengu mikið lof fyrir. Þá er gefin gjöf til allra og reyna allir að hafa eitthvað sérstakt frá sínu landi, okkar nemendur gáfu páskaegg sem slóg í gegn hjá öllum. Þá var einnig farið í skoðunarferðir og m.a. fengu þeir að skoða þinghúsin, ráðuneytin, Hús evrópusambandsins og Friðarhöllina.

Engin ferð er farin nema fylgdarmenn fáist til verksins og okkar nemendur voru svo heppin að Lóa Harðardóttir og Gísli Pálmason frá Heydal, voru tilbúin að fara og vera með þeim í bíðu og stríðu. Þeim ber að þakka sérstaklega vel fyrir vel unnið starf.

Það er allt greitt vegna þessa verkefnis nema flugið, sem þýddi að við þyrftum á styrkjum að halda til þess að komast í þessa ferð. Haft var samband við nokkur fyrirtæki og var okkar bón mjög vel tekið. Við fengum styrk fyrir fluginu og viljum við þakka kærlega, eftirtöldum fyrirtækjum fyrir: Hraðfrystihúsið Gunnvör, Vestfirskir Verktakar, Fiskmarkaður Vestfjarða, Tígur, Vestfiskur, Litli Múli, Útgerðarfélagið Brim og Artic Fish.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og allir ánægðir, kærar þakkir fyrir, þið öll sem gerðu þessa ferð að veruleika

F.h Súðavíkurskóla

Anna Lind Ragnarsdóttir

Skólastjóri Súðavíkurskóla

ljósmyndir