Matsáætlun 2024-2025

Matsáætlun Súðavíkurskóla 2024 - 2025

Um Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli er fámennur skóli sem samanstendur af þremur skóladeildum þ.e. leik- grunn- og tónlistardeild (sem ekki var starfrækt í vetur). Skólinn er staðsettur í miðju þorpsins og því stutt til fjalls og fjöru. Umhverfið gefur mikla möguleika til að nýta til kennslu. Atvinnulíf í þorpinu hefur orðið einsleitara með árunum og fyrirtækjum fækkað, það er því ekki mikil sóknarfæri hjá skólanum þegar kemur að því að tengja grunnskóla og atvinnulíf í nærumhverfi. Slíkt er þó reynt eftir því sem tækifæri gefast og tengist það þá sjávarútvegi. Áhersla á hreyfingu er stór þáttur í skólastarfinu og þrisvar í viku hefjum við skólastarfið á hreyfingu í íþróttasalnum. Mötuneyti er starfrækt í skólanum þar sem boðið er upp á gjaldfrjálsan morgun- og hádegismat. Það eru 11 nemendur í leikskóladeild, 16 nemendur í grunnskóladeild. Fimm ára nemendur í leikskóladeild eru 10-12 kennslustundir í grunnskóladeildinni og þá í samkennslu með yngsta stigi. Starfsmenn við skólann (leik- og grunnskóla) eru 6 í mismiklu starfshlutfalli, þ.a. einn í þrifum. Þá má geta þess að mikill fjölbreytileiki er í skólanum, hvað þjóðerni varðar, en nemendur og starfsmenn eru af 8 þjóðernum.

Aðferð

Skólastjóri og leiðbeinendur ásamt skólasálfræðingi skólans, unnu eftir 5 ára matsáætlun, (sjá fylgiskjal 1) teknir eru fyrir þættirnir: 1) Stjórnun – liður d) skólaþróun. 2) liður c) Skólabragur – samstarf heimila og skóla - foreldrakönnun

  1. Skólaþróun

Á árunum 2020 – 2023 tóku starfsmenn skólans ásamt skólastjóra þátt í skólaþróunarverkefni um innleiðingu Leiðsagnarnáms undir stjórn Nönnu Kristínar Christiansen. Þetta verkefni sem stóð yfir í 3 ár var einnig samstarfsverkefni Súðavíkurskóla, Bolungarvíkurskóla og grunnskóla Ísafjarðarbæjar.

Að þessu verkefni loknu lá beinast fyrir að viðhalda skólaþróun Súðavíkurskóla með því að innleiða Byrjendalæsi við skólann en sú stefna helst vel í hendur við Leiðsagnanámið.

Skólastjóri og kennari hafa tekið þátt í skólaþróunarverkefni í byrjendalæsi við Miðstöð Skólaþróunar Háskóla Akureyrar síðast liðin tvö ár (2023 – 2025) og höfum lokið því námi. Byrjendalæsi er umgjörð um heildstæða læsiskennslu þar sem lögð er áhersla á árangursríka starfshætti kennara og fjölbreyttar námsleiðir sem stuðla að þátttöku og árangri nemenda. Skólar gera samning við MSHA um stuðning við innleiðingu, framkvæmd og mat á Byrjendalæsi.

Matslistinn

Listinn skiptist í 3 þætti með mismunandi fjölda stiga undir hverjum þætti

  1. Skipulag og umgjörð byrjendalæsis - 24 stig
  2. Grunnstoðir byrjendalæsis - 105 stig
  3. Þættir í læsi – 84 stig Heildarstig = 213

Hver spurning hefur þrjá svarmöguleika

1 = afar lítið/sjaldan eða ekki

2 = talsvert/oft eða að nokkru leyti

3 = alla jafna/oftast

Matið er tvíþætt: Annars vegar er lagt mat á skipulag og umgjörð starfsþróunar í Byrjendalæsi og hins vegar á það hvernig unnið er með grunnstoðir og þætti Byrjendalæsis. Hvort tveggja nýtist skólum sem hluti af innra mati.

Matinu er ætlað að ýta undir ígrundandi samræðu kennara sem leggja mat á starfshætti sína í Byrjendalæsi til að koma auga á styrkleika og sóknarfæri. Niðurstöður verða nýttar til að leggja mat á stöðu Byrjendalæsis í skólanum og leggja drög að frekari þróun starfshátta undir handleiðslu MSHA.

Markmið

Markmiðið með þessu matstæki er að aðstoða skóla við að leggja mat á starfshætti í Byrjendalæsi og nota niðurstöðu matsins til leiðsagnar fyrir starfsfólk skóla og MSHA.

Viðmið

Matslistinn er 213 stig í heildina. Viðmið um góða stöðu í Byrjendalæsi er að ná 80% í hverjum þætti fyrir sig en þættirnir eru þrír.

 

Niðurstöður

Eftir að fara í sjálfsmat, kynnt okkur matslistann vel og samræmt skilning okkar á hverjum matsþætti, fylltum við út listann í sameiningu.

Þáttur eitt um skipulag og umgjörð byrjendalæsis erum við með 16/24 =67%

Þáttur tvö um grunnstoðir byrjendalæsis erum við með 94/105 = 89%

Þáttur þrjú um þætti í læsi erum við með 80/84 = 95%

Niðurstöður hans í heild eru 190 stig af 213 sem gera 89%.

Umbætur

Það er ljóst að fyrsti þátturinn um skipulag og umgjörð byrjendalæsis þar erum við ekki að ná viðmiðum sem gerð eru.

Það eru einkum þrír þættir sem sjáum strax að við getum ekki uppfyllt en þeir eru

  1. Það starfar ekki leiðtogi/leiðtogar í skólanum okkar
  2. Að minnsta kosti fjórir samráðfundir um BL eru haldnir á hverju skólaári undir stjórn leiðtoga
  3. Leiðtogi kynnir nýjar kennlusáætlanir frá MSHA og nýútkomnar barnabækur fyrir kennara

Þarna getum við ekki merkt við neitt svar og setjum, á ekki við, þar sem við höfum ekki leiðtoga í skólanum eða við skólann. Við getum ekki skapað hann (strax) kannski kemur að því að einhver útskrifast sem leiðtogi og vinnur hjá okkur.

Enn heilt yfir erum við tvær sem höfum verið að vinna með BL ánægðar með útkomuna á matinu okkar og ætlum að klappa okkur á öxlina og halda ótrauðar áfram með þessa frábæru vinnu sem byrjendalæsi býður upp á og verðum áfram í sambandi við MSHA í þeirri frábæru vinnu sem þar er.

 

  1. Skólabragur – samstarf heimila og skóla - foreldrakönnun

Skólabragur

Súðavíkurskóli hefur unnið eftir Uppbyggingarstefnunni (Uppeldi til ábyrgðar) síðan 2009. Þessi stefna hefur virkað vel fyrir skólastarfið. Við leggjum sérstaka áherslu á fjögur lífsgildi sem eru einkunnarorð skólans og sameign allra.

Þau eru: Vellíðan sem felur í sér viðurkenningu, gleði og góðan starfsanda.

Virðing sem felur í sér vandvirkni, tillitssemi og trausti.

Heiðarleiki sem felur í sér hreinskilni, sáttfýsi og samtöðu.

Framfarir sem felur í sér framvindu í námi, starfi, samskiptum og leik.

Þá erum við með skýr mörk þar sem allir eru sammála um að standa saman um að stöðva yfirgang, dónaskap, einelti og ofbeldi.

Grunnþarfirnar fimm eru virkar en þær eru: Umhyggja – að tilheyra. Frelsi – að fá að velja. Áhrif – að standa sig vel. Ánægja – að hafa gaman. Öryggi – að lifa af. Það að þekkja þarfir sínar er grundvöllur þess að maður skilji hegðun sína og geti breytt henni til betri vegar. Það er öllum hollt að skoða sjálfa sig og reyna að komast að því hvaða þarfir eru sterkari hjá þeim og hverjar veikari. Að læra að bera ábyrgð á hegðun sinni og gjörðum er mikill kostur fyrir hverja manneskju.

Gerður er bekkjarsáttmáli á hverju skólaári, þar sem nemendur koma sér sama um reglur sem þeir vilja leggja áherslu á yfir veturinn í skólastofunni.

Sáttarleiðin sem felur í sér að kenna nemendum að leita sátta ef upp koma árekstrar, er virk leið sem allir læra.

Reglulega eru haldin foreldrafærni námskeið um stefnuna, gefin út fréttabréf og miklar upplýsingar eru á heimasíðu skólans, þannig að allir geti fylgst með

Þriggja ára þróunarverkefni um innleiðingu Leiðsagnarnáms (2019 – 1922) hefur verið reynt að vinna eftir því eins og kostur er, en kennarar sem tóku þátt í verkefninu hafa látið af störfum. Leiðsagnarnám er námsmenning þar sem nemendur og kennarar hafa vaxandi hugarfar, trú á sjálfum sér, hæfni til að greina eigin námsvitund og litið er svo á að allir geti tekið meiri framförum. Kennarar eru með námsveggi í skólastofum og skýr markmið sem nemendur skilja og leggja sig fram við að ná til að auka árangur sinn. Verkefni er sett upp með endurgjöf reglulega og hefur það gengið mjög vel.

Byrjendalæsi hefur verið þróunarverkefni síðast liðin tvö ár og er gert skil í lið 1 í þessari skýrslu. En þess má geta að Byrjendalæsi á vel við með Uppbyggingarstefnunni sem og leiðsagnarnáminu, þetta þrennt talar vel saman og fléttast vel inn í allt skólastarf.

Samstarf heimila og skóla

Foreldrar eiga greiðan aðgang í skólann á meðan skólinn er opinn. Ekki þarf að panta tíma heldur bara að mæta. Flestir foreldrar mæta á skólasetningu við upphaf skóla sem og á skólaslit við lok hans. Námsefniskynning er alltaf við upphaf skólastarfsins og þá mæta foreldrar til kynninga á öllu námsefni, kennsluáætlunum og fleiru sem áætlað er að fara í um veturinn. Þá er einnig farið yfir fyrirhugað skólastarf, uppákomur, reglur, leyfisveitingar og margt fleira.

Foreldrar barna á unglingastigi hjálpa alltaf til með íþróttahátíð sem haldin er árlega í Bolungarvík. Síðdegis taka foreldrar við gæslu sem stendur fram til kl. 22:00 og keyra nemendur heim að því loknu.

Foreldraviðtöl eru tvisvar á ári, þar mæta foreldrar með barni/bönum sínum í viðtal um stöðu þeirra í náminu, líðan o.s.frv. Þessi viðtöl eru í desember og maí ár hvert.

Jólagrín er viðburður sem nemendur bjóða foreldrum til í desember, þar sem ýmist eru sýnd leikrit eða brugðið í leiki sem nemendur sjá alfarið um. Þetta hefur reynst skemmtileg samverustund. Þá er öllum foreldrum boðið í kaffi og piparkökur í byrjun desember, en þá hafa nemendur bakað og eða skreytt piparkökur fyrir kaffiboðið.

Árshátíðin er oftast haldin í mars/apríl, þá setjum við upp leikrit sem haldið er í Samkomuhúsinu og allir foreldrar mæta þangað. Að sýningu lokinni heldur foreldrafélagið kaffisölu í skólanum þar sem borðin svigna undan ýmsum kræsingum. Ágóðinn rennur til nemendafélagsins, en foreldrar sjá bæði um uppsetningu og þrifum að kaffi loknu. Þá hefur foreldrafélagið einnig séð um öskudagsball fyrir alla nemendur skólans, þar sem kötturinn er sleginn úr tunnunni. Þarna skemmta allir sér saman í grímubúningum og að balli loknu er haldið á að maska við hvert heimili og óskað eftir sælgæti í stað söngs.

Þetta er það helsta sem foreldrar eru að mæta á, en þess má geta að ekki hefur staðið á aðstoð þeirra ef óskað er eftir einhverri aðstoð.

Foreldrakönnun

Aðdragandinn að því að kaupa aðra foreldrakönnun frá Skólapúlsinum, bæði fyrir leik- og grunnskóla, fyrir skólaárið 2024-2025 var gerð í kjölfari niðurstaðna á foreldrafundi við lok skólaársins 2023-2024. En það skólaár var keypt foreldrakönnun frá Skólapúlsinum bæði fyrir leik- og grunnskóla, þar sem niðurstöður úr þeirri könnun komu vægast sagt illa út. Þar var því ákveðið að gerð yrði ný könnun þar sem hugsanlega gæti verið að foreldrar af erlendu bergi, hefðu misskilið spurningarnar eða svarmöguleika þeirra.

Aðferð

Skólapúlsinn var fenginn til þess að leggja fyrir tvær foreldrakannanir, önnur fyrir foreldra leikskólabarna og hin fyrir foreldra grunnskólabarna. Við köllum leikskóla könnunina A og grunnskólakönnunina B.

Foreldrakönnun A) – leikskólaforeldrar

Skólastjóri tók saman niðurstöðurnar, alls voru 5-6 foreldrar sem svöruðu könnuninni. Könnunin kom betur út heldur enn 2024 en þó eru nokkrir þættir að koma illa út.

Daglegt leikskólastarf voru 6 spurningar og komu tvær þeirra út í mínus. Ánægja með leikskólann var – 52,6 %. og ángæja foreldra með stjórnun var – 14%.

Námsumhverfi eru 4 þættir þar sem þrír þeirra koma illa út, en þeir eru: Vinnubrögð -38,7 %, Aðstaða – 31,6% og Félagsleg samskipti -15,4%.

Samskipti við forelda eru 7 þættir og komu 4 þeirra illa út.

Upplýsingamiðlun – 44,7 %, Þekking á stefnu og námskrá leikskólans – 19 %, Hvattning til þátttöku í leikskólastarfinu – 12,0%. Heimasíða leikskólans – 44,5%.

Foreldrakönnun B) - grunnskólaforeldrar

Skólastjóri tók saman niðurstöðurnar, alls voru 7 – 8 foreldrar sem svöruðu könnuninni. Könnunin kom heilt yfir vel út.

Viðmið

Að enginn þáttur í könnununum fari niður fyrir -1, miðað við landsmeðaltal.

Niðurstöður

Foreldrakönnun A og B.

Eftir slíka útkomu óskaði skólastjóri eftir foreldrafundi um niðurstöðurnar. Niðurstöðurnar voru kynntar á sex tungumálum. Þar kom fram hjá þeim fáu leikskóla foreldrum sem mættu að þeir hefðu alls ekki þessar hugmyndir um leikskólann.

Þá má geta þess að í foreldraviðtölum þar sem foreldrar mæta til þess að ræða um sitt barn/sín börn að þar kemur ekkert fram sem bendir til þeirrar óánægju sem fram kemur í úttekt Skólapúlsins bendir til.

Úrbætur

Það er eitt Foreldrafélag við Súðavíkurskóla sem er samsett af bæði foreldrum leik- og grunnskóla þar sem fámennið er mikið. Þrátt fyrir þær leiðir sem gerðar voru vegna úttektarinnar 2023-2024 þá er greinilega mikil óánægja með áður talda þætti í leikskóla starfinu.

Búið er að kaupa forritið Karellan sem vonandi kemur til með að bæta upplýsingaflæðið milli leikskóla og foreldra. En með því fá foreldrar upplýsingar um barn/börn sín strax í síma app sem þeir verða með.

Það verður haldinn foreldrafundur með leikskólaforeldrum við upphaf næsta skólaárs og vonandi verðu hægt að finna út og leysa þá óánægju sem fram kemur í könnuninni.

Niðurstöður innra mats Súðavíkurskóla 2024-2025

Þegar niðurstöður úrbótaáætlunar frá því skólaárið 2023-2024 eru skoðaðar, þá hefur náðst að uppfylla þau skilyrði sem taka þurfti fyrir og telst úrbótum lokið. Ákveðið var að leggja fyrir aðra foreldrakönnun fyrir bæði leik- og grunnskóla fyrir þetta skólaár líkt og gert var á síðasta skólaári og er tíunduð hér fyrir ofan. Könnunin sem snýr að leikskólaforeldrum verður haldið áfram að leita lausna næsta skólaár. Annað kom vel út.

Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri